Innheimtustofnun sveitarfélaga

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 20:40:55 (7067)

1996-06-03 20:40:55# 120. lþ. 158.18 fundur 356. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (samningar við skuldara) frv. 71/1996, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[20:40]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég tel einsýnt að það er mikið réttlætismál að koma til móts við þann hóp sem fjallað er um í frv. Ég kynntist þessum málum sem hér um ræðir allítarlega þar sem ég var formaður fyrir þeirri nefnd sem vann þá greinargerð er félmrh. byggir frv. sitt á. Eftir að hafa kynnst þeim erfiðleikum sem meðlagsgreiðendur eiga í er alveg ljóst að á einn eða annan hátt þarf að rétta hlut þess fólks sem í slíkum hremmingum hefur lent. Við getum lengi borið saman stuðning við þennan hóp eða annan og það má lengi segja: ,,Ja, hvað um hina ef þessir fá einhverja hjálp?`` En hérna er um slíka nauð að ræða hjá stórum hópi manna að --- ég vil ekki segja án tillits til alls annars en ég vil segja þrátt fyrir brýna nauðsyn á aðstoð við aðra hópa --- þá þarf að koma til móts við þessa aðila. Slíkur er vandi þeirra. Það er alveg ljóst að þessar skuldir hafa hlaðist upp án þess að menn fái rönd við reist. Meðlag hækkaði mikið en þó er það að sjálfsögðu ekki svo hátt að það nægi fyrir þeirri framfærslu sem heppilegust og eðlilegust og fullnægjandi verður að teljast þegar framfleyta á börnum. Meðlagið er því síst of hátt og ekki má skerða það með neinum hætti. En það breytir þó ekki því að meðlagsgreiðendur eru margir í þeim vanda sem ég fór hér nokkrum orðum um.

Meðlagsgreiðandi, svo ég nefni dæmi, sem greiðir með þremur börnum greiðir á fjórða tug þúsunda. Ég hef hitt menn sem hafa um 70 þús. kr. í laun. Þeir eru komnir í nýtt samband. Þeir hafa fyrir nýrri fjölskyldu að sjá, þurfa að leigja íbúð og standa skil af venjulegum greiðslum. Þetta er vandi sem er það mikill að það er gjörsamlega ómögulegt fyrir menn að rísa undir þessu. Ég veit að vandi margra annarra í þjóðfélaginu er síst minni og við getum lengi sagt að sumir af þeim sem hafa lent í þessum erfiðleikum hafi lent í mörgum félagslegum vanda sem fólk kann að hafa einhverjar sérstakar skoðanir á. En það breytir ekki því að þeir eru komnir í þennan vanda og þeim verður ekki hjálpað nema komið sé til móts við þá með þessum hætti. Þess vegna er það mikið framfaramál að samþykkja frv. sem hér liggur fyrir þó svo ég viðurkenni að það þarf að skoða hagsmuni annarra hópa.

Þó svo við lykjum nefndarstarfinu með þessari niðurstöðu sem hér kemur fram, þá vil ég láta það koma fram að sú umræða hefur farið fram að við héldum nefndarstarfi áfram í þessari nefnd eða annarri þar sem lögin væru skoðuð í nágrannalöndunum og vandi meðlagsgreiðenda skoðaður í stærra samhengi og tekin hliðsjón af fleiri atriðum og þá sérstaklega hugsað til þeirra sem þó standa í skilum þrátt fyrir marga erfiðleika. Ég mælist eindregið til þess að þingmenn horfi á þetta mál af víðsýni, viðurkenni að sjálfsögðu eins og sá ræðumaður sem hér stendur vanda annarra hópa í þjóðfélaginu en láti það ekki draga úr sér kjarkinn við að koma til móts við þennan hóp manna sem fjallað er um í þessu frv.