Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 21:45:21 (7090)

1996-06-03 21:45:21# 120. lþ. 158.27 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., AK
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[21:45]

Arnþrúður Karlsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil í ljósi þess sem fram hefur komið í sambandi við þessa þáltill. um ólögleg fíkniefni þakka hv. allshn. fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt af mörkum í vetur því að auðvitað er þáltill. ekki lögð fram að ástæðulausu. Ég vil aðeins hrekja það sem hér var sagt að það ætti að taka þetta tiltekna atriði fram í heildarendurskoðun á hegningarlögunum. Hún hefur nýfarið fram. Hegningarlögin hafa nýlega verið endurskoðuð. Það eru ekki mörg ár síðan þannig að ég held að það sé ekki óeðlilegt, í ljósi þeirrar þjóðfélagsumræðu og þeirra atburða sem eiga sér stað í þjóðfélaginu, að einmitt hið háa Alþingi láti málið til sín taka. Þótt það þurfi að kippa út einum lið í hegningarlögunum og breyta honum er það engin frágangssök og til þess þarf ekki að fara fram einhver heildarendurskoðun á hegningarlögunum. En það er mjög mikilvægt að þetta atriði verði eitt og sér skoðað í ljósi þeirra atburða sem nú eiga sér stað.

Ég fagna því að sjálfsögðu að skýrsla hæstv. forsrh. liggur fyrir. Það sem þar kemur fram styður enn frekar það sem að baki liggur. Ég held að fólk þurfi ekkert að verða hrætt við það að taka einmitt svona á hlutunum því að þetta er bara spurningin um að nálgast raunveruleikann og þora að nálgast raunveruleikann. Ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn muni einmitt líta á þessa samþykkt og þessar tillögur í ljósi þess.

Refsiramminn hefur ekki verið fullnýttur og ef það er ekki einmitt Alþingi sem sér ástæðu til þess að setja mjög skýra löggjöf í hegningarlögunum, hverjir eiga þá að gera það? Dómstólar fara kannski ekki alla leið og þeirra hámark miðast kannski við allt annað en það sem við hér inni gerum okkur grein fyrir. Ég held því að við þurfum ekki að vera hrædd við að hækka þakið og það verður alltaf matsatriði hverju sinni hvenær það er notað. En ég minni á það eina ferðina enn að þegar stóru málin virkilega koma, og við getum átt von á enn stærri málum, finnst mér slæmt ef ekki er heimild til þess í lögum að taka á því eins og gert er í nágrannalöndum. Ég held að Ísland hafi sérstöðu sinnar vegna fulla ástæðu til þess einmitt að þyngja refsingarnar í þessum málaflokki.