Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 21:01:02 (6958)

1996-05-31 21:01:02# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[21:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get stytt mál mitt vegna þess að mér nægir að vísa að mestu leyti í ítarlega framsöguræðu frsm. minni hluta, hv. þm. Ágústar Einarssonar, sem hér gerði ítarlega og vel grein fyrir sjónarmiðum okkar sem skipum minni hlutann. Ég læt mér einnig nægja að taka undir þau orð sem hann hafði um ágætt samstarf í efh.- og viðskn. innan minni hlutans og þá alveg sérstaklega á milli mín og hv. þm. Ágústs Einarssonar. Við höfum haldið fram sjónarmiðum jafnaðarstefnunnar í efh.- og viðskn. þótt einstakir aðrir hv. þingmenn hafi kannski dregið af sér meira en efni standa til, sérstaklega með tilliti til þeirra nafngifta sem þeir ganga fram undir.

Þá er kannski nærtækast að blanda sér aðeins í orðaskipti hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og frsm. minni hluta varðandi fylgilag mitt við hv. þm. Ágúst Einarsson og þá staðreynd að við stöndum saman að nefndaráliti hér. (SighB: Er þá ekki bara að ganga í Þjóðvaka?) En Alþfl. hefur af einhverjum undarlegum ástæðum helst úr lestinni þrátt fyrir annars yfirleitt ágæta þátttöku í samstarfi minni hlutans í efh.- og viðskn. Alþfl. hefur í þessu máli valið það sérkennilega göngulag að vera með öðru málinu en gufa svo upp í hinu eins og hér sé ekki á ferðinni tvær hliðar á sama peningnum heldur einhver algerlega óskyld mál. Þetta er þó þannig fram borið, herra forseti, að frv. til laga um breytingu á virðisaukaskattslögum er bein afleiðing af hinu frv. Það er fjármögnunarfrv. breytinganna á vörugjöldum. Þetta hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson ekki skilið eða ekki áttað sig á.

Þessi sérkennilega afstaða Alþfl. að standa að breytingum með meiri hlutanum á vörugjöldunum en gufa svo upp í virðisaukaskattsmálinu er nokkuð athyglisverð. Ég vek athygli á því að minni hlutinn skilar nefndaráliti sem er samræmt gagnvart báðum málum en Alþfl. birtist þannig í líki kamelljónsins að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson skrifar upp á álit meiri hlutans í vörugjaldsmálinu, að vísu með fyrirvara, en gufar svo upp í hinu. Mér er ekki kunnugt um að það liggi fyrir neitt þskj. þar sem afstaða hv. þm. eða Alþfl. gagnvart hinu málinu, þ.e. virðisaukaskattinum, kemur fram. Þetta er náttúrlega framganga sem þolir ekki dagsljós, herra forseti. Hún stenst ekki skoðun. Hver er þá afstaða Alþfl. og hvar kemur hún fram í virðisaukaskattsmálinu? Á það að vera hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem talar fyrir hönd Alþfl. í því máli með ræðu sinni? Alla vega er ekki nefndarálit þar á ferðinni.

Staðreyndin er sú að Alþfl. er í reynd að skrifa upp á þennan húsbyggjendaskatt með stuðningi sínum við vörugjaldsmálið. Það er mergurinn málsins. En það er greinilega feimnismál þannig að þeir velja þann kostinn að breiða sængina upp yfir höfuð og gufa upp í málinu. Þetta er nokkuð kostulegt því að hér eru á ferðinni tvær hliðar á sama málinu og þarna er ekki hægt að skilja á milli.

