Samningar við heilsugæslulækna og sumarlokanir Ríkisspítala

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 13:56:18 (7000)

1996-06-03 13:56:18# 120. lþ. 158.8 fundur 334#B samningar við heilsugæslulækna og sumarlokanir Ríkisspítala# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[13:56]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Eins og kunnugt er, þá hafa heilsugæslulæknar sagt störfum sínum lausum. Ástæða þess að þeir segja upp störfum sínum er m.a. að ekki er staðið við lög og reglugerðir um heilbrigðisþjónustu, sérstaklega hvað varðar heilsugæsluþáttinn. Sérstaklega hafa læknarnir gagnrýnt hversu illa hefur verið staðið að uppbyggingu heilsugæslunnar í Reykjavík.

Nú er spurt: Hvernig standa samningar ráðuneytis við heilsugæslulækna? Eigum við von á því að þeir gangi út 1. ágúst?

Í öðru lagi: Í ljósi stöðu heilsugæslu í Reykjavík hefur ráðherra í huga úrbætur í málefnum hennar?

Í þriðja lagi: Hvað ætlar hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórnin öll að gera vegna þess ófremdarástands sem eina ferðina enn er að skapast vegna sumarlokana?

Það er ljóst að 16% af rúmum Ríkisspítalanna verða ekki notuð í sumar. Það er tveimur prósentum meiri samdráttur en var í fyrra og þetta eru mestu lokanir sem verið hafa í langan tíma og er þá litið til þeirra ára þegar verst hefur látið, áranna 1985 og 1992. 20% samdráttur er hjá Barnaspítala Hringsins. Við fáum fréttir af Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Ríkisspítölunum almennt þar sem ófremdarástandið er svo rosalegt að sagt er að sjúklingar hafist við á göngum og á salernum og þess vegna er spurt: Hvað hyggst ríkisstjórnin og hvað hyggst hæstv. heilbrrh. gera í þessum efnum? Vandinn er ekki aðeins inni á sjálfum sjúkrahúsunum. Hann er ekki síður að finna inni á heimilum landsins vegna þess að þau verkefni, sem er ekki sinnt á sjúkrahúsunum, færast inn á heimilin. Það fengum við að vita í fyrrasumar þegar lokanir á geðdeildum sjúkrahúsanna voru sem mestar og þeir erfiðleikar sem fylgja slíkum sjúkdómum sem geðveiki er voru fluttir inn á heimilin.