Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 17:09:44 (7034)

1996-06-03 17:09:44# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[17:09]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Í þeirri grein sem vitnað er til og hv. þm. vitnaði til, en höfundar eru formenn Félags ísl. símamanna og Póstmannafélags Íslands, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Halldór Blöndal samgönguráðherra lýsti því yfir í umræðum á Alþingi miðvikudaginn 29. maí að ekki væru mörg dæmi um að jafnmikil áhersla hafi verið lögð á góða samvinnu við starfsfólk og við undirbúning á því að breyta rekstrarformi Pósts og síma.

Sú samvinna hefur alveg farið fram hjá okkur þrátt fyrir það að við séum í forsvari fyrir um 2.000 starfsmönnum stofnunarinnar.`` Þetta stendur í þessari grein.

Nú hef ég áður lýst því yfir og jafnframt sagt þessu ágæta fólki að ég vilji eiga gott samstarf við Félag ísl. símamanna og Póstmannafélag Íslands og lagt áherslu á það við póst- og símamálastjóra og starfsmenn samgrn. Þess vegna kemur mér auðvitað í opna skjöldu þegar því er lýst yfir af formönnum þessara félaga að þetta samstarf hafi algerlega farið fram hjá þeim. Það er síður en svo að forustumenn þessara stéttarfélaga hafi ekki verið boðaðir á þá samráðsfundi sem haldnir hafa verið. Ég veit ekki betur en allt hafi gengið eins og það átti að ganga. Hins vegar kom upp misskilningur milli yfirmanna Pósts og síma og Félags ísl. rafiðnaðarmanna eða Rafiðnaðarsambandsins og það var lagfært um leið og það fréttist. Þannig að vilji minn hefur ekki staðið til þess að formönnum þessara félaga sé haldið utan við það samstarf sem verið hefur. Mér þykir þetta frekar benda til þess að ekki sé mjög mikið upp úr samstarfi lagt úr því að það hefur farið algerlega fram hjá formönnum félaganna og er þarna að sjálfsögðu óvenjulega að orði komist.

Ég hlýt að biðjast afsökunar á því að hafa talað mjög óskýrt í andsvari. Eins og áður hefur komið fram í máli mínu á Alþingi og raunar líka í blaðaviðtölum lít ég svo á efni 2. gr. frv. að 1. mgr. lúti að því að Pósti og síma hf. sé heimilt að eiga hlut í öðrum hlutafélögum eða með öðrum aðilum óskyldum Pósti og síma, stofna slík fyrirtæki ef svo ber undir og þá um leið að selja hlut í slíkum fyrirtækjum eftir samþykktum hlutafélagsins. Þar verður kveðið nánar á um það eftir hvaða reglum skuli farið um framkvæmd á 1. mgr. 2. gr. En ef við hins vegar lítum á 2. mgr. er hún mjög afgerandi um það að óheimilt er að leggja niður einstaka rekstrarþætti Póst- og símamálastofnunar með því að hluta fyrirtækið í sundur og stofna sérstök hlutafélög í samvinnu við aðra. Ég hygg að þetta sé alveg skýrt og tekið er fram að slík dótturfyrirtæki skuli vera alfarið í eigu ríkisins, þ.e. í eigu Pósts og síma hf. Um þetta er enginn vafi í mínum huga og hafi ég sagt eitthvað annað í fyrri ræðu minni áður biðst ég afsökunar á því og vil taka af allan vafa um það.

Ég get auðvitað ekki fallist á það að ég hafi veist persónulega mjög harkalega að hv. þm. Ögmundi Jónassyni með því að segja að hann hafi verið í félagsskap með þeim þingmönnum hv. Svavari Gestssyni og Hjörleifi Guttormssyni. Enda vita margir kunningjar mínir að þegar ég hef rætt um þingmenn hef ég sérstaklega tekið það fram að ég hafi átt mjög náið og gott samstarf við þessa þingmenn, annan í menntmn. og hinn í fjárhags- og viðskn. og hef persónulega talið þá mikla giftumenn og öndvegismenn. Þannig að það er síður en svo að ég sé að svívirða hv. þm. Ögmund Jónasson með því að bæta honum í hópinn. En það er svo oft að maður á kannski ekki að skipta sér af því hverjir eru nánastir í Alþb., enda ekki mitt mál. En ómögulega get ég neitað því að Alþb. er mikill ríkisafskiptaflokkur í mínum huga og verður ekki við því gert.