Flugmálaáætlun 1996--1999

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 18:13:41 (7051)

1996-06-03 18:13:41# 120. lþ. 158.13 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[18:13]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir ástæðum þess að ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara. Það er ekki vegna þess að ég hafi neinar beinar athugasemdir að gera við tillöguna í heild, þ.e. skiptingu þeirra fjármuna sem hér um ræðir. Allgott samkomulag og samstarf var um þau mál í nefndinni og þau rædd fram og til baka. Hins vegar vildi ég með fyrirvara mínum vekja athygli á því að í áætluninni eru framlög til nýframkvæmda og endurbóta að nokkru leyti skert vegna þess að stærri hlut en áður er nú varið til almenns rekstrar á flugvöllum um land allt og dregur þar með úr möguleikum til þess að hefjast handa og ljúka mörgum þeim brýnu verkefnum sem finna má hringinn í kringum landið. Það er ástæða þess að nafn mitt er undir nefndarálitinu með fyrirvara. Með öðrum orðum, hinn almenni rekstur tekur óþarflega mikið til sín á kostnað þeirra nýframkvæmda sem hinir mörkuðu tekjustofnar flugmálaáætlunar gera að langmestum hluta ráð fyrir.