Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 20:30:41 (6953)

1996-05-31 20:30:41# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, Frsm. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[20:30]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég held þá áfram að mæla fyrir nefndaráliti frá minni hluta efh.- og viðskn. en að álitinu stendur auk mín hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon eins og ég gat um áður en gert var hlé á fundinum.

Herra forseti. Ég hafði farið aðeins yfir forsögu málsins að vegna kæru Félags ísl. stórkaupmanna til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um álagningu vörugjalds hér á landi var nauðsynlegt að gera breytingar á okkar löggjöf til að mæta þeim kröfum. Þau frumvörp sem eru til umræðu fjalla um það hvernig mæta eigi kröfum Eftirlitsstofnunarinnar gagnvart þessum þáttum.

Aðalatriðið varðandi vörugjaldið er að sú aðferð að taka upp magngjald er ekki góð út frá því sjónarmiði að stuðla að hagkvæmum viðskiptum og í öðru lagi, sem ég gat um fyrr, er þessi útfærsla óþarflega viðamikil miðað við þær kröfur sem Eftirlitsstofnunin gerði því að það er alveg ljóst að það hefði mátt ganga skrefi styttra en gert er í þessu frv.

Ég hef vakið athygli á því, herra forseti, að ríkisstjórnin setti á laggirnar sérstaka nefnd til að vinna að þessu máli með hagsmunaaðilum. Þar hafði náðst samkomulag en síðar þegar á reyndi vildi ríkisstjórnin ekkert með það samkomulag gera og flytur gerbreytt frv. sem hefur verið til umfjöllunar á hinu háa Alþingi. Breytingartillögur nefndarinnar um vörugjaldsmálin eru lítilvægar. Þær eru flestar tæknilegs eðlis og þær varða m.a. samræmingu á uppgjörstíma og möguleikum smærri flutningafyrirtækja að vinna betur innan kerfisins. Hægt er að skipta breytingartillögum meiri hlutans í nokkra þætti og ég sé reyndar ekki ástæðu til að fara yfir það. Það var gert af hv. formanni efh.- og viðskn. en það kom einnig skýrt fram í máli hans að hér væri um smávægilegar breytingar að ræða.

Ég get þess að menn urðu að leiðrétta þætti sem tengdust t.d. steinullarverksmiðjunni vegna þess að ekki er sama hvort menn miða við rúmmál eða þyngd þegar um slíkt efni er að ræða en leiðréttingu á þeim þætti var fundinn staður í breytingartillögu meiri hlutans. Höfuðgagnrýnisatriðið sem snýr að vörugjaldinu var, sem ég nefndi áður, að hér er gengið of langt miðað við kröfu ESA og það hefði mátt gera minna í þessu máli. En hitt sem varðar meiru er að hér er búið til óhagkvæmt kerfi fyrir neytendur í landinu með upptöku magngjalds að nokkru leyti í staðinn fyrir verðgjald. Einnig má geta þess að flokkunum í frv. er ekki fækkað jafnmikið og nefndin títtnefnda hafði lagt til. Þetta ber allt að sama brunni að ekki var farið að ráðleggingum þeirra aðila sem best þekkja til og verða að vinna með útfærslu málsins.

Ég gat sérstaklega um þær umsagnir sem höfðu borist nefndinni. Þær voru umfangsmiklar og þær höfðu það eitt sameiginlegt að öll samtök, bæði vinnuveitenda, hagsmunasamtök og verkalýðsfélaganna, lögðust mjög harkalega gegn þessu frv. Fyrst og fremst er ástæðan sú sem ég nefndi. Það er útfærslan á tekjuöfluninni fyrir ríkissjóð en með því er skattlagður sérstaklega einn hópur í landinu, þ.e. húsbyggjendur, og er nú heldur betur komið aftan að málum þegar einn helsta skattstofn ríkisstjórnarinnar er að finna hjá húsbyggjendum miðað við þau loforð sem ríkisstjórnarflokkarnir gáfu fyrir síðustu kosningar.