Það rifjast upp fyrir mér skemmtileg staða sem kom hér upp einu sinni fyrir nokkrum árum í umræðum um fjárlagafrv. sem var sambærilegs eðlis. Þá reyndu menn reyndu að þvo hendur sínar af annarri hlið peningsins eins og Alþfl. er að reyna að gera nú. Það var þegar einn af ráðherrum hæstv. ríkisstjórnar sem þá sat studdi aðra hlið fjárlagafrv., þ.e. tekjuhliðina, en var á móti gjaldahliðinni. Þetta var mjög skemmtileg afstaða og merkileg málfundaræfing sem fór fram þegar hæstv. ráðherra reyndi að útskýra hvernig þetta væri vaxið. Hann gerði enga athugasemd við tekjuhliðina, var alveg sammála henni en hann var á móti útgjaldahliðinni, þ.e. sérstaklega því sem sneri að landbúnaðinum. Okkur gekk illa að skilja, ýmsum hv. þingmönnum, að meira að segja hæstv. ráðherra gæti haft svona brothætta afstöðu til mála, en það virðist ekki ætla að vefjast fyrir Alþfl. að leika þetta eftir. En nú er Alþfl. horfinn á braut eins og sjá má og hv. þm. Össur Skarphéðinsson væntanlega horfinn til annrra skyldustarfa en þeirra að taka frekari þátt í þessari umræðu og verður þá að hafa það.

Herra forseti. Eins og ég segi þarf ég ekki mörg orð til viðbótar því sem frsm. minni hlutans hafði til að útskýra mína afstöðu til málsins. Ég er algerlega sammála því að hér er á ferðinni afar ólukkuleg niðurstaða hjá stjórnarmeirihlutanum og það tekur til beggja hliða þessa máls. Annars vegar er það að mínu mati þannig að breytingin á vörugjöldunum er engan veginn nógu vel útfærð. Það hafa engin sannfærandi rök verið færð fyrir því að þótt við þurfum að taka á þessum athugasemdum frá ESA þurfi það að kosta svona mikið tekjutap í vörugjaldainnheimtunni. Það er mergurinn málsins. Þarf að standa þannig að þessari kerfisbreytingu að hún feli jafnframt í sér mörg hundruð millj. kr. tekjutap? Það hafa engin rök verið færð fram fyrir því að ekki sé hægt að útfæra breytingar á þessu kerfi sem skili a.m.k. að verulegu leyti áfram þeim tekjum sem vörugjaldið hefur gefið. Menn hafa engin efni á því að missa út tekjur hjá ríkinu við breytingar af þessu tagi. Ekki er afgangnum fyrir að fara á rekstri fjárlaga, er það? Ekki verður þetta tekið þaðan. Nei, það er grenjandi halli á fjárlögum hjá þessari ríkisstjórn og verður út kjörtímabilið ef svo heldur sem horfir. Spurningin hlýtur því að vera þessi: Var ekki hægt að taka á þessu máli, bregðast við því sem sjálfsagt þarf að gera fyrr eða síðar? Ég geri ráð fyrir því að þessir háu herrar úti í Brussel hefðu dæmt okkur seka ef ekki verða gerðar breytingar. En er þá ekki hægt að taka á því, bregðast við því án þess að það kosti mörg hundruð millj. kr. tekjutap?

Ég tel líka að breytingar á gjaldflokkum hér séu að mörgu leyti mjög umdeilanlegar. Ég spyr t.d. hver sé nauðsyn þess að vera að lækka sérstaklega vörugjald á vöruflokkum eins og snyrtivörum. Hvaða knýjandi nauðsyn er á því að mati meiri hlutans að lækka vörugjald á snyrtivörum? Er það vegna þess að meiri hlutinn noti svona mikið af snyrtivörum sérstaklega að hann telji það alveg meginmál þessara breytinga að lækka þær í verði? Eru stjórnarathafnirnar og völdin að leika meiri hlutann svo grátt að hann þurfi nú að bæta útlit sitt með sívaxandi notkun á snyrtivörum? Hvað er á ferðinni? Er það málaflokkur sem menn hafa þá tilfinningu fyrir að það sé einhver sérstök réttlætiskennd samfara því að lækka hann í verði? Ræðumaður getur a.m.k. upplýst það að hann notar lítið af þeim varningi og væri ósárt um það þó að þær a.m.k. lækkuðu ekki í verði, þær mættu jafnvel hækka.

