Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 11:57:53 (6982)

1996-06-03 11:57:53# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[11:57]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér hafa farið fram miklar umræður um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að gera Póst og síma að hlutafélagi. Talsverðar umræður hafa farið fram í þjóðfélaginu en að mínum dómi of litlar miðað við hvert tilefnið er vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að hér sé verið að stíga skref sem muni reynast mjög örlagaríkt. Við erum að feta okkur inn á braut sem ýmsar þjóðir hafa farið á liðnum árum, einkavæðingarbrautina. Það vekur athygli þegar röksemdir ríkisstjórnarinnar eru skoðaðar í málinu fyrir þeirri ákvörðun að gera Póst og síma að hlutafélagi byggjast þær fyrst og fremst á því að skírskota til þess sem aðrar þjóðir gera. Nú er það svo að ákvarðanir um einkavæðingu í Bretlandi, á Nýja-Sjálandi, Frakklandi, á Norðurlöndum og víðar, sættu ekki mikilli gagnrýni þegar þær voru teknar. Það er ekki fyrr en afleiðingarnar fara að koma í ljós eftir því sem tíminn leið að gagnrýni fór að vaxa þegar það kom í ljós hver áhrif þetta hafði á kjör starfsmanna, á atvinnustigið og þjónustustigið í samfélaginu.

[12:00]

Ég legg áherslu á að hér erum við fyrst og fremst að tala um samfélagslega þjónustu. Við erum að tala um stofnanir og fyrirtæki sem hafa yfirburðaaðstöðu á markaði og iðulega mjög lítið samkeppnisaðhald þaðan. Reyndar er það umhugsunarefni að þeir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar, ekki aðeins hér á landi heldur víða um heim sem hafa kennt sig við hið frjálsa framtak, hafa haft það framlag mest til nýsköpunar eða atvinnusköpunar í atvinnulífinu almennt, þar er reyndar ekki um atvinnusköpun að ræða, að selja eða gefa sameign þjóðarinnar og þjóðanna: Það er að taka fyrirtæki og stofnanir sem byggðar hafa verið upp í krafti fjöldans og samvinnunnar og færa fyrirtækjum og einstaklingum og fjársterkum aðilum þær á silfurfati. Margir óttast að það sé þetta sem er að gerast í þessu tilfelli vegna þess að þrátt fyrir yfirlýsingu um að Póstur og sími verði ekki seldur á markaði þá telja margir yfirgnæfandi líkur á að svo verði áður en langt um líður. Í flestum þeim ríkjum þar sem þessar stofnanir og aðrar ámóta hafa verið gerðar að hlutafélögum hefur þetta einmitt verið gert. Þar sem það hefur ekki verið gert er slík sala í undirbúningi. Hvernig skyldi standa á því að svo er? Jú, vegna þess að það eru í grófum dráttum tvær leiðir sem menn fara til að hafa eftirlit með stofnunum eða fyrirtækjum af þessu tagi. Önnur leiðin er sú að láta almannavaldið sinna því eftirliti, að þær heyri undir þing og ríkisstjórn og lúti þeim reglum sem þar gilda. Hin leiðin er að láta markaðinn um hituna. Þá er það á tvennan hátt sem markaðurinn veitir aðhald. Hann veitir aðhald í gegnum verðlagið og hann veitir aðhald í gegnum eigendur sem eru hluthafar. Við getum væntanlega öll séð fyrir okkur hluthafafundi í Íslandsbanka og hina margrómuðu hluthafafundi á Stöð 2 sem eru æði skrautlegir á stundum að því er virðist. En engu að síður eru þar komnir eigendur og hluthafar til að veita þetta aðhald.

