Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 21:52:49 (7094)

1996-06-03 21:52:49# 120. lþ. 158.27 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[21:52]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram við afgreiðslu þessarar tillögu að ég styð efni hennar og tel mjög tímabært að herða viðurlög við ólöglegum innflutningi á fíkniefnum eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir. Ég sat fundi allshn. sem áheyrnarfulltrúi og styð það að tillögunni sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Ástæða þess er sú að hæstv. forsrh. boðaði í umræðum í síðasta mánuði að nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar sem er að skoða almennt aðgerðir gegn neyslu og dreifingu fíkniefna mundi skila í lok síðasta mánaðar skýrslu um aðgerðir, en nefndinni var m.a. falið að kanna hvort herða bæri refsingar við ólöglegum innflutningi á fíkniefnum.

Hæstv. forsrh. tók vel í það að jafnvel þótt þing væri farið heim að nefndum þingsins, allshn. og heilbrn. a.m.k. og e.t.v. menntmn. og félmn. sem á einn eða annan hátt fjalla um þetta mál, yrði kynnt þessi niðurstaða þannig að nefndirnar gætu lagt á það sjálfstætt mat hvort tillögur þær til úrbóta sem hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin væntanlega mun leggja fram séu nægjanlegar. Ég vona að af þessu verði þannig að við fáum fljótlega að heyra af niðurstöðu þessarar nefndar og hún verði kynnt fyrir nefndum þingsins.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að það veldur mér verulegum áhyggjum hvernig framkvæmdin í dómskerfinu er varðandi refsilöggjöfina, ekki bara í fíkniefnamálum heldur í fleiri málaflokkum. Ég nefni t.d. í skattsvikamálum. Við fórum í gegnum það á síðasta þingi hvernig refsilöggjöfin hefur verið framkvæmd í skattsvikamálum og þar kom í ljós að jafnvel þótt heimilt sé að beita í refsingu tífaldri þeirri fjárhæð sem undan var dregin hafði henni aldrei verið beitt og sektir við skattsvikum voru mjög lágar. Jafnvel langt undir þeirri fjárhæð sem svikin var undan skatti. Því greip Alþingi til þess ráðs að setja ákveðið gólf á refsirammann sem ekki mátti fara undir sem var þá tvöföld sú fjárhæð sem undan var dregin, en heimildin er um tífalda þá fjárhæð sem undan er dregin.

Sama gildir um refsingar við kynferðisafbrotum. Það hefur margkomið fram innan þingsalar og utan að dómar vegna kynferðisafbrota eru mjög vægir. Meðal annars kom fram um daginn að í 179 málum sem dæmt hafði verið í að mig minnir á 5 ára tímabili voru sektirnar samtals 400 þús. kr. og þær aðeins dæmdar í 6 málum. Sama gildir um fíkniefnin og fórum við í gegnum það um daginn að upptækur hagnaður af fíkniefnum eða upptæk fíkniefni hafi verið metin á um 350 millj. kr. en dómar, sektir sem hafa fallið, eru 6 millj. kr. Þetta er þó það sem við höfum uppi á borðinu að því er varðar upptækan hagnað. Ég lýsi hreinlega yfir áhyggjum mínum af framkvæmd á refsilöggjöfinni í dómskerfinu. Það er auðvitað erfitt að átta sig á hvernig á að taka á því. Við höfum gert það gagnvart skattsvikamálum, en ég tel að það þurfi að taka á því víðar og hugsanlega setja ákveðið gólf eða setja dómstólunum ákveðinn ramma og skýrari ramma að dæma eftir en gert hefur verið.

Við höfum fyrir okkur t.d. nýlegt kynferðisafbrot þar sem Hæstiréttur lækkaði bætur sem höfðu verið dæmdar í undirrétti sem ég tel til hreinnar skammar og skil ekki. Það var faðir sem misnotaði dóttur sína og henni höfðu verið dæmdar 2 millj. í undirrétti en síðan þegar málið kemur til Hæstaréttar eru bæturnar lækkaðar niður í 1 millj. vegna skyldleika og af því að faðirinn hafði framfærsluskyldu gagnvart barninu. Það er alveg ótrúlegt að slíkt skuli eiga sér stað og varnaðaráhrifin eru hvergi, hvort sem litið er til skattsvikamála, fíkniefnamála eða kynferðisafbrota. Ég held að við hljótum við betra tækifæri að taka þessi mál til rækilegrar umfjöllunar, þ.e. framkvæmd refsilöggjafar í dómskerfinu. Auðvitað er dómur dómur og enginn deilir kannski við dómarann. En við setjum hér ákveðna löggjöf, líka löggjöf til að dæma eftir. Og við hljótum þá að fara yfir sviðið og athuga hvort þar er einhver brotalöm að því er varðar lagaákvæðin sem dæmt er eftir úr því að reynslan er eins og hér hefur verið lýst varðandi a.m.k. þrjá stóra málaflokka: Skattsvikamál, fíkniefnamál og kynferðisafbrot. Ég lýsi hreinlega undrun minni yfir því, jafnvel þótt það séu dómstólar sem hér eiga í hlut, hvernig framkvæmdin á refsilöggjöfinni er í dómskerfinu.