Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 15:20:10 (7022)

1996-06-03 15:20:10# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[15:20]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Á þessum vetri höfum við fengið að kynnast því hvaða stjórnarstefnu þessi ríkisstjórn ætlar að reka. Hvernig hefur hún birst okkur hér í þinginu og úti í þjóðfélaginu? Hún hefur birst okkur einkum með þrennum hætti. Við sáum hana við fjárlagagerðina, hvernig ríkisstjórnin þrátt fyrir efnahagsbatann ræðst fyrst og fremst að þeim sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu eins og öldruðum og öryrkjum og atvinnulausum og sjúkum. Við sjáum hana birtast í því hvernig ríkisstjórnin ræðst að verkalýðshreyfingunni í landinu og sviptir launafólk réttindum og kjörum sem það hefur áunnið sér þá með lægri launum í gegnum tíðina. Og við sjáum það ekki síst í því hvernig ríkisstjórnin er núna í hverju málinu á fætur öðru að búa í haginn fyrir stórfelld einkavæðingaráform. Það er einmitt í því frv. sem hér er til umræðu. Við 1. umr. um þetta mál var frv. mjög gagnrýnt bæði á þeirri forsendu að rök skorti fyrir því að breyta Pósti og síma í hlutafélag og ekki síst var frv. gagnrýnt fyrir það hvað réttarstaða starfsfólks héngi í lausu lofti miðað við ákvæði frv. Ég hélt satt að segja, virðulegi forseti, að nú við 2. umr. um þetta mál fengjust eitthvað skýrari svör við ýmsum þeim spurningum sem vöknuðu við 1. umr. og hv. samgn. sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar myndi leitast við að skýra ýmislegt sem þingmenn óskuðu eftir að fá skýrar fram í þessari umræðu og sem er óljóst í þessu frv. En því miður, herra forseti, hefur það valdið mér vonbrigðum að fara yfir nál. meiri hlutans þar sem mér sýnist að fátt eitt sé skýrara heldur en var hér við 1. umr.

Við 1. umr. málsins veltu ýmsir þingmenn því fyrir sér af hverju væri verið að breyta Pósti og síma í hlutafélag. Var það vegna þess að Póstur og sími er illa í stakk búinn til að mæta þeirri öru tækniþróun sem orðið hefur og þeirri byltingu sem orðið hefur í fjarskiptatækni? Varla gat það verið svarið. Svarið kom reyndar fram í grg. frv. varðandi þann þáttinn sem ég vil rifja upp, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Á því er enginn vafi að þessi þróun hefur þegar leitt til og á eftir að hafa víðtæk áhrif á alla upplýsingamiðlun á sviði vísinda og tækni.

Samgrn. og Póst- og símamálastofnun hafa fylgst náið með þessari tæknilegu þróun, og segja má að í dag ráði stofnunin yfir búnaði og þekkingu til fjarskiptaþjónustu sem jafnist á við það sem best gerist í löndum Evrópu og sé að sumu leyti í fararbroddi í þessu efni, en á síðastliðnu ári varð Ísland fyrsta landið í heiminum til að taka í notkun stafrænt símkerfi um allt land.``

Á þessu sést og reyndar mörgu fleiru sem fram kom við 1. umr. málsins að Póstur og sími hefur að ýmsu leyti verið í fararbroddi varðandi þá öru tækniþróun sem verið hefur og að auki hefur Póstur og sími skilað miklum hagnaði sem skiptir hundruðum milljóna sem árlega hefur farið til að greiða niður halla ríkissjóðs.

Ég hélt því fram við 1. umr. og reyndar fleiri að hægt væri að fara aðra leið, leið sem hefur verið farin í sumum löndum sem við berum okkur saman til undirbúnings undir einkavæðingu Pósts og síma, þ.e. að fara þá leið að breyta stofnuninni í annað rekstrarform en hlutafélög. Þar var ég með í huga að breyta henni yfir í form eins og það sem sjálfseignarstofnanir starfa eftir. Ég vitnaði þá til þess, virðulegi forseti, að hæstv. samgrh. sjálfur hafði hreyft þessari hugmynd fyrir kosningar á fundi sem póst- og símamenn héldu með fulltrúum stjórnmálaflokkanna en þá var eftirfarandi haft eftir hæstv. samgrh., með leyfi forseta: ,,Hann sagði að ekki væri aðalatriðið að breyta stofnuninni í hlutafélag heldur kemur ekki síður til greina að stofnað verði sjálfstætt fyrirtæki í eigu ríkisins sem lúti almennum lögmálum markaðarins, greiði skatta og skyldur og þar fram eftir götum.``

