Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 17:38:17 (7044)

1996-06-03 17:38:17# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. minni hluta GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[17:38]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Það var ekki ætlan mín að leggja sérstaklega orð í belg eða teygja umræðuna á langinn en ég get ekki orða bundist í kjölfar ræðu hæstv. samgrh. Ég hafði satt að segja vonir til þess að ræða hans mundi a.m.k. fækka að einhverju leyti þeim álitamálum og þeim stóru götum sem er að finna í frv. hans, en það varð því miður öðru nær því að ef eitthvað varð jókst óvissan um hin stóru kjarnaatriði frv. Það sem átti sér síðast stað í þessum ræðustól, þ.e. orðaskipti hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur og hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, var auðvitða hrein og klár undirstrikun þess. Ég lét mér til hugar koma eitt andartak að einhver tími hefði liðið frá því að ráðherrann hefði lesið yfir frv. þegar hann gat hrasað og farið rangt með jafnstórt og mikilvægt atriði og skipun svokallaðrar undirbúningsnefndar er og með hennar valdi og hæfi. Eitt af stóru atriðunum í tillögu meiri hluta samgn., fulltrúa hæstv. ráðherra í þeirri nefnd var að styrkja stöðu þeirrar undirbúningsnefndar og veita henni vald, ígildi nánast löggjafarvalds. Þá er það sem hæstv. ráðherra segir í þessum ræðustól að það hafi aldrei staðið til að þessi nefnd ætlaði sér að gera nokkuð með málefni starfsmanna. Þetta er náttúrlega með slíkum ólíkindum að engu tali tekur að hæstv. ráðherra skuli ekki vita betur og fara með jafnstaðlausa stafi og þarna ræðir um og hann hefði auðvitað betur gert í þessu tilfelli eins og öðrum sem ég mun ræða á eftir og biðjast afsökunar á því að hafa farið rangt með.

Það gerði hann þó a.m.k. í öðru stóru atriði sem er þrátt fyrir allt enn í fullkominni óvissu og lýtur að heimildum ráðherrans, heimild væntanlegrar stjórnar þessa hlutafélags til ráðstöfunar á eignum þess því að í einni af mörgum ræðum hæstv. ráðherra orðaði hann það sem svo að skv. 2. gr. þessa frv. væru vissar takmarkanir á því hversu Alþingi gæti með beinum og óbeinum hætti komið að ráðstöfunum eignarhluta. Hann dró svo í land eftir að á hann var gengið og vildi fullyrða að frv. svaraði því að öllu leyti og þessi heimild var ekki til staðar nema atbeina Alþingis nyti við. Það er auðvitað ekkert undarlegt, herra forseti, að eftir jafnlangar og ítarlegar umræður þar sem margar spurningar hafa vaknað standi bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn uppi með eitt stórt spurningarmerki þegar sjálfur hæstv. ráðherra kemur og ætlar að ljúka umræðunni og súmmera upp og taka þátt í helstu stærðir en skilur málið aldrei sem fyrr eftir í fullkomlegu uppnámi. Ef spurningar voru til staðar áður þá eru þær helmingi fleiri og stærri nú. Ég get þess vegna ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um þessi lykilatriði.

Auðvitað þýðir ekki að hafa það þannig, virðulegi forseti, eins og hæstv. ráðherra vildi hafa það áðan þegar hv. þingmenn komu upp í andsvör og vildu fá svör frá hæstv. ráðherra, þá dró hann sig inn í skel sína og var hættur. Ég vil ekki gangast við slíku verklagi og vinnubrögðum. Auðvitað eiga hv. þingmenn kröfu á því að ráðherrar taki þátt í umræðu og svari þeim spurningum sem fram eru settar.

Spurningin sem hefur vaknað enn og aftur og lýtur að því stjórnarfarslega atriði hvort Alþingi hafi í raun og sanni nokkra praktíska og raunverulega möguleika á því að koma að þessu máli aftur þegar gerðar eru stjórnskipulegar breytingar á þessu stórfyrirtæki, Póst- og símamálastofnun og Pósti og síma hf. Þá á ég ekki síður við þegar því fyrirtæki, eins og raunar er gert ráð fyrir í anda frv., verður skipt upp í tvö, fjögur eða sex dótturdótturfyrirtæki og svo ég tali nú ekki um samrunafyrirtækin. Því hlýt ég að árétta það enn og aftur og það þarf ekkert flókið svar við þessu. Spurningin er sett fram í nefndaráliti minni hluta samgn. og þá er einfaldlega spurt: Mun áskilnaður um nauðsyn samþykkis Alþingis halda komi til sölu ef um er að ræða dótturfyrirtæki Pósts og síma? Mun sá áskilnaður halda og er hann óhjákvæmilegur? Er með öðrum orðum bannað með öllu að ráðstafa þessum eignum út og suður í dóttur- eða dótturdótturfyrirtæki án þess að Alþingi komi hér að málum? Það hlýtur að vera einfalt að svara þessu.

