Tóbaksvarnir

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 21:42:25 (6970)

1996-05-31 21:42:25# 120. lþ. 157.12 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[21:42]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir frá Sigríði Önnu Þórðardóttur, Siv Friðleifsdóttur, Sólveigu Pétursdóttur, Guðmundi Hallvarðssyni og Katrínu Fjeldsted. Í tóbaksvarnafrv. er kveðið á um að bannað verði að flytja inn, framleiða og selja munntóbak. Tillaga okkar felur í sér að skrotóbak verði undanþegið slíku banni.

Við 2. umr. málsins kom fram harkaleg gagnrýni á algjört munntóbaksbann og höfðu þá ýmsir þingmenn á orði að óeðlilegt væri að lögfesta svo ströng ákvæði um munntóbaksnotkun einkum í ljósi þess að hún væri ekki mikil, færi minnkandi og væri nær eingöngu bundin við roskna karlmenn. Til að koma til móts við þessi sjónarmið og freista þess að ná sáttum í þessu mikilvæga máli leggjum við flutningsmenn tillögunnar til að áfram verði leyft að flytja inn og selja skrotóbak svo munntóbakskarlar geti áfram notið þeirrar tóbakssælu sem ljóst er af áðurnefndri gagnrýni hv. þm. að hlýtur að vera gildur þáttur í lífsnautninni frjóu.