Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 18:39:59 (6952)

1996-05-31 18:39:59# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, Frsm. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[18:39]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti í tveimur málum, um vörugjald og um virðisaukaskatt. Eins og fram kom í máli hv. formanns efh.- og viðskn. hanga þessi mál saman.

Mér fannst mjög athyglisverð síðasta yfirlýsing hv. þm. um að hann gæti ekki mælt með þessari útfærslu sem hann lagði til, þ.e. í sambandi við tekjuöflunina. En hann hefði ekki fundið neitt betra. Einmitt þetta atriði er eitt aðalgagnrýnisatriði okkar varðandi þetta mál.

Þetta mál sem við erum að ræða hér nokkuð síðla dags er hápólitískt. Þar sem yfirskriftin er vörugjald og virðisaukaskattur halda menn að hér sé um að ræða enn eitt tæknifrv. frá efh.- og viðskn. En svo er ekki. Þetta mál er flókið og erfitt úrlausnar vegna þess að það upphófst með kæru Félags ísl. stórkaupmanna til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um framkvæmd álagningar vörugjalds hér á landi. ESA eða Eftirlitsstofnunin tók þessa kæru til greina og gerði athugasemdir við tiltekna þætti í útfærslu hér á landi. Það var ekki um annað að ræða fyrir stjórnvöld en að leggja til breytingar á lögum um vörugjald. Annars hefði málið farið fyrir dóm í Brussel. Grunnurinn er vitaskuld sá að við höfum undirgengist skuldbindingar í tengslum við EES-samninginn. Það er búið að liggja nokkuð lengi fyrir að það þyrfti að taka á þessu máli, en kæran er frá því í ársbyrjun 1994 eða röskra tveggja ára. Þá var málið upphaflega kært.

Stjórnvöld eða ríkisstjórnin svarar ESA með þessum tveimur frumvörpum, þ.e. þau gera breytingar á vörugjaldinu og af því að það hefur í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð gera þau jafnframt tillögu um tekjuöflun þar á móti. Uppbygging frv. er sú að það er lagt magngjald á tiltekna vöruflokka í stað verðgjalds sem nú er lagt á. Það eru sem sagt lagðar kr. á kg í staðinn fyrir prósentulagningu. Í öðru lagi er vörugjaldið fellt niður á nokkrum vöruflokkum. Í þriðja lagi er gjaldflokkum fækkað nokkuð og í fjórða lagi er gert ráð fyrir í frv. að frestur til greiðslu á vörugjaldi verði samræmdur gagnvart innflutningi og innlendri framleiðslu.

Þetta frv. hefur í för með sér að mati fjmrn. tekjutap upp á 450 millj. en tekjuaukningarfrv., þ.e. um virðisaukaskatt, á að skila 440 millj. Minni hluti efh.- og viðskn., en að nefndarálitinu stendur auk mín hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, gerir athugasemdir við útfærslu meiri hlutans á vörugjaldinu. Við viljum benda á að það að taka upp magngjald í staðinn fyrir verðgjald hefur vitaskuld þau áhrif að hagstæð innkaup, sem atvinnulífið á vitaskuld að leitast við að gera, koma þá ekki jafnhagstætt út í álagningu og í verðsamkeppni og prósentuálagning. Þessi skattlagningaraðferð leiðir því einfaldlega til hærra vöruverðs. Við setjum því spurningarmerki við þá aðferð að fara í magngjald úr verðálagningu eða verðgjaldi í þeim mæli sem gert er ráð fyrir í frv.

Við teljum sömuleiðis að margt bendi til þess, og það kemur reyndar líka fram í athugasemdum sem okkur hafa borist varðandi þetta frv., að það sé verið að ganga lengra við þessa breytingu en nauðsynlegt hefði verið til að uppfylla kröfur ESA.

[18:45]

Það kom reyndar fram í máli hv. formanns efh.- og viðskn. að það er stefna stjórnvalda að lækka vörugjald enn frekar um næstu áramót. Stefna ríkisstjórnarinnar er einfaldlega sú að reyna að komast út úr vörugjaldsálagningu og láta skattlagningu koma öðruvísi fram eða mæta tekjutapinu með samdrætti í ríkisútgjöldum. En það er boðað í frv. að næsta skref í þessu efni verði stigið um áramót og er gert ráð fyrir að það skref muni kosta ríkissjóð 480 millj. kr.