Hér á hins vegar að fara mjög undarlega leið. Hér á að búa til eitt hlutabréf og það á að færa valdið og eftirlitið frá almenningi eða þrengja það alla vega vegna þess að hlutabréfið verður sett undir einn mann, hæstv. samgrh., Halldór Blöndal. Með fullri virðingu fyrir honum er augljóst að það sem hér er að gerast er að það er verið að þrengja eftirlitið, það er verið að færa stofnunina undan almannavaldi og undir fámennisvaldið og reyndar vald eins manns, Halldórs Blöndals, hæstv. samgrh. Hann lofar statt og stöðugt að hann ætli ekki að selja. Á sama tíma koma aðrir fulltrúar ríkisstjórnarinnar með aðrar yfirlýsingar eins og hæstv. fjmrh. gerði t.d. hér úr ræðustól fyrir fáeinum dögum. Hann sagði að sínum dómi væri rökrétt að selja hluti í fyrirtækjum sem gerð væru að hlutafélögum og hann hefur reyndar margoft sagt það. Og Hreinn Loftsson, sem er formaður framkvæmdanefndar ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu, hefur lýst því margoft yfir að hann líti svo á að það sé til lítils að gera stofnanir að hlutafélögum ef hlutirnir eru ekki seldir. Það geti þurft að láta nokkur ár líða eða einhvern tíma líða þar til slíkt sé gert, en það sé órökrétt annað en að slík sala fari fram. Þessu hefur hann lýst yfir og bent á að slík sé reynsla annarra þjóða. Það sem mér finnst kannski verst við þessa umræðu er hve óheiðarleg hún er. Hún er mjög óheiðarleg vegna þess að það er verið að telja fólki trú um að eitthvað annað standi til en raunin er. Þess vegna þætti mér vænt um ef hæstv. samgrh. segði okkur hér í ræðu sinni á eftir hvort honum sé kunnugt um að fjársterkir aðilar á Íslandi, fjársterkir peningamenn og fjársterk fyrirtæki á borð við Eimskipafélagið, á borð við Flugleiðir hf., á borð við stór fjölmiðlafyrirtæki, hafi sýnt því áhuga að fjárfesta í þessu fyrirtæki. Ég get upplýst menn um að það er reyndar altalað að það sé mikill og ríkur áhugi hjá stórum fyrirtækjum hér í efnahagslífinu að fá þennan bita til sín. Þetta er það fyrirtæki á Íslandi sem skilar einna mestum arði, það hefur skilað á annan milljarð króna í ríkissjóð á ári hverju á liðnum árum. Það segir sig sjálft að þeir sem sérhæfa sig í að raka til sín fjármunum horfa vonaraugum til þess sem hér er að gerast. Það væri fróðlegt að heyra hvers hæstv. samgrh. hefur orðið áskynja í þessu efni.

En áður en ég vík frá eftirlits- og aðhaldsþættinum þá hefur það ekki reynst nóg að láta eigendur, hluthafana og markaðinn, sinna þessu aðhaldshlutverki erlendis eins og í Bretlandi vegna þess að ríkisvaldið hefur farið líka leið og við erum að gera hér eða ætlum að gera hér. Það er strax farið að setja fram tillögur um að landið verði gert að einu gjaldskrársvæði t.d. og það er sýnt að það verður eftirlit með verðlaginu. Þetta er það sem gerðist í Bretlandi. Í kjölfarið nægði þetta ekki vegna þess að menn settu einnig á fót eftirlitsstofnanir sem hafa tútnað út og eru einhver mest hraðvaxandi iðnaður í Bretlandi og þessum einkavæðingarríkjum nú um stundir og hafa verið á liðnum árum, OFFTEL, risavaxið bákn sem fylgist með símaþjónustunni. En þeir hafa þó ekki náð því að koma í veg fyrir þá þróun sem hefur átt sér stað innan veggja fyrirtækisins og byggir á stórauknum launamun. Forstjórarnir og þeir sem standa þeim næst hafa hagnast mjög á þessari breytingu. Þeir hafa tekið til sín himinhá laun á meðan þeir sem standa neðst í launakerfinu hafa borið skarðan hlut. Þetta er staðreynd. Það er líka staðreynd að þótt ekki sé unnt að rekja mannfækkun í þessum stofnunum einvörðungu til einkavæðingarinnar vegna þess að það hafa átt sér stað miklar tæknibreytingar sem hafa ýtt undir slíka þróun, þó leikur ekki nokkur einasti vafi á því að einkavæðingin hefur hert á því hjóli, hún hefur hert á þeirri þróun. Enda liggur skýringin í augum uppi. Eigendur krefjast hámarksarðsemi og hámarksarðs. Þeir vilja fá sem mest í sinn hlut og arður byggist á því að vinnan sé unnin af sem fæstu launafólki.

