Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 21:48:52 (7091)

1996-06-03 21:48:52# 120. lþ. 158.27 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[21:48]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að við eigum að þora að nálgast raunveruleikann. Ef við tölum um að breyta refsilöggjöfinni og hækka eða auka refsingar þegar þau hámörk sem fyrir eru hafa í sárafáum eða engum tilvikum verið nýtt í þessum tilteknu málum, verðum við líka að horfast í augu við þann raunveruleika að við höfum enga aðstöðu til þess að taka við eftir að refsing hefur verið aukin. Við skulum segja sem svo að dómarar dæmdu samkvæmt því. Það er auðvitað Alþingis að ákveða hámarksrefsingu en ekki hver refsingin skal vera í hverju einstöku tilviki. Það er dómstólanna. Þá er raunveruleikinn sem við horfum fram á sá að við höfum hvergi pláss til þess að vista þá afbrotamenn sem þar um ræðir. Það er blákalda staðreyndin líka.