Verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 13:36:43 (6988)

1996-06-03 13:36:43# 120. lþ. 158.8 fundur 331#B verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[13:36]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Núv. ríkisstjórn gaf út stefnuyfirlýsingu 23. apríl 1995. Það er lítið kver upp á 8 síður í A-5 broti. Í lok stefnuyfirlýsingarinnar segir svo, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. mun láta útbúa verkefnaskrá fyrir einstök ráðuneyti þar sem gerð verður grein fyrir þeim verkefnum sem ríkisstjórnin hyggst ljúka á kjörtímabilinu. Verkefnaskráin verður lögð fyrir Alþingi á haustþingi 1995.``

Haustþing er liðið og langt liðið á vorþing 1996 en ég hef ekki séð þessa verkefnaskrá birtast á þingi og reyndar ekki utan þings heldur. Við fengum í haust aðeins hefðbundinn lista yfir stjórnarfrumvörp sem fyrirhugað væri að flytja á þinginu og það er auðvitað allt annað efni. Ég spyr því hæstv. forsrh.: Hvað veldur því að stjórnarflokkarnir hafa ekki staðið við þennan lið í stefnuyfirlýsingu sinni? Auðvitað væri það forvitnilegt fyrir okkur að vita hvað stendur til þó við gleðjumst ekki alltaf þegar málin koma hér fram frá ríkisstjórninni. Þessi stefnuyfirlýsing í upphafi var afskaplega knöpp og fáorð. Því reiknuðum við með því ekki ósvipað og gerðist í tíð fyrri ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem lagði fyrir kverið Velferð á varanlegum grunni til viðbótar við almenna stefnuyfirlýsingu. Það var kver upp á 45 blaðsíður og hafði að geyma allítarlega lýsingu á verkefnum einstakra ráðuneyta. Nú veit ég að vísu að Framsfl. virðist hafa skrifað upp á svona óútfyllta stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar og kannski óbreytta stefnu frá því var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þetta skýrist kannski af svari hæstv. forsrh. hvernig þessu víkur við.