Ég fór í gegnum það í síðustu viku þegar þessi mál voru rædd hér og ætla ekki að endurtaka það að röksemdir um að ekki sé unnt að beita fyrirtæki í eigu ríkisins á markaði á sama hátt og hlutafélagi eiga ekki við rök að styðjast. Þær standast ekki. Ég sýndi fram á það í mjög ítarlegu máli hvers vegna það væri ekki. Það sem ég hins vegar ræddi lítið þá voru málefni starfsmanna, réttindi og kjör starfsmanna. Það hefur verið sagt ítrekað og hefur verið sagt í álitsgerð eða greinargerð með frv. að réttindi starfsmanna verði tryggð í einu og öllu. Þetta eru yfirlýsingar sem ég hef fagnað. En það hefur ekki verið gert, það er ekki búið að tryggja þessi réttindi og þessi kjör gagnstætt því sem haldið hefur verið fram aftur og aftur. Að vísu er ríkisstjórnin búin að breyta lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem hefur það í för með sér að hún er búin að hafa af mönnum, hún er búin að hafa af starfsfólki biðlaunaréttinn í þeirri mynd sem hann var og voru miklir fjármunir. Það voru gerðar lagabreytingar hér til að taka þennan rétt frá fólki, hafa af fólki þessi réttindin, þessar krónur og aura, sem var náttúrlega svívirðileg aðgerð í sjálfu sér. Ef menn hefðu borið einhverja ögn af virðingu fyrir sjálfum sér hefðu þeir ráðist öðruvísi í þau mál. Þá hefði verið reynt að ganga til samninga við fólk um þessi efni. Ég vek athygli á því að í Morgunblaðinu 1. júní er lítil frétt um franska símafyrirtækið France Telecom. ,,France Telecom breytt í hlutafélag.`` Ég ætla að lesa þessa litlu frétt, með leyfi forseta:

,,Franska ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvarp um að breyta ríkisfjarskiptafyrirtækinu France Telecom í hlutafélag og sala 49% hlutabréfa í eigu ríkisins fer fram á fyrri árshelmingi 1997.

France Telecom verður hlutafélag frá 1. janúar 1997, en ríkið heldur 51% eignarhlut og 10% verða lögð til hliðar handa starfsfólki. Stjórnin heitir því að greiða starfsfólki eftirlaun og núverandi starfsmenn halda stöðu opinberra starfsmanna.``

[12:15]

Þetta segir m.a., í þessari stuttu frétt. Ekkert svona var reynt hér. Ég spyr: Stendur eitthvað svona fyrir dyrum? Mér finnst að bæði hv. formaður samgn. og hæstv. samgrh. verði að skýra fyrir okkur hér á eftir á hvern hátt á að ganga frá lífeyrisskuldbindingum starfsfólks vegna þess að báðir hafa þeir fullyrt að lífeyrisréttindin verði í einu og öllu tryggð. Ég og fleiri höfum hins vegar haldið því fram að fólkið glati ávinnslurétti við þessa breytingu. Þannig að það er rangt sem haldið hefur verið fram að lífeyrisréttindin verði tryggð. Það er ósatt. Síðan er það líka ósatt þegar sagt er --- eins og þeir hafa bent á formenn Félags íslenskra símamanna og Póstmannafélags Íslands --- það er rangt að það sé búið að tryggja réttindi starfsfólks. Það er ekki búið að því. Það er ekki búið að semja um þessi mál. Því hefur verið lýst yfir að það eigi að gera það en það hefur ekki verið gert. Það er ekki búið að gera það. Þetta er svolítið sláandi fyrir þennan nýja samskiptamáta ríkisstjórnar og stéttarfélaga. Hann byggir á því að boða til funda, halda nógu marga fundi, trekk í trekk í trekk. Aftur fund á morgun og hinn og segja síðan: Við höfum haft geysilega gott samráð. Það hafa verið svo margir fundir. Það eru búnir að vera fimm fundir í þessari viku og sjö í síðustu og svo framvegis. Þetta gerðist í viðræðunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þegar það frv. var í undirbúningi var það ein helsta röksemd hæstv. félmrh. hve margir fundir hefðu verið haldnir. Það var ekkert spurt um innihald þessara funda eða hvað hefði verið rætt á þeim. Ég hef lýst mikilli ánægju með yfirlýstan vilja manna til að ganga frá þessum málum þannig að réttindi verði tryggð, þá stendur hitt eftir að þetta hefur ekki verið gert. Og yfirlýsingar í gagnstæða átt um að lífeyrisréttindin t.d. hafi verið tryggð eru ekki réttar. Síðan er náttúrlega hámark ósvífninnar þegar menn segjast ætla að tryggja mönnum biðlaunarétt í samræmi við þau lög sem gilda þar um, eftir að vera búnir að breyta þessum lögum og hafa þennan rétt eins og hann var, af mönnum.

