Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 21:23:27 (6962)

1996-05-31 21:23:27# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[21:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög merkilegt þegar hv. þm. kemur upp og tekur upp þessi mismununarsjónarmið. Það er í raun og veru spurning hvort hv. þm. er að segja hvort þetta sé brot á jafnræðisreglu, þ.e. að það séu brotin mannréttindi á vörunum. Eða hvert eru menn að fara? (Gripið fram í: Neytendunum.) Eru brotin mannréttindi á sykri ef hann er skattlagður aðeins meira en aðrar vörur? Eru menn virkilega komnir út á þá braut að það megi ekki undir einum eða neinum kringumstæðum taka nein önnur sjónarmið gild í sambandi við tekjuöflun til ríkissjóðs heldur en þau að allt skuli skattlagt flatt, að það skuli bara vera nefskattar eða flatir skattar, 1% á allt landið og miðin. Það er í raun og veru það sem menn eru hér að segja. Það er verið að hafna því að önnur sjónarmið eins og um jöfnun lífskjara, eins og sjónarmið um manneldi og hollustu eða annað slíkt eigi að fá að komast að, eigi að fá að hafa nokkur áhrif á skattastefnuna. Það er það sem þessir hv. þm. eru í raun og veru að reyna að segja.

Þar með er auðvitað ekki sagt að það sé allt fullkomið í skattkerfinu eins og það er nú og það er eins og hver annar brandari þegar menn koma upp og ætla að fara að sanna mál sitt með því að tína til einhver jaðartilvik sem auðvitað úir og grúir af og mun alltaf gera í öllum skattkerfum alls staðar í heiminum. Það er endalaust hægt að koma upp og segja: ,,Þetta er ekki sanngjarnt og þetta er ekki rétt af því að það er einhver að svindla.`` Eða: ,,Það er eitthvað asnalegt í þessu af því að appelsínurnar eru stundum svona og stundum hinsegin.`` Þetta eru bara engn rök. Ef menn falla fyrir þessari röksemdafærslu í fyrsta sinn og annað sinn, hvar enda menn þá? Menn enda með því að leggja á enga skatta af því að öll tekjuöflun af þessu tagi er vandasöm. Það er alltaf hægt að sýna fram á að hún sé ósanngjörn í einhverju tilliti gagnvart einhverjum. Það eru alltaf einhver frávik. Það eru alltaf einhver undanbrögð og niðurstaðan af málinu verður sú að menn leggja á enga skatta. Það er ekki hægt af því að það er ósanngjarnt. Hefur þetta orðið reyndin einhvers staðar, á Íslandi eða annars staðar? Nei. Menn viðurkenna að menn verða samt sem áður að nota aðferðirnar þó þær séu að einhverju leyti gallaðar.