Staðfest samvist

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 19:18:39 (7061)

1996-06-03 19:18:39# 120. lþ. 158.16 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, KF
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[19:18]

Katrín Fjeldsted:

Ágæti forseti. Eins og aðrir á undan mér ætla ég að fagna þessu frv. og lýsa því yfir hversu tímabært mér þykir það vera. Ég var ein af þeim sem í kosningabaráttu sl. vor áttu þess kost að heimsækja Samtökin '78 ásamt fleiri frambjóðendum, m.a. hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni sem hér talaði á undan og þær umræður urðu okkur öllum talsvert minnisverðar og höfðu mikil áhrif á viðhorf okkar. Með frv. af þessu tagi er að sjálfsögðu verið að gangast við þeim mannréttindum sem Samtökin '78 hafa barist fyrir hér á landi og þótt það gangi ekki eins langt og ýtrustu óskir þeirra hafa lotið að er staðfest samvist þó til þess fallin að vega gegn fjöllyndi, til þess að efla fjölskyldutengsl og koma í veg fyrir, hindra eða draga úr fordómum gagnvart samkynhneigðum. Mér finnst þess vegna mjög gleðilegt að taka þátt í atkvæðagreiðslu um þetta mál.