Rekstur sjúkrahúsanna í Keflavík og Hafnarfirði

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 13:42:58 (6992)

1996-06-03 13:42:58# 120. lþ. 158.8 fundur 332#B rekstur sjúkrahúsanna í Keflavík og Hafnarfirði# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[13:42]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Þetta er spurning í nokkrum liðum hjá hv. þm. og mun ég svara þeim.

Hún spurði síðast um Sjúkrahús Suðurnesja um uppgjör á halla síðustu ára. Það hefur verið halli undanfarin þrjú ár á Sjúkrahúsi Suðurnesja. Það var samkomulag um að heilbrrn. mundi greiða upp þann halla. Nú þegar hefur verið greitt upp að mig minnir 30 millj. kr. en hallinn er í kringum 70 millj. kr. Á þessu ári mun sá halli verða greiddur upp. Það er líka í beinu samkomulagi við annað sem þar á að gera. Varðandi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. að handlæknisdeildin þar verður lokuð í átta vikur. Stjórn sjúkrahússins hefur tekið þá ákvörðun að loka handlæknisdeildinni. Eins og menn vita er sumarfrí hjá starfsfólki í 6--8 vikur og þeir telja réttara að loka deildinni en að vinna samhliða á handlæknis- og lyflæknisdeild. Jafnframt talaði hv. þm. um þann langa biðlista sem væri á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og talaði þá um 500 manns sem gætu ekki stundað atvinnu sína vegna þess að þeir væru að bíða eftir aðgerð. Við munum biðja um alla þessa biðlista sem eru á sjúkrahúsunum og við munum reyna að sinna þeim eftir bestu getu vegna þess að það er opið annars staðar líka. Mér skilst að aðalbiðlistinn sé á kvensjúkdómadeild. En það er ekki biðlisti á kvensjúkdómadeildinni á Ríkisspítölunum. Við getum að öllum líkindum annað þeim sjúklingum sem bíða eftir aðgerð á St. Jósefsspítala.