Eiginfjárstaða Landsbankans og tap Lindar hf.

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 14:11:00 (7011)

1996-06-03 14:11:00# 120. lþ. 158.8 fundur 336#B eiginfjárstaða Landsbankans og tap Lindar hf.# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[14:11]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að það hefur komið fram á hinu háa Alþingi hver töp Landsbankans hafa verið á undanförnum árum. Það hefur ekki verið sundurgreint nákvæmlega hverju bankinn hefur tapað, hvorki á einstökum fyrirtækjum né á einstaklingum sem hafa átt viðskipti við bankann. Enda hygg ég að það séu trúnaðarmál milli viðkomandi bankastofnana hvort sem það eru hlutafélagabankar eða ríkisviðskiptabankar sem þar er um að ræða. Þessar heildarupplýsingar liggja fyrir og ég ítreka að ég þekki þær ekki nákvæmlega. Ég hef reyndar heyrt eins og hv. þm. í fjölmiðlum að tap bankans hafi verið mikið vegna tiltekins fyrirtækis en ég treysti mér ekki til að fullyrða að þær upplýsingar séu réttar. Bankaráð bankans sem ber auðvitað ábyrgð á rekstri bankans og bankastjórarnir síðan ábyrgð á rekstri bankans gagnvart bankaráðinu.