Ég hélt satt að segja að þessi hugmynd yrði skoðuð miklu nánar en ég hef spurnir af í hv. samgn. En hæstv. ráðherra virðist hafa verið staðráðinn í því alveg frá upphafi og jafnvel þegar hann mælti þessi orð fyrir kosningar að breyta Pósti og síma í hlutafélag og undirbúa þannig jarðveginn fyrir einkavæðingu Pósts og síma. Við getum litið á reynsluna, herra forseti, í löndunum í kringum okkur sem hafa farið þá leið að breyta starfsemi pósts og síma í hlutafélög eða jafnvel einkavæða póst og síma og séð hvaða áhrif það hefur haft. Það eru mörg dæmi um það að símaþjónustan við slíka formbreytingu og við einkavæðingu hafi í fyrsta lagi versnað, í öðru lagi orðið dýrari og í þriðja lagi bitnað hart á starfsmönnum símaþjónustunnar. Þar er Bretland dæmi en í Bretlandi hafði einkavæðing símaþjónustunnar veruleg áhrif á atvinnuöryggi starfsfólks og því var í verulegum mæli sagt upp störfum þó eitthvað hafi verið dregið til baka í því efni og þeim fjölgað aftur vegna mikillar óánægju með verri og lélegri þjónustu eftir einkavæðinguna. Ókostir einkavæðingar pósts og síma komu fram fyrir 2--3 árum síðan þegar aðalritari Alþjóðasambands póst- og símamanna hélt erindi um það mál hér á landi. Hann sagði að engar athuganir sem gerðar hafa verið sýni fram á að einkarekin símafyrirtæki séu hagkvæmari en opinber. Hann nefndi þvert á móti Bretland sem dæmi um að sé litið á rekstrarhagkvæmni þá jókst hagnaður og framleiðni meira fyrir einkavæðingu símaþjónustunnar í Bretlandi en eftir hana og framleiðni var meiri í fyrirtækjum sem ekki voru einkavædd. Þau sömu varnaðarorð komu einnig fram hjá aðstoðaraðalritara Alþjóðsambands opinberra starfsmanna. Þegar hann hélt erindi fyrir nokkru hér á landi á vegum BSRB þá varaði hann við því að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög. Það væri hættulegasta stigið, sagði hann orðrétt, það virkaði vel í fljótu bragði en væri mjög lúmskt. Með því væru opnaðar allar gáttir til þess að selja fyrirtæki innan lands sem utan.

Maður veltir líka fyrir sér þegar maður er að reyna að leggja mat á það hvort mikið liggi á að breyta Pósti og síma í hlutafélag hvort það sé vegna þess að símkostnaður og póstþjónustan sé mjög há í verði hér á landi. Nei, þvert á móti er svo ekki. Símaþjónustan hér á landi er hvað ódýrust ef tekið er mið af OECD-löndunum. Um það hefur verið vitnað í þessum ræðustól og víðar, virðulegi forseti, að kostnaður við símaþjónustuna er hér miklu lægri en gerist og gengur annars staðar. Þannig hef ég töflu fyrir framan mig um símgjöld fyrirtækja miðað við sömu notkun í öllum OECD-löndunum árið 1991. Þar kemur fram að Ísland er með langlægstu símgjöldin hvernig sem á málið er litið. Það er reyndar staðfest, virðulegi forseti, í fylgigögnum sem hefur verið dreift frá minni hluta samgn. að ég hygg. Í fylgigögnunum kemur fram grein sem birtist í Morgunblaðinu 7. maí eftir Bergþór Halldórsson verkfræðing en hann segir að verðlækkun á símaþjónustu sé meiri hér en í nokkru öðru Evrópuríki en að hún sé ekki tilkomin vegna einkavæðingar. Hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

[15:30]

,,Þessi verðlækkun, sem orðið hefur á íslenskri símaþjónustu á þessu tímabili, er miklu meiri en þekkist í nokkru öðru Evrópulandi og eins og sést á töflunni er þar um allt að 87% lækkun að ræða að raungildi.``

Varla er því verið að breyta Pósti og síma í hlutafélag til þess að ná niður eða lækka verulega símkostnað þegar við erum með fyrir framan okkur að símgjöld hér á landi eru með því lægsta sem þekkist.

