Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 21:19:17 (6960)

1996-05-31 21:19:17# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[21:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú stórbrotin málsvörn, að koma hér og segja að það sé auðvitað ekki einhlítt hvernig tekjutapinu sé mætt, en það sé illskásti kosturinn að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatts á íbúðarhúsnæði. Þetta er satt best að segja ekki mjög jákvæð vörn. Þetta mundi ég kalla að vera á allmiklu undahaldi og reyna að klóra í bakkann og hef ekki um það fleiri orð.

Varðandi vörugjöldin og mismunandi skattlagningu á vörutegundir og blessaðar snyrtivörurnar, þá er það hárrétt hjá hv. þm. Ég er alveg ófeiminn við að vera talsmaður þeirra sjónarmiða að það geti verið fullkomlega réttlætanlegt af stjórnvöldum að beita mismunandi eða sértækri skattlagningu á grundvelli annarra gildra markmiða en þeirra einna að það eigi að vera jafn skattur á allt og alla, einn skattur á allt landið og miðin eins og ég kalla það stundum í þessari umræðu. Þar kemur kannski akkúrat að mismunandi lífsskoðun manna. Ég tel að það séu mörg önnur markmið svo mikilvæg sem stjórnvöld þurfi að hafa sjónir á, eins og að jafna lífskjör, eins og að tryggja afkomu þeirra sem veikasta hafa stöðuna og eru ekki mikið í því að kaupa lúxusvarning og snyrtivörur eða þvælast í útlöndum og þá geti verið réttlætanlegt að beita sértækri skattlagningu.

Ég nefni líka önnur markmið eins og manneldis- og hollustusjónarmið. Flest lönd í kringum okkur eru ekkert feimin við það t.d. að leggja á sykurskatt til þess að draga úr notkun sykurs og þeirrar óhollustu, tannskemmda og annarra hluta sem óhóflegri sykurnotkun eru samfara. Hvers vegna skyldum við þá ekki þora það? Eru það ekki jafngild markmið í sjálfu sér að reyna að stuðla að hollustu og heilbrigði eins og því að það verði að skattleggja allar vörur jafnt? Ég er bara nákvæmlega þeirrar skoðunar að svo lengi sem efnisleg og skynsamleg rök standa fyrir slíku, þá sé það fullgilt.