Það sem við viljum gera athugasemdir við er að vitaskuld hefðum við átt að reyna að leysa þetta mál í fyrstu umferð eingöngu út frá lágsmarkskröfum ESA. Það var ástæðulaust, úr því að það gekk svona illa að koma saman heilsteyptri stefnu sem menn gætu fallist á, að vera með útfærsluna í eins miklu umfangi og frv. og breytingartillögur meiri hlutans gera ráð fyrir. Ég vil hins vegar taka fram að ég tel brýnt að klára málið á þessu vorþingi því að ekki er það minn vilji að þetta mál fari til dóms hjá ESA eins og gerst hefði ef málinu hefðu verið frestað til haustsins. En þessi útfærsla í vörugjaldsleiðinni er í ósamræmi við tillögur nefndar sem ríkisstjórnin, þessi sami ríkisstjórn og leggur frv. fram, setti á laggirnar til að móta tillögur um þetta efni. Í þeirri nefnd áttu sæti ekki einungis fulltrúar ráðuneytanna heldur hagsmunaaðilar og þeir skiluðu stórri skýrslu um hvernig ætti að breyta vörugjaldinu. Þeir lögðu til róttækari breytingar en gert er í frv. og lögðu til að fjármögnuninni yrði þannig háttað að virðisaukaskattur yrði hækkaður um hálft prósentustig.

Þessi niðurstaða sem lá fyrir var samkomulag ráðuneytis og hagsmunaaðila, að minnsta kosti skildu hagsmunaaðilar það og hagsmunaaðilar sem tengjast þessu máli eru vitaskuld Samtök iðnaðarins, íslensk verslun eða Félag íslenskra stórkaupmanna og aðilar sem tengjast verslun og viðskiptum. Það skiptir verulegu máli að þetta sé þannig útfært að menn geti unnið eftir því auk þess sem sanngirni verður að gæta í framkvæmd laganna.

Ríkisstjórnin henti þessu nefndaráliti út í ystu myrkur og lagði fram frv. sem byggir að sáralitlu leyti á þeim tillögum sem nefndin lagði til og á það bæði við um tekjuöflunina sem ég kem að síðar og einnig útfærslu á vörugjaldinu en þá voru ekki farnar þær leiðir sem starfshópurinn lagði til. Ríkisstjórnin ákvað að hækka ekki virðisaukaskatt um hálft prósentustig eins og nefndin lagði til heldur lagði hún fram frv., sem er annað frv. sem við erum að ræða, þar sem gert er ráð fyrir að endurgreiðsla á virðisaukaskatti til byggjenda íbúðarhúsnæðis af vinnu manna á byggingarstað verði lækkuð í 60% af greiddum virðisaukaskatti. Nú er virðisaukinn endurgreiddur að fullu við vinnu á byggingarstað. Við skulum taka dæmi. Einhver lætur vinna verk fyrir 100 þús. Með álagningu virðisaukaskatts er reikningurinn 124 þús. sem húsbyggjandinn borgar og hann fær síðan endurgreiddar þessar 24 þús. kr. sem eru virðisaukaskatturinn. Nú er gert ráð fyrir að lækka þetta endurgreiðsluhlutfall niður í 60% þannig að í stað þess að í þessu dæmi fást 24 þús. kr. endurgreiddar, þá mundi viðkomandi fá um það bil 15 þús. kr. Þetta er einungis dæmi út frá 100 þús. kr. reikningi. Ef um milljón væri að ræða, þá væri tekjutap húseigandans í þessu tilfelli tæpar 100 þús. kr.