Ég hef rakið hér, herra forseti, að ég tel að það sé alls ekki sýnt fram á það með neinum rökum af hálfu meiri hlutans að þörf sé á að breyta Pósti og síma í hlutafélag vegna þess að við séum ekki í stakk búin til að mæta byltingu í fjarskiptatækni. Þvert á móti hefur Póstur og sími sannað með starfsemi sinni gegnum árin að hann hefur fylgst vel með þróuninni og á sumum sviðum gengið lengra og verið fremri en hjá öðrum þjóðum. Ég hef líka sýnt fram á símkostnaðinn, virðulegi forseti, og símgjöldin, að þau eru með því lægsta sem þekkist. Það stendur bara eitt eftir, herra forseti, að það er verið að undirbúa að einkavæða Póst og síma. Engin önnur rök standa eftir en þau að það er verið að undirbúa einkavæðingu á Pósti og síma og sölu á væntanlegum hlutabréfum í Pósti og síma. Hverju svo sem ráðherrann heldur fram, þá fullyrði ég að það líða ekki mörg missiri eða mörg ár þar til við stöndum frammi fyrir því að einkavæðing á Pósti og síma verður lögð til fái þessir stjórnarflokkar áfram að ráða ferðinni.

Það er reyndar svo, virðulegi forseti, að þó að því sé haldið fram að ekki sé hægt að selja hlutabréfin í Pósti og síma nema með samþykki Alþingis þá er opnuð ákveðin leið fyrir einkavæðingu, fyrir sölu á hlutabréfum í 2. gr. þessa frv. Það kemur ljóslega fram. En þar segir um 2. gr. þessa frv.

,,Með 2. mgr. greinarinnar [þ.e. 2. gr.] er veitt heimild til stofnunar dótturfyrirtækja til þess að annast einstaka þætti í starfsemi er Póst- og símamálastofnun annast nú og ekki tilheyra rekstri sem einkaleyfi þarf til. Með því er stefnt að því að tryggja fjárhagslegan aðskilnað þess hluta fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta sem er í samkeppni við aðra og til tryggingar þess að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar.``

Ýmsum spurningum, virðulegi forseti, er ósvarað um þennan þátt málsins sem virðist ekki nokkur leið að draga fram í dagsljósið eða fá skýringar ráðherrans á þrátt fyrir að það hafi verið margreynt. Minni hluti hv. samgn. fjallar ítarlega um þetta atriði og segir svo, með leyfi forseta, ég er að vísa í athugasemdir með frv.:

,,Við fyrstu sýn virðist þetta ákvæði skýrt og afdráttarlaust. Ef ákvæði 2. gr. frv. eru hins vegar skoðuð í beinu framhaldi vakna ýmsar spurningar. Þar segir m.a. að fyrirtækinu sé heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum og að félaginu sé heimilt að stofna nýtt félag eða félög sem alfarið verði í eigu þess til að annast ákveðna þætti í starfsemi þess.``

Og síðan segir, með leyfi forseta, og er vísað í athugasemdir með frv.:

,,,,Niðurlag 2. mgr. gerir ráð fyrir þeim möguleika að til þess geti komið að talið verði heppilegt og hagkvæmt að félaginu verði skipt milli tveggja félaga þar sem annað annaðist póstþjónustu en hitt fjarskiptaþjónustu.`` Í þessari sömu grein frv. er hlutafélaginu síðan einnig veitt heimild til að stofna til hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum og er þá m.a. átt við aðild hlutafélagsins að öðrum fyrirtækjum.``

Og hvernig skyldi eiga að standa að því, herra forseti, ef ákveðið verður að eiga aðild að öðrum fyrirtækjum, leggja til þess hlutafé til dæmis? Hvernig verður að því staðið? Herra forseti, það er alveg nauðsynlegt að ráðherrann svari því og ég held að hann komist ekkert hjá því. Ég man ekki eftir að hafa heyrt hann svara því að ef kemur til aðild hlutafélagsins að öðrum fyrirtækjum, hvort samþykki Alþingis þurfi ef það kemur til sölu, ef um er að ræða dótturfyrirtæki Pósts og síma hf. Um þetta einmitt fjallað í ályktun minni hlutans. Þar er einmitt spurt hvernig fari um aðild hlutafélagsins að öðrum fyrirtækjum í því samhengi og hvort heimild Alþingis þurfi til sölu slíkra eignahluta Pósts og síma í samrunafyrirtækjum. Og síðan er spurning sem ég hef ekki enn heyrt svarið við. Hver verður réttarstaða starfsfólks í slíkum dóttur- og samrunafyrirtækjum? Það er mjög nauðsynlegt að fá þetta fram þegar hér er látið líta svo út að um sé að ræða alsaklaust frv. sem litlu breytir, að hér sé einungis verið að breyta Pósti og síma í hf. sem hafi engin áhrif hvort sem litið er til stöðu starfsfólks eða til fyrirtækisins. En þetta ákvæði þarf miklu frekari skýringa við heldur en fram hefur komið bæði í umræðum á Alþingi og eins í meðförum frv. í hv. samgn.

