Eiginfjárstaða Landsbankans og tap Lindar hf.

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 14:09:53 (7010)

1996-06-03 14:09:53# 120. lþ. 158.8 fundur 336#B eiginfjárstaða Landsbankans og tap Lindar hf.# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[14:09]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er mjög merkilegt að heyra það hér af vörum hæstv. bankamálaráðherra að hann þekki ekki tap vegna Lindar sem er eitt stærsta tap Landsbankans frá upphafi vegna eins fyrirtækis. Það er krafa almennings að fá svör við þeim spurningum sem ég lagði fram þannig að það komi skýrt fram hvers vegna þetta mikla tap varð. Hverjir bera ábyrgð á því? Á að láta þá menn sæta ábyrgð? Eða eiga þessir menn áfram að sitja í toppstöðum í Landsbankanum eftir þetta mikla tap?

Það er full ástæða til að kalla eftir þessum svörum því auðvitað er það almenningur í landinu sem þarf að borga brúsann. Þetta kemur fram í hærri vöxtum og hærri gjöldum sem bitna á almenningi og viðskiptavinum Landsbankans. Ég kalla eftir svörum við þeim spurningum sem ég lagði hér fram áðan.