Herra forseti. Ég rakti nokkur atriði úr umsögnum aðila og vil líka geta þess að við fengum þá alla á fund þegar málið lá þannig fyrir að það var orðið gersamlega óásættanlegt gagnvart þeim aðilum sem áttu að vinna eftir því. Þar voru kynntar breytingartillögur nefndarinnar að nokkru leyti en á þeim fundi, sem var haldinn með öllum hópnum, var frv. gagnrýnt mjög harðlega, sérstaklega virðisaukaskattsfrv. út frá tveimur forsendum. Í fyrsta lagi að það væri ósanngjarnt að leggja þessar byrðir á einn hóp, þ.e. húsbyggjendur, því að þeir koma ekki til með að njóta lækkunar vörugjaldsins nema að takmörkuðu leyti. Í öðru lagi mun þessi aðferðafræði stuðla að meiri skattsvikum en tíðkast, þ.e. það liggur nokkuð í augum uppi þegar endurgreiðslan er lækkuð að það mun vera hvati til aðila að stunda viðskipti sín á milli án þess að reikningur sé gefinn út og má þá benda á að ekki tapist einungis virðisaukaskattur fyrir ríkissjóð í því tilfelli heldur önnur gjöld, þar á meðal tekjuskattur. Ég tel fráleitt að ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkarnir skuli standa að löggjöf sem opnar fyrir meiri heimildir eða möguleika til undandráttar á skatti. Satt best að segja finnst mér alveg með eindæmum að það skuli vera gert því að allir þessir aðilar sem við ræddum við bentu á þetta og þetta eru aðilar sem vita nákvæmlega hvernig viðskipti gerast á markaðnum. Við þekkjum öll að það er ekki óalgengt að einmitt slík vinna er ekki alltaf gerð á grundvelli reikninga og rétts bókhalds. Hér er vitaskuld komið aftan að ekki einungis húsbyggjendum því að þeir hafa getað reiknað með þessari endurgreiðslu. Fjölmargir einstaklingar hafa haft samband við mig í tengslum við þetta mál og lýst yfir sérstökum áhyggjum vegna þess því að fólk hafði gert áætlanir sínar um vinnu á byggingarstað eins og er náttúrlega að eiga sér stað alls staðar í landinu á fleiri þúsund byggingarlóðum eða í húsum og hafði reiknað með fullri endurgreiðslu af virðisaukaskatti. Nú á einungis að endurgreiða 60% af skattinum. Þetta skiptir verulega miklu máli því að tekjur vegna þessarar virðisaukaskattsbreytingar svara til 440 millj. kr. skattlagningar og eins og ég gat um er reiknað með að fjármagnstekjuskatturinn, sem hefur verið í umræðu bæði í dag og í þjóðfélaginu nokkuð lengi, mun gefa um 800 millj. í tekjur. Það er því orðið ljóst að við erum að afgreiða, liggur við á næturþeli, aukaskattlagningu upp á 440 millj. sem á að lenda eingöngu á húsbyggjendum. Það er athyglisvert út af þessum samanburði við fjármagnstekjuskattinn, sem allt þjóðfélagið er á öðrum endanum út af og sú skattlagning sem dreifist reyndar víða, eigi að gefa um 800 millj. Mér finnst mjög merkilegt að þetta mál skuli hafa náð svona langt án þess að hafa fengið almennari umræðu en raun ber vitni.

Það er ljóst varðandi þetta frv. að við í minni hlutanum gátum ekki átt neina samleið með meiri hlutanum við að útbúa tillögur um að leysa þennan ágreining gagnvart Eftirlitsstofnuninni. Við lögðum til að það yrði reynt að stíga skemmra skref í þessu máli, þ.e. reynt að uppfylla kröfur Evrópusambandsins og hægt hefði verið að útfæra það á þann hátt að ekki komi til nýrra klögumála en í stað þess að hlusta á hinar vinsamlegu ábendingar minni hlutans í málinu kaus ríkisstjórnin að fara fram með frv. sem er meingallað í útfærslu og með skelfilegri fjármögnunarleið sem er þessi breyting á endurgreiðslu virðisaukaskatts sem ég hef gert að umtalsefni.

Við lögðum einnig til að breyting á vörugjaldaflokkunum hefði verið gerð með öðrum hætti og hefðum þá kosið að það hefði verið stuðst meira við vinnu starfshópsins sem lagði fram skýrslu um málið. Þar voru margar góðar ábendingar um útfærslu á lækkun vörugjalds þótt svo þær tillögur hefðu gengið lengra en síðan endanlega frv. hljóðaði en það var beinlínis misráðið af ríkisstjórninni að vera að tengja lækkun vörugjalds almennt stefnu um lækkun vörugjalds þessari væntanlegu málssókn ESA. Miklu frekar hefði átt að gera breytingar á löggjöfinni sem hefði mætt kröfum EFTA-dómstólsins en síðan hefðu menn getað tekið almenna umræðu um breytingar á vörugjaldi.

