Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 18:03:42 (7048)

1996-06-03 18:03:42# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[18:03]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gerði þessi mál einmitt að umtalsefni í framsögu minni með minnihlutaáliti en hæstv. ráðherra var forfallaður við þá umræðu. Þar velti ég því einmitt fyrir mér, ekki síst í ljósi þess að þetta stóra skref til jöfnunar á réttindum fólks til símaþjónustu í dreifbýli og þéttbýli ætti ekki að gerast fyrr en 1. júlí 1998, þ.e. hálfu ári eftir að samkeppnin verður orðin altæk samkvæmt tilskipun ESB. Á hinn bóginn gerði tillaga minni hlutans ráð fyrir því að þetta stóra skref yrði tekið núna í næsta mánuði þannig að menn eru þá nokkuð öruggir með heimildina þetta eina og hálfa ár.

Ég skildi hins vegar svar hæstv. ráðherra núna á þann veg að menn hefðu ekki skoðað það gaumgæfilega hvort það stæðist samninginn um EES eða aðrar alþjóðlegar skuldbindingar, hvort yfirvöld gætu gert kröfu til þess að væntanlegir samkeppnisaðilar Pósts og síma hf. yrðu að þjónusta allt landið, yrðu að falla undir sama ákvæðið um sömu gjaldskrá alls staðar hvort sem þeir vildu það eða vildu það ekki. Ég spyr auðvitað vegna þess að það liggur í augum uppi að það munu koma væntanlegir samkeppnisaðilar, munu auðvitað fyrst og síðast setja sig niður á höfuðborgarsvæðinu, í þéttbýlinu, munu freista þess að undirbjóða Póst og síma hf. og bjóða upp á lægri gjaldskrá hafi þeir til þess tök en skilja landsbyggðina eftir. Vangaveltur mínar eru fyrst og síðast þessar: Stenst þetta ákvæði EES-samningsins? Í öðru lagi: Hefur hæstv. ráðherra engar áhyggjur af því að þessu nýja fyrirtæki hans og ríkissjóðs, Pósti og síma hf., séu settar ólíkar skyldur á herðar, þá í samkeppni við aðra aðila þegar þetta stóra fyrirtæki fer að þjónusta allt landið með einni gjaldskrá en önnur fyrirtæki undirbyðu hugsanlega og fleyttu rjómann ofan af og nægði fyrir kúnnana þar sem þá væri að finna.