Þessi aðferð sem ríkisstjórnin leggur til í frv., það er að lækka virðisaukaskatt til byggingar íbúðarhúsnæðis, er fráleit að okkar mati. Í fyrsta lagi felur hún í sér að byrðarnar af lækkun vörugjalds --- ég nefndi að tekjutap ríkissjóðs vegna þessa væri um 450 millj. --- eru settar á einn aðila, einn hóp í þessu þjóðfélagi. Nú er það ekki svo að vörugjaldið sem lækkar vöruverð eða lækkar skatttekjur ríkisins, sé bara lækkað á vörum sem eru til húsbyggjanda, síður en svo. Þeir eiga einhvern hlut í því en það er augljóst að það er ekki sami hópurinn sem nýtur lækkunar vörugjalds og greiðir fyrir það með minni endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Ef svo hefði verið, þá hefði e.t.v. mátt lifa við það því að þá hefði hér verið um að ræða jöfn skipti innan sama hóps. Svo er ekki í þessu frv. heldur er beinlínis lagður sérstakur skattur á húsbyggjendur til að fjármagna lækkun á vörugjaldi. Þetta er önnur ástæðan fyrir því að við leggjumst mjög harkalega gegn þessum frumvörpum sem ríkisstjórnin er hér með. Það er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að stjórnarliðar höfðu uppi býsna stór orð fyrir kosningar að það þyrfti að bæta hag húsbyggjenda. Hér er farið þvert á þá stefnu. Það hefur ekkert bólað enn þá á neinum aðgerðum til stuðnings eða aðstoðar húsbyggjendum í þessu landi. Eina svar ríkisstjórnarinnar er skattahækkun upp á 440 millj. kr. Það má nefna bara til samanburðar af því að við vorum að ræða fjármagnstekjuskatt fyrr í dag, herra forseti, að gert er ráð fyrir að tekjur af fjármagnstekjuskattinum muni nema um það bil 800 millj. Hér erum við því að tala um skattlagningu sem er ríflega helmingur þess sem fjármagnstekjuskatturinn á að gefa en þessi rúmi helmingur af fjármagnstekjuskattinum á að falla á húsbyggjendur í þessu landi. Þetta er fráleit aðferðafræði og kosningaloforð, sérstaklega Framsfl. sem hafði uppi stór orð um að bæta hlut húsbyggjenda, hafa sjaldan verið svikin jafnhrottalega og í þessari útfærslu enda sé ég ekki marga framsóknarmenn til andsvara í þessu máli. Ég læt það vera. Það sýnir kannski hug þeirra í garð þessa hóps. Þessi hópur var nógu góður til að hafa fögur orð við fyrir kosningar. En eftir kosningar skal hann beðinn um meiri skatta og þá eru menn ekki einu sinni hér til varnar eða útskýringar á þeirri kúvendingu í stefnu þess flokks. Þetta er ámælisvert, herra forseti, en svona er stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli eins og reyndar fleirum.

Það er annað sem gerir það að verkum að frv. er öldungis ófært þar sem endurgreiðsla virðisaukaskattsins er lækkuð með þessum hætti, en það er að það verður mikil hætta á undanskotum og að svört atvinnustarfsemi muni aukast. Það er augljóst að þar sem endurgreiðslan minnkar, þá eykst vitaskuld freisting manna sem eru að láta vinna á byggingarstað, að láta vinna án reiknings og án þess að hlutirnir komi fram og verður þar ríkið bæði af virðisaukaskatti og tekjuskatti. Ég nefni enn og aftur úr þessum ræðustól að undanskot frá skatti eru talin nema hér á landi um 11--14 milljörðum. Og þá er aldeilis öllu snúið við þegar menn ætla sér að lögfesta frv. sem stuðlar að enn meiri undanskotum en við búum við nú þegar.

Nú er hægt að segja sem svo að hér sé bara stjórnarandstæðingur að tala fyrir fáum þingmönnum og að það sé kannski ekki mjög mikið leggjandi upp úr þessum málflutningi. En nú get ég tekið til vitnis hvern einasta umsagnaraðila sem hv. efh.- og viðskn. leitaði til varðandi þetta mál. Hver einn og einasti umsagnaraðili lagðist gegn þessu máli. Við höfum oft haldið því fram, herra forseti, að þessi ríkisstjórn gangi erinda atvinnurekenda í þessu landi. Víst er það að hún hefur verið drjúg í þeirri göngu sinni. En viðbrögð við þessum frumvörpum eru hatramlega orðaðar yfirlýsingar frá Samtökum iðnaðarins, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Íslenskri verslun, Vinnuveitendasambandi Íslands og Verslunarráði en það er ekki kannski mjög venjulegt að það leggist mjög harkalega gegn stjfrv. Öll þessi samtök vinnuveitenda í landinu leggjast gegn frv. Þar kemur tvennt til. Óánægja með útfærslu lækkunar vörugjaldsins en ekki hvað síst mikil og megn óánægja með þá tekjuöflunarleið sem lagt er upp með í frv. Þessi samtök benda öll á hættu á undanskoti og að það verði erfitt að framkvæma þetta kerfi.

