Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 20:55:11 (6955)

1996-05-31 20:55:11# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[20:55]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefði verið betra ef hv. þm. hefði lesið nefndarálit mitt og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Við gagnrýnum sérstaklega tekjuöflunarfrv. og eins og hann gat réttilega um er það gagnrýnt af fleirum, þar á meðal hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Við gerum hins vegar ágreining um tiltekna þætti í vörugjaldsfrv. sem ég rakti ítarlega í ræðu minni og fer ekki aftur yfir.

Í lok nefndarálitsins segjum við að minni hlutinn muni sitja hjá við afgreiðslu málsins enda er það algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, þ.e. vörugjaldsmálið. Síðan segjum við að þessi mál hanga saman því að það er líka alveg augljóst því að það er verið að ræða bæði málin saman í umræðunni. Þau eru bæði til umræðu. Við segjum svo í nefndarálitinu varðandi virðisaukaskattinn:

,,Minni hlutinn mun greiða atkvæði gegn fjármögnunarleið ríkisstjórnarinnar, þ.e. lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts til húsbyggjenda.`` Afstaða okkar er því alveg samræmd í málinu. Rökstuðningurinn er heill og óskiptur í þessu, við höfum mikil gagnrýnisatriði varðandi vörugjaldsfrv. sem við lýsum í nefndaráliti okkar. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson skrifar undir meirihlutaálitið með fyrirvara sem ég veit að eru einmitt vegna fjármögnunarleiðarinnar, ekki kannski vegna vörugjaldsmálanna, en ég tók sérstaklega skýrt fram að það væri nauðsynlegt að afgreiða málið vegna skuldbindinga okkar í EES-samningnum. Þetta kemur skýrt fram í nefndarálitum og í ræðu minni sem ég flutti um málið þannig að ég vona að enginn misskilningur sé á ferðinni.