Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 10:56:26 (6979)

1996-06-03 10:56:26# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[10:56]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi þróun sem hv. þm. var að rekja hér hefur ekki farið fram hjá mér. Ég minnist þess að á þeirri ráðstefnu sem ég vitnaði til áðan þar sem póstmenn frá Norðurlöndunum voru saman komnir á fundi í Reykjavík var fjallað um þessar miklu breytingar á póstflutningum. Eflaust er það rétt hjá þingmanninum að það kann að vera framtíðin að póstþjónustan verði hluti af annarri þjónustu. En málið er þetta: Er eitthvað sem skyldar fyrirtækið Póst og síma sem hlutafélag til þess að sinna þessari grundvallarþjónustu? Er það tryggt að íbúi einhvers staðar við Ísafjarðardjúp, svo dæmi sé nefnt, fái þessa þjónustu? Ég fæ ekki séð að þess sé getið í þessu frv. Um leið og við breytum fyrirtækinu, þessari ríkisstofnun í hlutafélag, hljótum við að breyta þeim skyldum sem það á að uppfylla. Ég held að það væri afar sérkennilegt að skylda hlutafélag, hvað þá eftir að það er komið á frjálsan markað, til að sinna grundvallarþjónustu. Það segir í frv., ég er ekki með það fyrir framan mig, að það eigi að sinna póstþjónustu, fjarskiptum og ýmsu slíku. Hvað er það sem tryggir að þessi þjónusta verði til staðar á hinum ystu nesjum og inni í hinum dýpstu dölum?