Ég bendi á vöruflokka eins og öl og gosdrykki, sælgæti og ís. Er það hin nýja manneldisstefna ríkisstjórnarinnar að lækka sérstaklega þessar vörur? Ég veit ekki betur en menn hafi verið að leiða fram nýlegar upplýsingar um það hversu t.d. gosdrykkjaþambið er skaðlegt fyrir tannheilbrigði þjóðarinnar og þetta verður tæplega flokkað undir brýnar nauðsynjavörur heimilanna o.s.frv. Vissulega lækka aðrir flokkar einnig sem ég held að menn séu almennt ánægðir með. Má þar t.d. nefna heimilistæki og fleiri flokka. En þegar maður lítur yfir þessar breytingar standa upp úr vöruflokkar sem ég get ekki séð, a.m.k. ekki miðað við mína réttlætiskennd og lífsskoðun, neina sérstaka ástæðu til að lækka vörugjöld á, missa þar með tekjur úr ríkissjóði og bregðast svo við því með því að lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti til húsbyggjenda og þeirra sem eru í meiri háttar viðhaldi á byggingarstað. Þess vegna má líka nefna aðrar drykkjarvörur, sykurvörur og annað því um líkt, hvort ekki hefði verið ástæða til að fara yfir það, m.a. út frá manneldis- og hollustusjónarmiðum að hafa þessa vörugjaldtöku úr því að hún viðgengst á annað borð. Svo geta menn farið í þá umræðu hvort það eigi að vera um einhverja mismunandi gjaldtöku af þessu tagi að ræða. Ég veit að þeir kaþólskustu vilja náttúrlega ekki neitt af þessu tagi, kalla það öllum illum nöfnum, neyslustýringu og guð má vita hvað. Ræðumaður er ekki í þeim hópi. En úr því að þetta er á annað borð og á að skila umtalsverðum tekjum í ríkissjóð hljóta menn að fara yfir þetta svona. Er það réttlætanlegt að vera að missa út milljónir, milljónatugi, jafnvel hundruð milljóna eins og í tilvikinu öl og gosdrykki í gegnum þessa breytingu til þess að íþyngja svo aftur húsbyggjendum? Hvaða speki er á bak við það af hálfu þeirra sem hér ráða ferðinni?

Ég tel, herra forseti, að í aðalatriðum hefði átt að nálgast þetta mál þannig að í fyrsta lagi ferst ekki himinn og jörð þó að þessi merkilega eftirlitsstofnun fengi einu sinni að kveða upp einhvern úrskurð. Til þess er hún væntanlega. Og ég sé ekki að menn þurfi að vera á handahlaupum eins og aumingjar undan því alltaf að gefast upp fyrir henni fyrir fram. Af hverju er það? Af hverju þurfa menn alltaf að gefast upp fyrir fram? Og játa það á sig fyrir fram að eitthvert rell frá Brussel sé endilega réttmætt. Mátti ekki láta bara á það reyna hvort okkur væri stætt á þeirri vörugjaldatöku sem við höfum ástundað og gera þá í kjölfar úrskurðar einhverjar breytingar sem nauðsynlegt væri að gera? Nei, það má væntanlega ekki. Þeir hljóta að hafa rétt fyrir sér, þessir háu herrar. Og menn bregðast við fyrir fram eins og hér er gert.

Látum það þá vera. Þá væri í öðru lagi að mínu mati rétt að skoða hversu billega er hægt að sleppa, ef svo má að orði komast, með breytingarnar í formi tekjutaps fyrir ríkissjóð þannig að aðferðafræðin sé þá í lagi að mati þessara háu herra og það séu gerðar breytingar á framkvæmdinni þannig að það sé ekki hægt með neinum haldbærum rökum að segja að í því felist mismunun að taka vörugjaldið með þeim hætti sem við þá gerðum.