Það sem mikið hefur verið rætt og kannski aðallega rætt er hvernig ríkisstjórnin og hæstv. samgrh. hafa komið fram við starfsfólk Pósts og síma og er það með ólíkindum reyndar en kannski í samræmi við það sem við höfum séð áður á þessu þingi eins og það frv. sem var verið að afgreiða um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Það á greinilega, herra forseti, að afgreiða þetta frv. frá hv. Alþingi og skilja málefni starfsfólksins eftir í algjöru uppnámi. Ýmsu er ósvarað um réttarstöðu starfsmanna. Það hefur hart verið gengið eftir því að fá fram ýmislegt sem menn telja ósvarað og er ósvarað um réttarstöðu starfsfólksins. Því hefur verið haldið fram bæði af hæstv. samgrh. og hv. formanni samgn. að það hafi verið höfð góð samvinna og samráð við starfsfólk Pósts og síma. Því höfum við vissulega mótmælt sem erum í minni hluta á þingi og það kemur reyndar fram núna í grein Morgunblaðinu um helgina, en greinarhöfundar eru formaður Félags íslenskra símamanna og formaður Póstmannafélags Íslands, að þeir segja að sú samvinna og samráð sem um er talað hafi alveg farið fram hjá þeim, þessum formönnum Félags íslenskra símamanna og Póstmannafélags Íslands. (Samgrh.: Og sé einskis virði.) Og sé einskis virði. Ég tek undir með þessum hv. formönnum að ég tel að það sé ekkert sjálfgefið að það sé hægt að treysta þeim loforðum sem fram koma hjá hæstv. samgrh. og ríkisstjórn í þessu efni. Ef það væri hægt að treysta þessum loforðum og ef þeir vilja koma til móts við sjónarmið starfsmanna Pósts og síma, af hverju í ósköpunum er ekki gengið frá þessum starfsmannamálum áður en frv. er afgreitt frá Alþingi? Ef það er ekkert að fela í þessu efni og ef hæstv. ráðherra ætlar að koma til móts við óskir starfsmannanna, af hverju í ósköpunum er ekki gengið frá þessum málum í samráði við starfsmenn? Til þess hefur gefist nægur tími. Þetta frv. hefur verið í nokkrar vikur og mánuði hér á hv. þingi. Hvers vegna í ósköpunum var sá tími ekki notaður til að eyða þeirri tortryggni sem vissulega er uppi í þessu máli hjá starfsmönnum Pósts og síma gagnvart ríkisvaldinu? Hér er það sett í vald einhverrar þriggja manna nefndar sem ráðherrar skipa hvað verður um málefni starfsfólksins. Hvers vegna í ósköpunum var það ekki útlátalaust fyrir hæstv. ráðherra að leyfa starfsfólkinu að eiga einn fulltrúa í þessari nefnd sem fjalla á um þeirra málefni og þeirra kjör? En þetta er auðvitað í samræmi við þau einræðisvinnubrögð sem ríkja hvarvetna þar sem starfsfólk á í hlut og launafólk. Hvað er að því, herra forseti, að hæstv. samgrh. gerði nú svo lítið að leyfa starfsfólkinu að eiga fulltrúa í þessari nefnd sem á að fara að fjalla um kjör þeirra? Það lofar ekki góðu, virðulegi forseti, og það er ekki skrýtið þó að sé tortryggni uppi varðandi ýmis réttindamál launafólks. Þessi svokallaða undirbúningsnefnd ráðherrans á því að fá mjög víðtækt vald og hafa algjört forræði í málefnum starfsmanna þeirra frá þeim tíma sem þetta frv. verður afgreitt frá Alþingi og þar til hlutafélagið tekur til starfa, --- hafa algjört forræði í þessu máli. Finnst ráðherranum það sérkennilegt að við í minni hlutanum, í stjórnarandstöðunni og starfsfólk Pósts og síma kalli eftir því að fá skýrt fram hver réttarstaða þeirra verður eftir að Pósti og síma hefur verið breytt í hlutafélag? Við erum að ræða um 2.500 manns en kjör þeirra og réttarstaða er skilin eftir í algjöru uppnámi þegar frv. verður að lögum. Ef hæstv. ráðherra hefði fallist á að starfsfólkið hefði og ætti fulltrúa í undirbúningsnefndinni sem m.a. á að fjalla um kjör þeirra og réttindi þá hefði a.m.k. ákveðnum hluta tortryggninnar verið eytt.