Nú ber að taka fram að minni hluti efh.- og viðskn. styður ekki hækkun virðisaukaskatts til að fjármagna þetta. Við erum þeirrar skoðunar að virðisaukaskattur sé býsna hár hér á landi. Hann er mun hærri eða nokkru hærri en í flestum löndunum í kringum okkur og menn hefðu orðið að finna aðra tekjuöflun varðandi þennan þátt í stað þess að hækka sérstaklega virðisaukaskatt þar sem hann er kominn á ystu mörk þess að hvetja ekki til enn frekari undanskota frá þeim skatti eins og nú er. Við erum ekki að leggja til að það hefði verið farið að einu og öllu að tillögu nefndarinnar sem vann málið upprunalega. En það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það upplegg var snöggtum skárra en þau frv. sem ríkisstjórnin endaði með að leggja fram og breyttust lítið í meðförum nefndarinnar af hálfu meiri hluta hennar.

Ég ræddi afstöðu vinnuveitenda í þessu máli. Ég get nefnt til að skýra það nánar að Samtök iðnaðarins telja algerlega óviðunandi að lækka endurgreiðslurnar en halda áfram að skattleggja byggingarefnið sem munaðarvöru. Samtök iðnaðarins benda á að þessi skattheimta sé óþekkt í nágrannalöndunum og þau gera athugasemdir um einstaka gjaldflokka. Þau vísa réttilega til þess samkomulags sem gert var milli hagsmunaaðila og fjmrn. En ríkisstjórnin henti því samkomulagi út af borðinu.

Félag íslenskra stórkaupmanna sem upprunalega kærði álagninguna skilaði ítarlegri umsögn um frumvörpin. Það verður að segjast að þessi samtök öll, sem eru venjulega orðvör og kurteis í framsetningu, eru það svo sem enn þá í þessum umsögnum sínum. En ég hef sjaldan séð jafnharðorðar umsagnir um stjfrv. eins og þar koma fram. Stórkaupmenn telja að þetta frv. eins og upp var lagt með það komi ekki á nokkurn hátt til móts við athugasemdir ESA, að það gangi lengra en áður í að mismuna atvinnugreinum og að áfram verði um að ræða mismunun í álagningu vörugjalds milli innlendra og erlendra aðila. Það skal einnig tekið fram að þeir sögðust ætla að kæra þessa útfærslu aftur til ESA þannig að við erum ekki búnir með að bíta úr nálinni með þetta efni, þ.e. hvort það yfirleitt stenst EES-samninginn. Nefndin gerði smávægilega könnun á því með fyrirspurn til EFTA hvort þetta mundi fullnægja kröfum EFTA. Hún fékk loðin svör sem ekki var gott að lesa úr en þess má geta að fyrir dómstólum Eftirlitsstofnunarinnar eru mál lík þessu þannig að líklega er þetta ekki búið jafnvel þó að ríkisstjórnin knýi í gegn útfærslu sína. Hins vegar er það ekki mál ESA hvernig við náum í fé á móti tekjutapinu og hinn sérstaki húsbyggjandaskattur er vitaskuld alveg án nokkurra tengsla við athugasemd ESA.

[19:00]

Verslunarráðið telur að frv. feli ekki í sér fullnægjandi lausn á þeim vandamálum sem því er ætlað að leysa. Ég hef gert sérstaklega að umtalsefni atvinnurekendasamtökin og vil halda því aðeins áfram. Bílgreinasambandið mælir gegn samþykkt frv. og bendir á að það hefði þurft að kanna sérstaka lækkun á vörugjöldum og öryggisbúnaði og varahlutum og öðrum hlutum sem tengjast öryggisbúnaði og öryggi bifreiða. Þetta er réttmæt ábending en það er ekkert gert með það í frv. eða í breytingartillögum meiri hlutans. Hins vegar má nefna í framhjáhlaupi að efh.- og viðskn. tók sérstakan þátt þess máls út fyrir sviga í frv., sem öll nefndin bar fram, sem breytti aðeins flokkum út frá öryggisjónarmiðum varðandi vörugjald af bifreiðum til að gera einkum meðalstórar og stærri fólksbifreiðar ívið lægri í verði. En varðandi vörugjöld af öryggisbúnaði og varahlutum er allt látið eiga sig en vitaskuld hefði verið hægt að tengja það inn í umræðuna.