Í þriðja lagi: Ef óhjákvæmilegt var að þessu fylgdi eitthvert tekjutap, mátti þá ekki taka sérstaklega á fjármögnun þess eins og hverjum öðrum útgjalda- og teknamálum ríkissjóðs? Hvers vegna þarf að eyrnamerkja endilega nákvæmlega þessar milljónir því að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatts á íbúðarhúsnæði? Af hverju má ekki vísa því máli eins og öðrum inn í hina almennu fjáröflunarvinnu fyrir ríkissjóð, taka á því í tengslum við gerð næstu fjárlaga og beita almennum tekjuöflunaraðferðum ríkissjóðs? Það er engin sérstök ástæða til þess að eyrnamerkja þessa breytingu og þessi útgjöld sérstaklega þessum aðgerðum gagnvart húsbyggjendum. Það stenst í raun og veru ekki þegar betur er að gáð og þess vegna hefði mátt tímasetja breytingarnar hér þannig að því fylgdu óveruleg útgjöld innan fjárlagaársins fyrir ríkissjóð og því væri hægt að mæta með tekjuöflunaraðgerðum á komandi hausti.

Það þarf ekkert að fara frekar yfir það að menn eru almennt sammála um það yfir línuna að þessi breyting á endurgreiðslu virðisaukaskattsins sé mjög óæskileg. Hún muni leiða til aukinnar tilhneigingar til þess að skjóta þessari starfsemi undan skatti og verka íþyngjandi augljóslega að því marki sem það er þá ekki gert. Og hvar er þá hv. þm. Pétur Blöndal með ræðurnar sínar um að það eigi aldrei að gera neitt sem ýtir undir skattsvik og ríkissjóður geti tapað meiri tekjum en hann fái við breytingar af þessu tagi? Snýr þá ekki formúlan þannig, hv. þm., að akkúrat hér erum við á slíkum landamærum? Það hefur einmitt sýnt sig að þessi endurgreiðsla virðisaukaskattsins er mjög skynsamleg aðgerð út frá hagsmunum ríkissjóðs til þess að fá þessa starfsemi upp á yfirborðið og tryggja að aðrir skattar skili sér í tengslum við þessa vinnu, svo sem skattar af launatekjum sem ella er hætta á að hverfi undir yfirborðið ef þessi hvati er ekki fyrir hendi til þess að þarna séu gerð tæmandi og fullnægjandi skattskil. Það á þá eftir að sýna sig hvort þetta er ekki akkúrat breyting sem felur í sér að þessi starfsemi hverfur að verulegu leyti undir yfirborðið og jafnframt viðbótartekjubrest fyrir ríkissjóð vegna þess að aðrir skattar hætti að skila sér.

[21:15]

Hér, herra forseti, er á ferðinni dæmigert klúðurmál af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og það væri öllum fyrir bestu að leggja það til hliðar og undirbúa betri málstök í málinu síðar meir, á næsta hausti eða hvenær sem það yrði. Út af fyrir sig væri vel hugsanlegur sá afgreiðslumáti á þessu að lögfesta breytingarnar hvað vörugjöldin snertir og þó að það sé að okkar mati alls ekki um vandaða og fullnægjandi breytingu að ræða, þá væri mikill munur á því og hinu að tengja við það þessa lækkun endurgreiðslu virðisaukaskattsins sem er fráleit ráðstöfun, bersýnilega ósanngjörn og líkleg til þess að hafa viðbótaráhrif sem verða ríkissjóði óhagstæð til viðbótar því. Og væri það þó nóg eitt og sér að þetta mun verka íþyngjandi fyrir þá sem síst skyldi, þ.e. þá sem eru að reyna að koma sér upp íbúðarhúsnæði.