Fjáröflun til vegagerðar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 14:30:15 (7017)

1996-06-03 14:30:15# 120. lþ. 158.3 fundur 442. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (álagning, eftirlit o.fl.) frv. 68/1996, ÁRJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[14:30]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um nýtt ákvæði til bráðabirgða sem heimilar að nota hluta af auknum tekjum ríkissjóðs af vörugjaldi af eldsneyti til að flýta vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið við Ártúnsbrekku og Miklubraut, einum fjölfarnasta vegarspotta á landinu. Þetta er til að flýta arðbærum framkvæmdum sem fallið hafa undir svokallað framkvæmdaátak sem varð fyrir mun meiri niðurskurði en annað vegafé. Tafir á áður samþykktum framkvæmdum af þessum sökum eru taldar hafa mikla slysahættu í för með sér sem væri hægt að minnka eða koma í veg fyrir verði þessi breytingartillaga samþykkt. Auk þess er þetta fé sem ekki var gert ráð fyrir að kæmi í ríkissjóð við fjárlagagerðina í vetur.

Ég hvet þingmenn til að samþykkja þessa breytingartillögu og koma þannig í veg fyrir hættuástand sem ella mun ríkja á þessari leið.