[15:45]

Það er því ljóst, virðulegi forseti, að mál starfsmanna eru í lausu lofti. Og óttinn leynir sér ekki, herra forseti, einmitt um þetta atriði og það hvernig hann kemur fram í umsögnum starfsfólks Pósts og síma. Mér finnst alveg full ástæða til þess, herra forseti, að fara yfir nokkrar af þessum umsögnum og a.m.k. í þeirri von að hæstv. ráðherra hlýði á vegna þess að ég dreg í efa að hann hafi nokkuð haft fyrir því að lesa þessar umsagnir. Nú situr hann yfir umræðunum og les í einhverjum þykkum doðranti til þess að reyna að forðast að þurfa að hlýða á mál þeirra manna sem eru á móti þessu frv. og á móti þeim gerræðislegu vinnubrögum sem ráðherrann sýnir 2.500 manna starfsliði hjá Pósti og síma. Það er sárgrætilegt til þess að horfa í mörgum málum, ekki bara í þessu máli heldur á mörgum sviðum að þessir stjórnarflokkar hafi ekki meira aðhald frá þjóðinni en raun ber vitni.

Ég ætla að vitna, virðulegi forseti, í nokkrar af þessum umsögnum. Þar segir t.d. hjá Félagi íslenskra símamanna sem hafa fengið álit Gunnars Jónssonar lögfræðings til þess að fara yfir réttarstöðuna, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt skilgreiningu í 2. gr. er skýrt kveðið á um að lögin taki ekki til starfsmanna hlutafélaga og annars konar félaga einkaréttareðlis jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins. Sami skilningur hefur verið lagður í 1. gr. laga nr. 38/1954.

Póstur og sími á samkvæmt frv. að verða hlutafélag en alfarið í eigu íslenska ríkisins. Í frv. felst því að starfsmenn Pósts og síma, sem hingað til hafa fallið undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, njóti framvegis ekki verndar laganna. Í frv. um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar er ekki kveðið á um með hverjum hætti skuli tryggja réttindi sem nú eru tryggð með lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um er að ræða ýmis mikilvægustu réttindi ríkisstarfsmanna, svo sem biðlaunarétt, orlof, réttindi í veikindum og fleira. Hlýtur því að vera að um þau réttindi sem nú eru tryggð með lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins verði samið um í kjarasamningum nema þeim sé skipað með almennum lögum sem er raunin til að mynda með orlof.``

Þetta vekur upp ýmsar spurningar og mér fannst mjög athyglisverð álitsgerð, sem fram kom og var væntanlega lögð fram í nefndinni, um stéttarfélög tæknifræðinga og réttarstöðu starfsmanna við það að Póst- og símamálastofnun verði gerð að hlutafélagi. Álitsgerðin var unnin af Láru V. Júlíusdóttur sem var m.a. fengin af hálfu efh.- og viðskn., ef ég fer rétt með, til þess að leggja mat á ýmis álitaefni sem þar komu fram um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Varðandi þessi réttindi, til að mynda veikindarétt, segir hún, með leyfi forseta:

,,Opinberir starfsmenn njóta kjara á grundvelli laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, svo og kjarasamninga. Veikindaréttur þeirra byggist á reglugerð um veikindarétt opinberra starfsmanna og réttur til barnsburðarleyfis á reglugerð um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins. Í 8. gr. er ekki kveðið skýrt á um það hvort hlutafélagið Póstur og sími muni í framtíðinni veita starfsmönnum sínum veikindarétt og barnsburðarleyfi eftir ákvæðum þeirra laga.``

Virðulegi forseti. Þetta er sem sagt allt óljóst. Áfram segir í áliti Láru V. Júlíusdóttur: ,,Væntanlega ber að túlka ákvæðið svo að þeir sem unnu hjá stofnuninni njóti þessara réttinda en þeir sem hefja störf hjá Pósti og síma hf. njóti þeirra ekki.``

Ég spyr hæstv. ráðherra. Hann er mjög órólegur í salnum, hæstv. forseti, ýmist að lesa einhverjar bækur eða hlaupandi í símann. Hann má varla vera að því að afgreiða þetta frv. sem svo mikið liggur á á þinginu ef hann má ekki vera að að hlýða á það sem minni hlutinn hefur fram að færa en auðvitað ætlast minni hlutinn til þess að hæstv. ráðherra hlusti á rök gegn áformum um að breyta Pósti og síma í hlutafélag.