Hin spurningin er: Gildir það sama um væntanlegt samrunafyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem pósturinn hf. eða síminn hf. kaupir í fyrirtæki þriðja aðila? Margsinnis hefur verið spurt um þetta en eftir sem áður virðist vera ákaflega flókið og erfitt að fá viðhlítandi svör. Þetta var eitt af þeim atriðum sem voru hvað mest rædd í hv. samgn. og aftur og aftur var leitað eftir skýrum svörum við þessu. Lögfróðir aðilar hafa ekki getað kveðið upp úr með það og því miður er það mín trú að ráðherrann hafi ekki vald til þess. En það skiptir máli komi til túlkunar á þessum atriðum hvert er viðhorf ráðherrans og raunar kölluðum við eftir því í hv. samgn. að meiri hluti nefndarinnar lýsti algerlega skýrum og klárum vilja sínum til þessara mála í athugasemdum og nefndaráliti því að það skiptir líka máli. Það var ekki gengið eftir því er þannig að þessi stóra spurning er enn og aftur til staðar og er þetta lykilatriði. Þá skiptir þar engu máli hver er pólitísk eða siðferðileg afstaða ráðherrans til þess hvort skynsamlegt sé nú eða síðar að selja fyrirtækið. Þá er það alveg á mörkunum að það verði á valdi hans þegar allar stjórnirnar í hlutafélaginu, í dótturfyrirtækjunum og í samrunafyrirtækjunum eru teknar til starfa, vilja fara að rekja fyrirtæki sín með arðbærum hætti og mæta því áreiti sem markaðurinn kallar eftir eins og er enn og aftur lykilatriðið í þessu frv. þegar hv. stjórnarliðar á þingi mæla fyrir því og er talin trú um að hér sé nútíminn að ganga í garð. Þetta verður að vera ljóst, virðulegi forseti, og ég hlýt að árétta þessa lykilspurningu.

[17:45]

Hvað varðar meginatriði málsins þá er það alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að sennilega eru þau fá frumvörpin sem hafa haft jafnlanga meðgöngu og það sem hér er á ferð. Því undarlegra er það að menn skuli ekki hafa unnið heimavinnuna betur en raun ber vitni og breytingartillögur meiri hluta samgn. segja til um. Þess vegna er það ekki nein taktík, virðulegi forseti, eins og ætla mætti af orðum hæstv. ráðherra, af hálfu stjórnarandstæðinga til þess að þæfa mál og svæfa sem lagt er formlega til að verði vísað til ríkisstjórnarinnar og menn hafi tíma og tóm til þess að leita svara við þeim spurningum sem þeir sjálfir vekja heldur einfaldlega eðlileg, sjálfsögð og rökstudd krafa um það að menn vinni heimavinnuna sína. Þess vegna er það undarlegra en ella þegar rætt er um starfshæfi svokallaðrar undirbúningsnefndar að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kemur og segir að aukið vægi hennar og vald einmitt gagnvart samningum við starfsmenn ásamt öðru sé m.a. til orðið til þess að hægt verði að tryggja stöðu þeirra áður en væntanlegt hlutafélag fer í gang. Því spyr ég: Hvers vegna í veröldinni var ekki hægt að vinna þessi atriði, samningana við starfsfólkið og þau atriði sem þar út af standa áður en við komum til þessarar umræðu í þinginu og við skrifum þetta einfaldlega inn í það frv. sem við erum að fjalla um? Þau hefðu nýtt þau þrjú eða fjögur ár sem eru undirbúningstími og meðgöngutími þessa frv. til þess að fækka þeim álitamálum. Hvers vegna í veröldinni var sá tími ekki nýttur? En við höfum enn þá möguleika á að nota hann. Við höfum enn þá allt sumarið og samgn. sem slík gæti þess vegna gengið til þeirra verka.

