Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 10:49:30 (6976)

1996-06-03 10:49:30# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[10:49]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 14. þm. Reykv. fyrir ákaflega málefnalega ræðu um þetta stóra og mikilvæga mál. Hv. þm. beindi til mín þeirri spurningu hvort ekki hefði komið til greina að skipta félaginu annars vegar í pósthluta og hins vegar í símahluta. Það er alveg rétt að þessi mál voru mjög ítarlega rædd og auðvitað eru um það skiptar skoðanir hvort eðlilegt sé að reka þetta félag þannig tvískipt. Það er auðvitað hægt að færa ýmis rök með og á móti í þessu sambandi. Það sem ég tel að mæli hvað helst gegn því er sú staðreynd að hér á Íslandi hafa þessi mál þróast þannig að póstur og sími hafi verið rekin samhliða og sérstaklega út um landið er um það að ræða að fasteignir og fjárfestingar félagsins eru sameiginlega nýtt. Og við skulum átta okkur á því að þó að Póstur og sími sé náttúrlega risafyrirtæki á íslenskum markaði er það, eins og hv. þm. sagði áðan, ekki mjög stórt á alþjóðlegan mælikvarða. Það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur held ég að geta nýtt okkur hagkvæmni stærðarinnar og nýtt okkur það að samnýta þá fjárfestingu sem hefur átt sér stað.

Í öðru lagi held ég að það hafi skipt máli í þessu sambandi núna að við erum að taka ákveðið skref í átt til formbreytingar á félaginu sem hefur ákveðna breytingu í för með sér fyrir starfsfólk. Ég held að það hefði verið lakara ef við hefðum jafnhliða þessu tekið skref til þess að skipta fyrirtækinu upp í pósthluta og símahluta og skapa þannig meiri röskun fyrir starfsfólkið. Ég held að að öllu samanlögðu hafi þetta verið skynsamlegt sem varð niðurstaðan bæði í frv. og í meiri hluta samgn., þ.e. að stíga skrefið ekki lengra en við gerum núna og halda félaginu sem mest eins og það er til þess að nýta kraft stærðar þess og verja þá starfsemi sem þarna fer fram. Það er auðvitað meiningin með þessu frv. að reyna að treysta undirstöður þeirrar starfsemi sem þarna fer fram.

Á hitt ber að líta að samkeppni í pósthlutanum er þegar komin til þess að vera. Við sjáum t.d. að íþróttafélög og ýmis félög taka að sér að ýmis konar póstdreifingu. DHL-póstflutningar eru auðvitað orðinn umtalsverður samkeppnisaðili og þannig mætti áfram telja.