Herra forseti. Ég var að reyna að fá hæstv. ráðherra til að hlusta á álit Láru V. Júlíusdóttur þar sem hún er að ræða um veikindarétt opinberra starfsmanna við þessa breytingu. Hún segir orðrétt: ,,Væntanlega ber að túlka ákvæði svo að þeir sem unnu hjá stofnuninni njóti þessara réttinda en þeir sem hefja störf hjá Pósti og síma hf. njóti þeirra ekki.``

Ég spyr ráðherrann um hvaða skilning hann hefur á þessu og hvort þarna verði um mismunandi réttindi að ræða. Lára V. Júlíusdóttir kemur með dæmi um hvaða áhrif þetta geti haft og hún segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Hugsum okkur tvær konur, aðra sem hefur starfað hjá stofnuninni og hina hjá hf. Þær eru með sama kaup hjá hf., 150 þús. á mánuði og eignast börn á sama tíma. Önnur konan heldur því kaupi í sex mánuði og fær því greiddar 900 þús. frá hf. en hin fær að óbreyttu greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins, kr. 330 þús. fyrir sama tímabil.`` Þetta er einungis dæmi um þann mikla mun sem er á réttindum opinberra starfsmanna og hinna sem vinna á almennum markaði. Það ber að skilja svo að nái lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ekki til starfsmanna hjá Pósti og síma hf., þá séu lög um stéttarfélög og vinnudeilur sem gilda eftir að þetta frv. verður að lögum. Ef fólk á að halda öllum sínum áunnu réttindum þannig að hvergi verði af því tekið er ljóst að þeir sem verða ráðnir af Pósti og síma hf. munu búa við önnur kjör þannig að konur sem starfa hlið við hlið, t.d. varðandi fæðingarorlofsrétt og að því er varðar veikindarétt munu hafa mismunandi kjör.

Lára V. Júlíusdóttir bendir á annað, með leyfi forseta: ,,Veikindarétturinn er annað dæmi um verulegan réttindamun. Eftir tiltekinn árafjölda í starfi hefur opinber starfsmaður eins árs veikindarétt. Starfsmaður á almenna vinnumarkaðinum getur hæst komist upp í þrjá mánuði.`` Ætlar hlutafélagið Póstur og sími að mismuna starfsmönnum sínum í framtíðinni þannig að þeir búi þá við mismunandi réttindi? Um það spyr Lára V. Júlíusdóttir í álitsgerð sinni og ég beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Ætlar hlutafélagið Póstur og sími að mismuna starfsmönnum sínum í framtíðinni hvað þetta varðar eftir því hvort þeir hafa áunnið sér rétt hjá stofnuninni eða hefja störf eftir að Pósti og síma hefur verið breytt í hlutafélag? Mun það þá kannski verða svo að þeir sem ráðast til starfa hjá Pósti og síma eftir að því hefur verið breytt í hlutafélag og hafa minni veikindaréttindi og minna fæðingarorlof hafa önnur kjör en þeir sem hafa unnið hjá stofnuninni áður en hún breyttist í hlutafélag? Það fást engin svör við þessu frekar en öðru sem um er spurt. Hæstv. ráðherra lætur ekki svo lítið, herra forseti, að svara þeim spurningum sem til hans er beint. Ef ráðherrann svaraði þessum spurningum sem fram hafa komið mundi hann greiða mjög fyrir því og stytta verulega umræðuna en meðan við fáum ekki svör við ýmsum grundvallaratriðum að því er þessa þætti varðar, að því er varðar réttarstöðu fólks eftir þessa breytingu lengist auðvitað umræðan. Ég man ekki eftir nokkru máli í þinginu í gegnum tíðina þar sem réttarstaða starfsfólks er skilin eftir í svo miklu uppnámi sem raunin er með þetta mál.

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram með umsagnirnar sem skýra mjög vel þann ótta sem býr í brjósti þeirra 2.500 starfsmanna sem vita raunverulega ekkert um réttarstöðu sína eftir þessa breytingu. Félag ísl. símamanna fékk lögfræðilegt álit hjá Gunnari Jónssyni um réttarstöðu starfsmanna. Þar kemur fram að í frv. komi ekkert fram um hverjir verða í forsvari í kjarasamningum fyrir starfsmenn sem eru nú í Félagi ísl. símamanna og Póstfélaginu. Af frv. verður heldur ekki ráðið hver viðsemjandinn yrði. Starfsmenn Pósts og síma hf. yrðu ekki felldir undir lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Hver skyldi verða viðsemjandi þeirra, herra forseti? Hæstv. ráðherra getur væntanlega ekki svarað því fremur en öðru sem um er spurt við þessa umræðu. Stéttarfélög FÍS og PFÍ gætu breytt lögum sínum á þann veg að þau færu áfram með forsvar í kjarasamningum fyrir þá félagsmenn sína sem þannig misstu stöðu ríkisstarfsmanna en fengju stöðu starfsmanns hlutafélags. Kysu viðkomandi félagsmenn FÍS og PFÍ áframhaldandi aðild að þeim stéttarfélögum gætu þeir komið fram fyrir þeirra hönd við gerð kjarasamninga. Síðan segir orðrétt:

,,Það réðist þá af afstöðu ríkisins sem eiganda hlutafélagsins hvort samið yrði við þessi félög og hvort reynt yrði að þvinga starfsfólk til aðildar að öðrum stéttarfélögum með því að leita inngöngu í VSÍ við Póst og síma hf.`` Eru einhverjar hugmyndir, herra forseti, á borði ráðherrans að það verði VSÍ sem verði samningsaðili Pósts og síma eftir að það er orðið að hlutafélagi? Sjálfsagt veit hæstv. ráðherra ekkert um það frekar en annað sem spurt er um í umræðunni. Það kemur reyndar fram í áliti eftir áliti að það er verið að kalla eftir svörum við þessum spurningum en við þeim fást engin svör.

Einmitt í þessum umsögnum hefur verið spurt hvort starfsfólk eigi við þessa breytingu að ganga inn í kjarasamninga annarra félaga innan ASÍ eða eru kjarasamningar starfsfólks lausir frá þeim tíma að frv. þetta verður að lögum. Eru kjarasamningar lausir? Hver er réttarstaða fólks eftir að frv. þetta er orðið að lögum? Mun það ganga inn í kjarasamninga annarra félaga? Þannig hefur verið spurt, en lítil svör fást við þessu.

Virðulegi forseti. Einnig hefur vakið athygli að hæstv. samgrh. skuli ekki verða við þeirri ósk sem kemur einkum fram frá Póstmannafélagi Íslands um það að skilja að rekstur póst- og símaþjónustunnar áður en til hlutafélagavæðingar kemur. Það hefur víða verið gert í löndunum í kringum okkur þar sem farið hefur verið í slíkar breytingar að því er varðar hlutafélagabreytingar á póst- og símaþjónustunni og það hefur verið gert í fullkomnu samráði við starfsfólk og farið eftir ýmsum ábendingum sem fram hafa komið frá starfsfólki, m.a. að skilja að rekstur póst- og símaþjónustunnar áður en til hlutafélagavæðingarinnar kemur. Fyrir því hafa verið færð mörg rök í umræðunni að það sé eðlilegt að gera það með því að einkavæða ekki póstþjónustuna.

[16:00]

Það væri alveg full ástæða til þess að hæstv. ráðherra gerði þinginu frekari grein fyrir því af hverju það er svona ógurlega erfitt að aðskilja póst- og símaþjónustuna og breyta ekki póstþjónustunni í hlutafélag eins og kallað hefur verið eftir.

Síðan hafa margir gagnrýnt með réttu það alræðisvald sem hæstv. ráðherra fær með þessu frv. ef að lögum verður. Þar kemur fram, virðulegi forseti, að ráðherra fer einn með eignaraðild ríkissjóðs að Pósti og síma og hann á að skipa þessa þriggja manna nefnd sem á að endurmeta eignir stofnunarinnar. Hann á að ráða því hverjir verða skipaðir í stjórn Pósts og síma. Hann heldur aðalfund væntanlega einn. Hann fer einn með alla eignaraðild ríkissjóðs að Pósti og síma. Það er því mjög sérkennilegt hvernig að þessu er staðið.

Einmitt varðandi stjórn Pósts og síma sem skipuð skal sjö aðalmönnum og sjö til vara. Hefði ekki verið eðlilegt, herra forseti, að hæstv. samgrh. hefði lagt til það sem kallað var líka eftir við 1. umr. þessa máls, að starfsmenn Pósts og síma fengju fulltrúa í stjórn fyrirtækisins? Það hefði litið allt öðruvísi út ef hæstv. ráðherra hefði fallist á það. Það hefði þá verið í átt til aukins atvinnulýðræðis eins og víða hefur verið stundað. Um það er einmitt vitnað í þessum umsögnum að þar sem slíkar formbreytingar hafi átt sér stað, þar sem rekstri Pósts og síma hafi verið breytt í hlutafélag, þá hefur starfsfólkið fengið aðgang að slíkri stjórn og fengið heimild til þess að skipa sinn fulltrúa í stjórnina. Ég er satt að segja mjög hissa á því að hæstv. ráðherra hafni því að starfsmenn fái fulltrúa í stjórnina þannig að hægt sé þá að nýta sér þá þekkingu t.d. sem starfsfólk Pósts og síma býr yfir. En þetta er auðvitað hunsað eins og allt annað sem sett er fram til þess að reyna að betrumbæta þetta frv. Það er sama hvar á það er litið. Það er ekki einu sinni hlustað á einfalda ósk um að starfsmenn fái einn fulltrúa í stjórn fyrirtækisins. Þetta er eftir öðrum vinnubrögðum hjá þessari ríkisstjórn hvort sem það er í þessu máli eða öðrum málum. Við getum talið þau öll upp, frv. fyrir frv. þar sem alls staðar er stigið þar sem heitir réttur starfsfólks eða réttur launafólks. Alls staðar er hert á öllum ákvæðum til þess að hægt sé að nota þau til þess að píska starfsfólk áfram. Það er ekki fyrir að fara samvinnunni, samvinnunni við starfsfólk, að gera hlutina í samvinnu og samráði við starfsfólk. Nei, það skal þvert á móti gert í fullkominni andstöðu við starfsfólkið.