Ég vil spyrja hv. formann samgn., hvernig þeir hafi t.d. rætt kjör starfsmanna sem hafa verið --- við skulum taka t.d. rafiðnaðarmanna --- sem hafa verið innan Félags íslenskra símamanna en ekki í Rafiðnaðarsambandinu og verið þetta 10--20 þús. kr. lægri í launum vegna þess að þeir hafa verið í öðru réttindakerfi, m.a. notið biðlauna sem reyndar er búið að taka af mönnum núna í þeirri mynd sem var. Þeir koma ekki til með að hafa ávinnslurétt lífeyrisréttinda. Það er búið að skerða þann rétt. Hvernig hefur verið gengið frá samningum við þetta fólk? Hvernig á að tryggja réttindi þess? Hefur það verið rætt? Ég veit að það hefur ekki verið rætt. Ég veit það. Þess vegna þýðir ekkert að koma og segja: ,,Það er búið að ganga frá öllum þessum málum.`` Þetta var líka sagt hjá Strætisvögnum Reykjavíkur þegar SVR var gert að hlutafélagi. Það voru meira að segja send bréf með mikilli viðhöfn með leigubílum að kvöldi dags. Í skjóli nætur fengu allir starfsmenn bréf þar sem sagt var: ,,Það verða öll réttindi tryggð.`` Síðan vöknuðu menn ekki upp af vondum draumi fyrr en þeir fóru að fá launaumslagið og átta sig á því að þeir ekki aðeins lækkuðu í launum heldur voru réttindin einnig höfð af fólki. Það er ekki undarlegt þó fólk vilji fá það handfast hvað það er sem stendur til.

Það var fróðlegt að heyra hæstv. samgrh. skýra fyrir okkur hvernig á að bæta fólki upp sem áratugum saman hefur gegnt sama starfi og félagar þeirra í öðru réttindakerfi sem nú er búið að breyta, hvernig á að bæta það í samningum sem standa fyrir dyrum? Það er ekki byrjað að ræða þetta. Ég veit það. Mér er kunnugt um það. Síðan leyfa menn sér að koma í ræðustól á hv. Alþingi Íslendinga og bera fram þau ósannindi að það sé búið að ganga frá öllum þessum málum. Það er ekki búið að gera það. Það er búið að lýsa því yfir að menn vilji gera það. Það er allt annar handleggur. Þess vegna segi ég að það sé fráleitt annað en að þessu máli verði frestað. Ég vildi helst að það yrði tekin ákvörðun um að hætta við þessa ráðstöfun en að í það minnsta verði málinu frestað fram til haustsins þangað til búið verður að ganga frá þessum málum við starfsfólkið.

