Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 20:57:00 (6956)

1996-05-31 20:57:00# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[20:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn misskilningur á ferðinni en ég hef lýst því að mér þykir slæmt að hv. þm. Ágúst Einarsson, sem einnig er prófessor í hagfræði, skuli nota yfirburðaþekkingu sína m.a. til þess að véla til fylgislags við sig menn sem eru miklu yngri og óreyndari á svelli hagfræðinnar en hann, þ.e. hv. þm. Steingrím J. Sigfússonar. Mér er það mætavel ljóst, herra forseti, vegna þess að ég bý enn að þeirri áunnu kunnáttu að geta lesið, að hv. þm. Ágúst Einarsson er eins og segir í áliti þeirra tveggja félaga, á móti frv. vegna annars frv. Hann er á móti þessum breytingum á lögum um vörugjald vegna þess að fjármögnunarleiðin sem kemur til með að vega upp á móti tekjutapinu sem hlýst af frv. er að mati hans og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar stórgölluð.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson fer þá leið að lýsa yfir andstöðu sinni við frv. um fjármögnunina, þ.e. virðisaukaskattinn sem tengist þessu og Alþfl. greiðir atkvæði gegn því. Hann er eigi að síður með þeim breytingum á lögum um vörugjald sem lagt er til af meiri hlutanum sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er aðili að í málinu vegna þess að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gert athugasemdir við lögin um vörugjaldið. Hún telur að það standist ekki að öllu leyti ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta er í grundvallaratriðum spurning um hvort menn eru með eða á móti Evrópska efnahagssvæðinu. Mér er algerlega ljós afstaða hv. þm. og Grímseyjarkommúnistans Steingríms J. Sigfússonar í þessum efnum. En ég hafði talið að hv. þm. Ágústi Einarssyni, sem lengi hefur verið undir væng hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, ætti að vera ljóst að það er nauðsynlegt að við höfum í heiðri ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem þau studdu bæði mjög dyggilega meðan þau voru aðilar að Jafnaðarmannaflokki Íslands sem einnig gengur undir nafninu Alþýðuflokkurinn.