Við spurðum aftur og aftur eftir því í minni hluta samgn. hvort meiri hluti nefndarinnar eða fulltrúi ráðherra væri ekki á slíkum viðræðufundum með fulltrúum starfsfólks til þess að fækka þessum álitamálum, til þess að ganga frá lausum endum og var til að byrja með sagt að svo væri. Síðan kom í ljós að þær viðræður og það samráð var í algeru skötulíki og snerist raunar um allt annað þannig að álitamálunum sem uppi eru gagnvart réttarstöðu starfsfólks hefur síst fækkað, kannski fjölgað ef eitthvað er eftir því sem menn hafa grafið sig neðar ofan í þetta frv. og áttað sig betur á tilgangi þess og eðli. Það eru engin rök í þessu máli, virðulegi forseti, að menn vísi til þess að aukið vald einhverrar þriggja manna nefndar úti í bæ, sem ráðherra ætlar að skipa og ætlar að passa sig á því að verði í engu tilfelli skipuð fulltrúum starfsmanna, heldur verði það einhverjir trúnaðarmenn hans sem eiga síðan að taka upp samstarfið við starfsfólk og búa út aðra löggerninga er lúta að undirbúningi málsins. Hvers vegna í veröldinni gerum við þetta ekki hér? Til þess erum við. Það er þessi rauði þráður í frv. öllu. Það er ekkert um það að mæta nýjum tímum eða stíga inn í nútímann. Það er eingöngu um að formbreyta fyrirtækinu og veita síðan hæstv. ráðherra alræðisvald um frekari þróun fyrirtækisins, um formlega hlið málsins, hvort heldur er um tvískiptingu eða þrískiptingu á þessari stofnun eða hvernig stofnunin ætlar síðan að stíga inn í nýja öld. Þetta fyrirtæki ætlar sér sannanlega að mæta stóraukinni samkeppni sem mun ríða yfir eftir hálft annað ár, 1. jan. 1998. Þetta frv. svarar því ekki einu né neinu og því miður er það þannig að hæstv. ráðherra hefur ekki getað það heldur. Sannarlega hefur þó hv. formaður samgn. gert veikburða tilraunir til þess að reyna að lesa inn í þessa framtíð en hann hefur ekki svör því að þau er ekkert að finna í bók hæstv. ríkisstjórnar, í þessu frv. hæstv. samgrh., því er nú verr og miður. Málið er allt á algerum misskilningi byggt og menn hafa kannski gleymt megintilganginum og reynt að ígrunda hann, heldur er þetta gullna vers, hlutafélagavæðing sem öllu á að bjarga það eina sem hér segir. En þannig er veruleikinn ekki.

Ég hef áður sagt, virðulegi forseti, að allra síst skal standa á mér að reyna að taka þátt í uppbyggilegri umræðu og síðan ákvörðunum um það hvernig fyrirtæki geti starfað sem best á nýjum og gerbreyttum tímum og ég er enn þá reiðubúinn til þess. En þá skulum við gera það með þeim hætti að eitthvert gagn sé að en láta ekki málið daga uppi í eintómum spurningum og hálfkveðnum vísum eins og því miður er hér að gerast.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að toga þetta mál né teygja en ég tel hins vegar algerlega óhjákvæmilegt að milli umræðna setjist hv. samgn. yfir málið þó ekki væri nema á einni morgunstund. Ég held að einmitt yfirlýsingar ráðherra áðan um starfsvettvang nefndarinnar, misskilning hans í þeim efnum, misskilning hans og síðan afsökunarbeiðni á gildi ákvæða 2. gr. frv. geri það að verkum þó ekki væri nema til þess að hann áttaði sig á því hvað væri á ferðinni, að samgn. ætti að setjast yfir málið á nýjan leik og reyna með sameiginlegu nefndaráliti að skrifa athugasemdir með lykilgreinum frv. sem gæfi manni vonir um að einhver skilji það. Það er alveg nauðsynlegt þegar frv. verður gert að lögum að dómstólar og allir aðrir hagsmunaaðilar geti skilið þau og starfað eftir þeim. Því er því miður ekki að heilsa í dag og ég trúi því ekki eitt andartak af því að ég skil það þannig og trúi því að viðhorf ráðherrans til málsins hvað varðar til að mynda sölu hlutafjár í þessu fyrirtæki eða dótturfyrirtæki sé einlægt, hann trúi því og vilji standa við sínar yfirlýsingar í þeim efnum. Þess frekar hlýtur hann að vera mönnum sammála um það að búa þannig um hnúta að engin slys verði í þeim efnum og yfirlýsing sem hann hefur margsinnis gefið um atbeina Alþingis verði tryggð með þeim hætti að 2. gr. þessa frv. taki ekki yfir þá 1. sem lýtur að áskilnaði um samþykki og heimildir Alþingis um sölu bréfa. Hann hlýtur því að vera okkur samstiga í því og ég vænti þess að ágætur formaður hv. samgn., Einar K. Guðfinnsson, taki ábendingu minni vel og hv. samgn. gefi sér tíma til þess að setjast að málinu a.m.k. hvað varðar þá tvo þætti sem ég nefndi og skrifi athugasemdir með þessum greinum frv. sem gera það að verkum að hæstv. ráðherra átti sig á þeim og þingheimur allur. Það er lykilatriði í þessu sambandi.

Virðulegi forseti. Ég árétta enn og aftur að mín skoðun hefur langt í frá breyst hvað varðar afstöðu til málsins í heild. Það fer langbest á því að menn vinni þetta betur heima í héraði. Jafnvel væri hugsanlegt og skynsamlegra og ég kasta því fram til umhugsunar að málið fari ekki til ríkisstjórnarinnar heldur fari sérstök milliþinganefnd í þetta mál og skrifaði það upp og gerði það þannig úr garði að það væri nothæft á haustdögum. Eins og ég hef sagt áður er ég tilbúinn til að taka þátt í slíkri vinnu, ég segi þrátt fyrir allt að upphaflegu markmiðin eru nógu góð en því miður hefur úrvinnslan verið með þeim hætti að ekki verður við unað.