Virðulegi forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Það veldur mér vissuega miklum vonbrigðum að það skuli ekkert hafa breyst frá því að við vorum að ræða frv. við 1. umr. málsins. Þar komu fram ýmsar gagnlegar ábendingar sem ég hélt satt að segja að hæstv. ráðherra mundi hlusta á og meiri hluti í þinginu mundi taka tillit til, ekki síst að því er varðar réttarstöðu starfsfólks þannig að eytt yrði nokkru af þeirri tortryggni sem verið hefur uppi með réttu gagnvart þessu frv. En allt kemur fyrir ekki. Ráðherrann ætlar að halda sínu striki og hlusta ekki á ýmis varnaðarorð sem hafa komið fram um ýmsa þætti þessa máls.

Ég tel ástæðu til þess að nefna enn það sem ég minntist á við 1. umr. málsins, hvort nokkur hætta sé á því að elli- og örorkulífeyrisþegar sem notið hafa gegnum almannatryggingar þess að hafa fengið ókeypis fastagjald af síma, þ.e. hvort einhver breyting verði við það að Póstur og sími breytist í hlutafélag. Og ef svo verður, ef stjórn Pósts og síma tekur ákvörðun um það sem ég hygg að hún hafi rétt til og geti gert ef henni dettur það í hug, að afnema þessa niðurfellingu, þá spyr ég ráðherrann enn einu sinni: Ef stjórn Pósts og síma ákveður að fella þetta ókeypis fastagjald niður --- mér skilst að engin áform hafi komið fram um það í nefndinni --- en ef svo færi að stjórn Pósts og síma tæki upp á að breyta þessu, skerða eða fella niður þessa þjónustu, þessi réttindi sem elli- og örorkulífeyrisþegar hafa, mun hæstv. ráðherra þá sjá til þess og beita sér fyrir því að þessi ókeypis símgjöld haldi sig hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, þá með því að Tryggingastofnunin greiði þau? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að hafa þetta eitthvað fastar í hendi en við höfum nú.

Það væri líka athyglisvert að heyra nokkuð nánar um annað frá hæstv. ráðherra. Þegar Póstur og sími hefur skilað árlega í ríkissjóð að mig minnir 860 millj. til þess að greiða niður halla ríkissjóðs, þá er ástæða til þess að spyrja: Hvað verður við þessa breytingu? Mun þessi hagnaður skila sér áfram í ríkissjóð eða getur stjórn Pósts og síma ákveðið að honum skuli ráðstafað öðruvísi?

Ég ætla að láta þessi orð mín nægja við þessa umræðu. Ég vil þó ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns að ég óttast mjög þá breytingu sem hér er verið að gera, ekki síst gagnvart starfsfólkinu. Ég sé ekki nein rök með breytingunni og sé ekki að hana hafi þurft til þess að við gætum aðlagast þeirri öru tækniþróun sem vissulega er á þessu sviði og hef fært rök fyrir því í mínu máli. Ég held, virðulegi forseti, að eini tilgangurinn með þessu frv. sé að búa í haginn fyrir einkavæðingu Pósts og síma og ég held að það líði ekki langur tími þar til við sjáum að það verður lagt til á hv. Alþingi að selja hlutabréfin í Pósti og síma. Og alveg er eitt víst að það eru ýmsir sem bíða eftir því alveg örugglega að geta keypt bréf í þessu fyrirtæki sem skilað hefur miklum hagnaði. Ég yrði ekkert hissa þó stór fyrirtæki á borð við Eimskip eða Flugleiðir yrðu innan ekki margra ára, þ.e. ef íhaldið fær áfram að stjórna á þessu landi, orðnir stórir eigendur að þessu fyrirtæki sem skilað hefur miklum hagnaði og hefur staðið sig vel í þeirri öru samkeppni sem ríkir á þessu sviði.