Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 21:59:26 (7095)

1996-06-03 21:59:26# 120. lþ. 158.27 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[21:59]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli síðasta ræðumanns kom fram mikil hneykslan á því hvernig tekið er á dómsmálum. Ég vildi aðeins upplýsa þingmanninn um að í tollalögum er gert ráð fyrir því að ef um smygl er að ræða, t.d. um borð í skipi, er tollgæslunni heimilt að gera farartækið upptækt.

Varðandi fíkniefnasmygl og fíkniefnabrot þekkist það víða erlendis, og vitna ég þar t.d. til Bandaríkjanna, að ef aðilar eru teknir með fíkniefni er farartækið gert upptækt á staðnum. Og hvað er svo gert við þessa hluti? Það eru bæði bátar og bílar og fleira sem gert er upptækt. Þetta er selt á opinberu uppboði og notað til þess að fjármagna fíkniefnalögregluna. Ég tek undir það með síðasta ræðumanni að refsingar eru náttúrlega allt of vægar. Enda þótt þær þurfi ekki að vera ígildi peninga þurfa þær samt sem áður að vera með þeim hætti að menn hugsi sig tvisvar um áður en til slíkra brota er stofnað þannig að á mörgum sviðum finnst mér að við séum eftir á. Við töldum það á árum áður að af því að Ísland væri eyja langt norður í hafi þá ætti fíkniefnamálið ekki að vera neinn vágestur hjá okkur þegar fram liðu stundir. En það hefur sýnt sig vera allt annað mál en menn bjuggust við. Þau eru alvarlegri og þá er það umhugsunarefni hvort það er ekki löggjafans að taka á málinu og skoða það hvernig grannríkin og löggæslan þar hagar sér gagnvart þessum málum og taka upp þá hætti sem einkum lúta að t.d. upptöku á þeim farartækjum sem notuð eru til þessara hluta.