Ég hef nefnt að ríkisstjórnin stefnir að því að lækka vörugjald enn frekar og þá um 480 millj. um næstu áramót en það liggja ekki fyrir neinar tillögur um tekjuöflun þar á móti svo að e.t.v. mega húsbyggjendur búast við meiri skattlagningu af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað varðar það efni.

Sú aðferð að láta húsbyggjendur greiða fyrir lækkun vörugjalds eins og lagt er til í frv. er gersamlega ótæk að mati minni hluta efh.- og viðskn. Þar eru lagðar sérstakar byrðar á einn hóp landsmanna, þ.e. húsbyggjendur, og er athyglisvert að hugsa um það í ljósi þeirra kosningaloforða sem einkum Framsfl. gaf fyrir síðustu kosningar. Ég sé að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er í salnum og það væri mjög athyglisvert fyrir okkur þingmenn og reyndar þjóðina alla að fá útskýringar þingmannsins á þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Ef ég fæ, herra forseti, aðeins að segja í tveimur, þremur setningum um hvað málið snýst því að ég geri mér fulla grein fyrir því að hv. þm. hefur ekki komið að undirbúningi málsins en það snýst um það að vörugjald er lækkað sem þýðir tekjutap fyrir ríkissjóð upp á 450 millj. Það er fjármagnað með lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts upp á 440 millj. Með þessum hætti eru húsbyggjendur skattlagðir alveg sérstaklega og ég vildi mjög gjarnan fá svör hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur ef hún má vera að því að hlusta á þær spurningar gagnvart Framsfl. sem ég tel brýnt að fá svör við. Ég er þess fullviss að fulltrúa Alþfl. leikur einnig hugur á að fá nánari skýringar og útlistun á kosningaloforðum Framsfl. Eins og þingheimur veit er sá hv. þm. sérfræðingur í loforðum þess flokks. Það kemur í ljós hvort Framsfl. á sér einhvern málsvara sem getur skýrt muninn á orðum og gerðum um þennan málaflokk. Þessi aukaskattlagning er að mati okkar stjórnarandstæðinga fráleit.

Þá mun lækkun endurgreiðslu virðisaukaskattsins jafnframt kalla á aukna svarta atvinnustarfsemi og undanskot frá skatti þannig að hér er eins og ég gat um áðan verið að gata enn frekar skattkerfi okkar og er það ekki mjög þægileg afgreiðsla að standa að málum eins og hér er gert. Minni hlutinn telur ófært að Alþingi afgreiði lög sem talið er líklegt að munu auka undanskot frá skatti. Við bendum líka sérstaklega á að það hefði átt að íhuga að lækka vörugjald á öryggistækjum í bifreiðum og koma þannig til móts við þá þróun sem hefur orðið alls staðar í heiminum að álögum hefur verið létt af þessum mikilvægu þáttum enda sparast á móti margvíslegur kostnaður innan heilbrigðisþjónustunnar. Þetta var bent á m.a. af hálfu Bílgreinasambandsins og um þetta hefðum við getað fengið betri umræðu og hugsanlega útfærslu í tillögugerð af hálfu nefndarinnar en meiri hlutinn kaus að láta það mál ekkert til sín taka.

[20:45]

Minni hlutinn gaf hins vegar ábendingar um aðrar fjármögnunarleiðir en þær sem frv. gerir ráð fyrir. Það var ekki þannig að við segðum við meiri hlutann að þetta væri fráleitt án þess að við kæmum með tillögugerð á móti. Við bentum á ýmsa þætti sem gætu gert vanda ríkissjóðs minni í kjölfar samþykktar þessa frv. Það var með þetta eins og annað sem minni hlutinn lagði til með málið. Það var ekki hlustað mikið á það og meiri hlutinn kaus að knýja málið nokkurn veginn óbreytt í gegnum þingið.

Herra forseti. Nú er samtal búið að standa hér drykklanga stund. Það er spurning hvort svo eigi að vera áfram eða ... (ÖS: Það er spurt hvort okkar eigi að svara þessum fyrirspurnum.)