Menn hafa velt því fyrir sér hvað kalli á þessar breytingar. Það eru margir sem hafa talið að það sé fyrst og fremst spurningin um að gera fyrirtækið sveigjanlegra. Gera það betur í stakk búið til að mæta samkeppni og þar fram eftir götunum. En við höfum aldrei fengið rökin fyrir því hvað það er í ákvörðunum hjá Pósti og síma sem hefði þurft að vera öðruvísi. Hvað er það? Hvenær var það sem fjárveitingavaldið stóð í vegi fyrir mikilvægum ákvörðunum Pósts og síma? Hvað er það sem verður hægt að gera undir handarjaðri hæstv. samgrh. Halldórs Blöndals eins sem ekki er hægt núna þegar fulltrúar allra pólitískra aðila koma að málinu? Hvað er það sem kemur til með að breytast? Hvers vegna er verið að færa þessa stofnun, þessa dýrmætu stofnun á bak við tjöldin, inn undir pilsfaldinn hjá einum ráðherra, einu ráðuneyti? Hvað er það sem ekki þolir opinbera umræðu? Hvað er það sem ekki þolir skoðun? Hvers vegna á að takmarka almannaaðhaldið, aðhald frá almannavöldum og færa þessa stofnun undir fámennisstjórn? Menn verða að skýra þetta vegna þess að ég hef fært og margir aðrir sem hafa talað í þessu máli, mjög ítarleg rök fyrir því að það er ekkert við núverandi rekstrarform sem knýr á um þessar breytingar. Það er ekkert í alþjóðlegum skuldbindingum, ekkert. Það er ekkert á innlendum samkeppnismarkaði sem knýr á þetta en ég veit að það eru ýmsir aðilar sem banka fast á dyrnar. Það eru fjársterk fyrirtæki hér á markaði. En mín spá er sú að það sama muni gerast hér og hefur gerst erlendis þar sem menn hafa farið inn á þessa braut, þ.e. að tilkostnaðurinn við þessa svokölluðu samkeppni sem menn eru að fara inn á, verði mikill. Það er það sem er að gerast alls staðar. Eftirlitsiðnaðurinn allur, allar nýju eftirlitsstofnanirnar, það er nokkuð sem ber að hafa í huga auk þess náttúrlega sem þarna verður þegar fram líða stundir veitt fjármunum frá samfélagslegri eign yfir á einkahendur. Það er náttúrlega hið alvarlega í þessu máli. Það eru þessi einkavinaveisluhöld sem ég tel að séu að hefjast með þessari ákvörðun.

Þau fyrirtæki sem best væru í stakk búin til að ná eignarhaldi á þeirri gullkú sem Póstur og sími er hafa í daglegu tali verið kennd við kolkrabba. Menn hljóta að spyrja sig hvort einkavæðing Pósts og síma muni leiða til enn meiri samþjöppunar á fjármagni og valdi í íslensku samfélagi en verið hefur og þykir þó flestum ekki á bætandi. En sönnunarbyrðin hvílir hjá hæstv. samgrh. Halldóri Blöndal sem ásamt allri ríkisstjórninni er ábyrgur fyrir þessari ákvörðun. Nú er það hans að svara því hvað það er sem knýr á um einkavæðingu Pósts og síma. Eru það alþjóðlegar skuldbindingar? Nei. Er það EES eða löggjöf Evrópusambandsins? Nei. Þar á bæ er verið að leggja bann við einkarétti á þjónustu ekki samfélagslegu eignarhaldi. Eru það kröfur samkeppnisráðs? Nei. Má ríkisfyrirtæki ekki eignast dótturfyrirtæki eða hlutafé í öðrum fyrirtækjum? Ekki er það svo. Hafa allar ákvarðanir Pósts og síma um fjárfestingar farið í gegnum nálarauga fjárln. við fjárlagasmíðina og þannig tafist? Nei. Koma nokkrar lagatæknilegar tálmanir í veg fyrir að stofnun eða fyrirtæki í eigu samfélagsins taki óhindrað þátt í markaðsviðskiptum og samkeppni? Nei. Hefur sein ákvarðanataka staðið í vegi fyrir tækniframförum hjá Pósti og síma? Nei. Verður auðveldara að tryggja þjónustuna við landsbyggðina eftir einkavæðingu? Nei, nema síður væri. Mun hinn almenni notandi hagnast á einkavæðingu? Nei, nema síður væri. Mun skattborgarinn hagnast á einkavæðingu? Nei, nema síður væri. Verður eftirlit með þeim miklu fjármunum og eignum sem almenningur á núna í Pósti og síma betur tryggt? Nei, því eftirliti mun hraka. Er líklegt að hlutir í Pósti og síma verði seldir þegar fram líða stundir þrátt fyrir yfirlýsingar í gagnstæða átt. Já, tvímælalaust. Munu stórfyrirtæki og fjármagnseigendur geta hagnast á því að eignast Póst og síma? Tvímælalaust. Er líklegt að sömu aðilar renni nú vonaraugum til þessarar arðbæru stofnunar? Já, það er mergurinn málsins. Þess vegna hljóta menn að spyrja hverra erinda hæstv. samgrh. og ríkisstjórnin öll gangi í þessu máli. Að sjálfsögðu svarar hver fyrir sig hvað líklegt er í því efni en mér finnst mikilvægt að samgrh. og ríkisstjórn verði krafin svara. Við bíðum þess nú og væntum þess að fá svör frá hæstv. ráðherra og öðrum sem hafa talað fyrir einkavæðingu á Pósti og síma.