Það er óvanalegt að fá svona harðorðar umsagnir frá vinnuveitendum og auðvitað getur maður spurt sig: Er nú loksins verið að ganga erinda verkalýðshreyfingarinnar á einhvern máta? Er ríkisstjórnin búin að sjá ljósið og vill gera eitthvað sem kemur launafólki vel í landinu? Nei, það er ekki svo. Í umsögnum, t.d. frá BSRB, er lagst harkalega gegn þessum frumvörpum vegna þess að samþykkt þeirra mun lækka launakostnað við byggingu íbúðarhúsnæðis og frv. mun leiða til meira en 3% hækkunar byggingarvísitölu sem er ekkert smáræði miðað við þá verðbólgu sem við búum við. Hækkun byggingarvísitölunnar hefur í för með sér hækkun á vísitölu neysluverðs og þannig verður íbúðarhúsnæði dýrara til lengri tíma. Við erum reyndar ekki lengur með tengingu lána við byggingarvísitölu en ef það hefði verið, ekki nema með óbeinum hætti, hefðu öll lán í landinu hækkað um marga milljarða út frá þessu fráleita frv. ríkisstjórnarinnar. En þeir telja sig geta komist í gegnum það með þessari útfærslu að enginn taki eftir því hvað hér er á ferðinni. BSRB bendir eins og skattyfirvöld á það að skattsvik muni aukast þar sem lægra endurgreiðsluhlutfall hefur í för með sér að síður verði unnið eftir reikningi við byggingu íbúðarhúsnæðis eins og ég gat um áðan. Mönnum er alveg ljós þessi mikla hætta sem er á ferðinni á auknum skattsvikum varðandi þetta mál.

Alþýðusambandið telur frumvörpin vera algerlega \mbox{óásættanleg} og í engu samræmi við athugasemdir sem ESA hefur gert og það telur að lækkun á endurgreiðslum muni leiða til aukinnar svartrar atvinnustarfsemi og skattsvika. Þeir mæla gegn samþykkt þessa frv.

Neytendasamtökin telja margra þrepa vörugjald eins og frv. kveður á um fela í sér mikið eftirlit, dýra innheimtu og aukinn kostnað og þau leggjast gegn frv. eins og önnur samtök.

Þegar hér var komið sögu í störfum nefndarinnar var ljóst að þessi útfærsla var ga ga eins og krakkarnir mundu segja. Þá var reynt að setjast yfir einhverjar breytingartillögur varðandi þetta efni og breytingartillögurnar voru kynntar af hv. formanni efh.- og viðskn. en þá bregður svo við að það er engin einasta brtt. við virðisaukafrv. Það er ekki breytt stafkrók í því sem var gagnrýnt hvað mest af öllum umsagnaraðilum svo og af fulltrúum minni hlutans í nefndinni varðadi þetta mál. Það er með eindæmum að frv. skuli koma til 2. umr. eftir þá miklu gagnrýni sem átti við rök að styðjast og er reyndar viðurkennd af meiri hlutanum eins og kom fram í orðum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar hér áðan að vissulega er hann ekki mjög hamingjusamur með að þurfa að standa að þessu frv. og sagðist ekki beinlínis styðja það en hann hefði ekki fundið aðra tekjuöflunarleið.

(Forseti (StB): Forseti vildi trufla hv. þm. í ræðu en gert er ráð fyrir því að gera matarhlé innan stundar og vildi kanna hvort hv. þm. á mikið eftir af ræðu sinni þannig að hann gæti skipt henni. En ef hv. þm. á skammt eftir af ræðunni mundi forseti halda áfram fundinum svo að hv. þm. geti lokið ræðu sinni.)

Herra forseti. Mér var ekki kunnugt um hvenær matarhlé yrði gert þannig að ég á nokkuð efni eftir, að vísu ekki mjög mikið en ég held að það færi þá einna best á því að ég frestaði ræðu minni og tæki þá við þegar forseta hentaði að halda fundinum áfram.

(Forseti (StB): Forseti hafði gert ráð fyrir því að halda fundinum áfram kl. 8.30 og mundi þá gera hlé hér ef það hentar hv. þm.)

Já. Það er í góðu lagi, herra forseti, og ég geri þá hlé á ræðu minni.