Aðgerðir stjórnvalda gegn grænfriðungum o.fl.

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 13:50:21 (6996)

1996-06-03 13:50:21# 120. lþ. 158.8 fundur 333#B aðgerðir stjórnvalda gegn grænfriðungum o.fl.# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[13:50]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef á síðustu vikum átt samtöl við nokkra af helstu forustumönnum útflytjenda sjávarafurða um þessi nýju viðhorf sem hv. þm. minntist á. Í framhaldi af því er í undirbúningi að ráðuneytið beiti sér fyrir því að koma á fót sérstökum starfshópi í samvinnu við útflytjendur til þess að fjalla um þetta viðfangsefni og hvernig skynsamlegast er að bregðast við því af Íslands hálfu.

Það er ljóst að við getum vænst þess í vaxandi mæli að umhverfissamtök bregðist þannig við að þau reyni að knýja fiskkaupendur til þess að draga úr kaupum. Þar er fyrst og fremst verið að setja fram kröfur um það að fiskveiðar fari fram með sjálfbærum hætti og að umgengni um fiskveiðiauðlindir sé ábyrg. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að geta fullnægt slíkum kröfum. Vandinn er hins vegar sá að í mörgum tilvikum vilja samtök af þessu tagi setja sér eigin mælikvarða og vísa þá á bug almennt viðurkenndum vísindalegum staðreyndum í þessu efni og fyrst og fremst það getur valdið okkur erfiðleikum. Nýlegt dæmi af því tagi er afstaða bresku ríkisstjórnarinnar sem hefur alfarið hafnað öllum vísindalegum sjónarmiðum varðandi nýtingu hvalastofna þvert á alþjóðasamþykktir. Þessi tilhneiging nær ekki einasta til afurða sem notaðar eru í mjöl- og lýsisframleiðslu. Verndunarsamtök af þessu tagi hafa einnig tekið upp viðræður við fiskkaupendur varðandi bolfisk og annan fisk og þess vegna er um að ræða mjög víðtækt verkefni sem við þurfum að takast á við.