Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 20:52:41 (6954)

1996-05-31 20:52:41# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[20:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki neitað því að mig sótti nokkur depurð að hlusta á ræðu þessa ágæta hv. þm., Ágústs Einarssonar. Verst þótti mér þó þegar ég las álit hans og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að uppgötva það að hann hefur vélað til fylgislags við sig hinn ágæta þingmann Steingrím J. Sigfússon. Þannig er, herra forseti, að ég tel að það sé með engu móti hægt að taka afstöðu gegn því frv. sem hér liggur fyrir um vörugjald vegna vonsku tengdri frv. um virðisaukaskatt. Ég vil að það komi fram að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, fulltrúi Alþfl., er fylgjandi frv. um vörugjald vegna þess að þar kemur fram að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, telur að lögin um vörugjaldið samræmist ekki ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ég er alveg sannfærður um að hv. þm. Ágúst Einarsson er þeirrar skoðunar að öll lög sem hið háa Alþingi samþykkir þyrftu að vera í samræmi við þann ágæta samning.

Að vísu er alveg hárrétt hjá hv. þm. að ríkisstjórnin leggur líka fram frv. til þess að vega upp á móti tekjutapi af þessum breytingum á vörugjaldinu, frv. um virðisaukaskatt, sem er ekki gott. Það er slæmt frv., sem Alþfl. er á móti. En Alþfl. greinir eigi að síður á milli þessara tveggja frumvarpa og er með frv. um vörugjaldið en á móti frv. um virðisaukaskattinn. Er ekki hv. þm. Ágúst Einarsson þeirrar skoðunar þegar grannt er skoðað að það beri að greina þarna á milli? Ef hann er ekki þeirrar skoðunar hvað segir þá formaður Þjóðvaka sem er líka staddur í salnum? Ætlar hann virkilega, sem á glæstum ferli sínum sem ráðherra í fyrrv. ríkisstjórn var einn af aðalhvatamönnunum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, að láta hv. þm. Ágúst Einarsson komast upp með þessa glópsku og það sem verra er, hafa þau slæmu uppeldislegu áhrif að véla miklu yngri þingmann, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, með sér í þetta glapræði?