Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 15:17:40 (7021)

1996-06-03 15:17:40# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[15:17]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spurði hvort samgn. hefði farið í saumana á þessari grein, 14. gr. Það má alltaf deila um það hvort nefndin hafi farið í saumana á málinu en auðvitað ræddi nefndin þessa efnisgrein eins og allar aðrar efnisgreinar og auðvitað var það mjög til umræðu innan nefndarinnar á öllum stigum málsins hvernig hægt væri að tryggja þá fjarskiptaþjónustu og þá póstþjónustu sem er núna tryggð með mjög góðum hætti í landinu. Það var stór hluti af þeirri efnislegu umræðu sem fór fram innan nefndarinnar um þessa formbreytingu. Það sem menn verða að hafa í huga er að það er alltaf gert ráð fyrir því, og nú víkur sögunni að tilskipunum Evrópusambandsins, að það sé tryggð það sem kallað er ,,universal service``, altæk þjónusta sem felur í sér grundvallarþjónustu sem fjarskiptafyrirtæki sem vinna á þessum markaði verða að leggja af mörkum og ríkisstjórnir gera samninga og starfsleyfi á grundvelli þessa. Það er líka áskilnaður um það sem menn hafa þar kallað sanngjarnt verð sem kveður á um heimild ríkisstjórnar til að setja síðan einhver slík markmið. Ég vil í þessu sambandi enn vekja athygli á því sem kom fram í samræðum sem ég átti við fulltrúa danska símafélagsins. Hann sagði að niðurstaðan hefði verið sú þar í landi að langskynsamlegast væri til þess að tryggja nákvæmlega það að menn sinntu þjónustunni almennt og altækt að gera það með samningum milli viðkomandi ríkisstjórnar og þeirra símafélaga sem störfuðu í hverju þjóðfélagi. Og það held ég, virðulegi forseti, að hljóti nú að verða það sem gerist hér líkt og annars staðar. Yfirvöld landsins í símamálum gera slíka samninga við fjarskiptafyrirtækin til þess að tryggja nákvæmlega það sem gert er ráð fyrir hér í 14. gr. og þá held ég að við þurfum ekki að óttast að ekki verði bærilega séð fyrir þessari þjónustu.