Ég nefndi að ekki hefði verið sinnt tillögum okkar minni hlutans um aðrar fjáröflunarleiðir og ekki var tekið tillit til athugasemda frá umsagnaraðilum því það var ekki einungis að þeir legðust þvert gegn þessum frumvörpum heldur einnig að þeir komu að nokkru leyti með útfærðar hugmyndir um betri útfærslu á málinu en frv. gerir ráð fyrir. Það var ekkert tillit tekið til þeirra ábendinga. Breytingartillögurnar eru flestar tæknilegs eðlis, samræming á uppgjörstíma og möguleikar smærri flutningafyrirtækja til að vinna innan kerfisins eru bættir nokkuð.

Hins vegar er mikilvægt að benda á einn þátt varðandi þetta mál --- og er ég að koma lokum máls míns, herra forseti, að ríkisstjórnin gat vitaskuld séð fyrir þessa fjárvöntun við afgreiðslu síðustu fjárlaga því að ég gat um áður að þetta mál var kært í ársbyrjun 1994. Það er búið að liggja nokkuð lengi fyrir að það yrði að taka á málinu með einhverra handa móti sem hefði í för með sér fjárútlát fyrir ríkissjóð. Því var í lófa lagið fyrir ríkisstjórnina við afgreiðslu fjárlaga í haust að gera ráð fyrir í áætlunargerð um fjárlög fyrir tekjum varðandi þennan þátt vegna þess að menn vissu þá að það þurfti að leysa málið núna í síðasta lagi á vordögum. Það liggur líka fyrir að ekki er hægt að fresta þessu máli þó að við í stjórnarandstöðunni mundum gjarnan vilja með þeim rökstuðningi sem á rétt á sér að þetta sé illa unnið mál sem þyrfti að skoða betur yfir sumarið og þá sérstaklega tekjuöflunarþáttinn. Það er ekki hægt í þessu tilfelli því að ef við ljúkum ekki málinu í einhverju formi núna í vor megum við búast við málssókn á hendur íslenska ríkinu og það viljum við ekki. Það eru ámælisverð vinnubrögð, herra forseti, að ríkisstjórnin gerði ekki ráð fyrir tekjuöflun fyrir frv. þegar við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Það hefði meira að segja verið betra að afgreiða þetta vörugjaldsfrv., reyndar aðeins öðruvísi útfært, og gera þá ekki ráð fyrir tekjuöflun á móti og gefa tekjuöflunarfrv. betra ráðrúm, annaðhvort að skoða nýja tekjuöflun á haustdögum eða taka þetta inn í næstu fjárlög. Það hefði verið betra en fara með frv. um lækkun virðisauka eins og hér er gert. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans í málinu eru ekki góð. Við í minni hlutanum munum reyna í umræðunni og með afstöðu okkar í atkvæðagreiðslu að benda sérstaklega á þennan vanda sem við stöndum frammi fyrir. Við höfnum algerlega því að verið sé að leggja á sérstakan húsbyggjendaskatt núna á síðustu dögum þingsins. Okkur finnst fráleitt að leysa úr klúðri ríkisstjórnarinnar með því að leggja sérstakan skatt á húsbyggjendur upp á hálfan milljarð kr. Það er auðséð að ríkisstjórnin veit hvar hún á að leita fanga þegar hún er að reyna að ná í peninga. Það er ekki hjá þeim sem meira mega sín í þjóðfélaginu. Það er hjá almennu launafólki, það er hjá húsbyggjendum, það er hjá ellilífeyrisþegum. Við sáum þetta við afgreiðslu fjárlaga í haust. Við höfum séð það í vetur í umgengni ríkisstjórnarinnar gagnvart samtökum launafólks og við sáum það síðast í dag við afgreiðslu fjármagnstekjuskatts hvaða hagsmuni hún er að verja í landinu. Við erum enn á ný að sjá vitnisburð um stefnu ríkisstjórnarinnar. Það eru lagðir aukaskattar á almenna þegna landsins. Skattur upp á tæpa hálfan milljarð til að fjármagna lækkun vörugjalds sem kemur einungis þessu fólki að hluta til góða. Þetta er óréttlát aðferð sem hér er lagt upp með. Hún mun kalla á aukin skattsvik. Ef vel ætti að vera ætti að vísa báðum frv. til baka til ríkisstjórnar og fá betri umfjöllun. Það er ekki hægt eins og ég gat um áðan en ef ríkisstjórnin hefði einhvern sóma ætti hún a.m.k. að draga frv. um húsbyggjendaskattinn, þ.e. virðisaukaskattsfrv., til baka.