Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 18:16:35 (6950)

1996-05-31 18:16:35# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[18:16]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er einn einu sinni komið til umræðu frv. til laga um stjórn fiskveiða sem kannski kemur engum á óvart vegna þess að hér er um mjög mikilvæga löggjöf að ræða. Þetta er löggjöf sem ávallt hlýtur að vera í þróun. En ég held að það komi engum á óvart núna að þetta frv. kemur til umræðu vegna þess að það var alveg ljóst, síðast þegar breytingar voru gerðar á lögunum, að ekki ríkti ánægja með þær og það hlaut að koma að því að þetta mál kæmi fljótt aftur inn í þingið.

Eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu er frv. byggt á samkomulagi milli sjútvrh. og Landssambands smábátaeigenda. Það er mjög athyglisvert ekki síst nú á þessum vetri þegar hvert málið á fætur öðru hefur farið í gegnum þingið þar sem samráð við aðila hefur verið gjörsamlega hunsað. Hér er reyndar um að ræða eina helstu auðlind þjóðarinnar, gífurlega hagsmuni og þá er gengið svo langt ekki aðeins að hafa samráð við viðkomandi aðila heldur að gera bindandi samkomulag. Ég vil vekja athygli á þessu sérstaklega í samanburði við önnur mál sem hér hafa verið til umræðu.

Þetta samráð náði reyndar eingöngu til viðkomandi hagsmunahóps. Það var ekki haft samráð við Alþingi um þetta eða sjútvn. eða við aðra hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Það hefur verið gagnrýnt mikið eins og alþjóð veit. En kosturinn við það samkomulag sem fyrir liggur er sá að það ríkir sátt um fyrirkomulagið. Þá aukast vonandi líkurnar á því að þetta samkomulag verði virt og ekki þurfi að breyta lögunum strax aftur. En það er mjög mikilvægt að átta sig á þessu og mér finnst sjálfri mjög umhugsunarvert að um þessa helstu auðlind okkar, sjávarútveginn, skuli vera í gildi lög sem eru svo umdeild. Ég er sjálf mjög ósátt í grundvallaratriðum við lögin um stjórn fiskveiða og á þar af leiðandi dálítið erfitt með að lýsa yfir ánægju með einstakar breytingar sem að mínu mati eru bara krafs í bakkann. Ég hefði sem sagt kosið að löggjöfin um stjórn fiskveiða væri tekin upp með miklu víðtækari hætti en hér er gert.

En grundvallaróánægja mín varðandi lögin um stjórn fiskveiða almennt er um það að mér finnst vera mótsögn á milli sameignarákvæðis í 1. gr. laganna og þess hvernig aflaheimildum er úthlutað og hvernig þær virðast smátt og smátt vera að færast á færri hendur. Síðan er verslað með þessar framseljanlegu heimildir sem þó eru færðar sjávarútveginum eða útvegsmönnum á silfurfati, frítt. Mér finnst vera mótsögn á milli þessa og svo aftur hvernig þetta er útfært, þ.e. að ríkið fær ekki neinn arð af þessu. Þá hljóta ávallt að koma upp hugmyndir um að allar þær breytingar sem gerðar eru séu ekki réttlátar gagnvart þessum hópi eða hinum. Nú er óánægjan sú að þetta frv. hygli smábátaeigendum eða þeim hluta þeirra sem ekki völdu aflamarkið í upphafi en á kostnað annarra. Ég vil taka það skýrt fram að ég er hlynnt í grundvallaratriðum þeirri meginbreytingu sem er í frv., þ.e. að krókabátar fái samsvarandi aukna hlutdeild í þorskaflahámarki eins og þeir bátar sem eru á aflahámarki. En um leið verð ég að láta í ljós að ég er í prinsippinu á móti því að ákveðnum hópum séu veittar varanlegar aflaheimildir, ekki síst í ljósi þeirrar réttaróvissu sem nú ríkir í landinu um það hvort aflaheimildir eru alvöru einkaeign eða ekki.

Það er ljóst að mínu mati að aflamarkskerfið í heild hefur mjög mikla ókosti. Það er ekki vistvænt. Það stuðlar að brottkasti og eignarhaldið á framseljanlegum aflaheimildum er þannig að það er mjög erfitt að stjórna því úr því sem komið er hvert leiðir. Það virðist vera að reynslan sé orðin svo sterk. Ég vil nefna sem dæmi Nýja-Sjáland þar sem fyrirhugað var að nota ákveðið kerfi eins og hér við að úthluta aflaheimildum. Síðan komu frumbyggjar og vitnuðu í eldri lög og þá varð ríkið hreinlega að borga þessum aðilum kvótann upp á nýtt. Mér sýnist því að við séum yfir höfuð með mjög vafasamt kerfi við stjórn fiskveiða. Það er hannað af hagfræðingum og getur verið efnahagslega hagkvæmt. En það særir réttlætiskennd margra hópa og það verður eilíft stríð á milli sjómanna sem stunda veiðar með mismunandi veiðarfærum og á misstórum skipum, úr mismunandi byggðarlögum, bæði lítilla og stórra þannig að ég er alveg sannfærð um að það mun aldrei ríkja sátt um þetta kerfi.

Ég lýsi því yfir að ég fagna því að hér er gert vel við smábátaflotann sem ég tel að eigi sögulegan rétt til að sinna fiskveiðum. Þetta eru oft bátar sem þjóna þeim byggðarlögum sem þeir eru gerðir út frá. Það sem í rauninni er hér að gerast er að það er verið að hvetja krókabátana til að fara á aflamarkskerfið með því að heimila að fiskveiðiheimildir þeirra verði framseljanlegar þó það sé innan hópsins og að lofa þeim viðbótaraflaheimildum. Það má því alveg búast við að þeir sem velja áfram róðrardaga muni eftir nokkur ár eða jafnvel strax næsta ár finnast þeirra hlutur of lítill miðað við hina. Það er mjög líklegt að þeir muni líka og sem flestir velja aflamark. Þá er náttúrlega augljóst hver tilgangurinn er. Það er að slá þessum tveim kerfum saman að því er virðist. Og ég er ekki endilega sátt við þá þróun. Ég tel að það stefni í að það sé hætta á að aflaheimildir verði einkaeign og jafnvel að þær flytjist til útlanda og að við missum smám saman algjörlega stjórnina á auðlindinni.

Ég tel að hér sé verið að krukka í þetta kerfi krókabátunum í hag og í grundvallaratriðum er ég sátt við að þeir fái aukna hlutdeild. En ég sé alveg fyrir mér hver tilgangurinn er með þessu. Ég er alls ekki sátt við lokapunktinn í því og hvert þetta leiðir.

Það er ekki ætlun mín að ræða um einstakar tillögur. Við kvennalistakonur munum taka afstöðu til þeirra eftir því hvort okkur finnst þær horfa til bóta eða ekki. En í grundvallaratriðum er ég sammála þessu frv.