Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 22:01:42 (7096)

1996-06-03 22:01:42# 120. lþ. 158.27 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[22:01]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér fer fram merkileg umræða um eitt af þeim alvarlegustu málum sem hefur verið til umfjöllunar í þingsölum nú í vetur, þ.e. hinn skelfilega vágest sem fíkniefni eru. Ég tek það fram að ég styð efni þeirrar tillögu sem hér er til umræðu og færi þakkir til frsm. sem og allshn. og er mjög sammála þeirri afgreiðslu sem þar fer fram.

Hins vegar lýsi ég jafnframt þeirri skoðun minni og tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að það er mikið umhugsunarefni að refsiramminn skuli ekki hafa verið fullnýttur og sé ekki fullnýttur í þeim alvarlegu brotum sem fylgja fíkniefnum, ekki síst því sem ég vil kalla allt að svívirðilegustu glæpamenn sem þekkjast, þ.e. þeir sem stunda sölu til að hagnast á sölu fíkniefna.

Ég tel í alla staði eðlilega afgreiðslu að vísa málinu að öðru leyti til nefndar hæstv. ríkisstjórnar sem hér hefur verið minnst á og eins og allshn. leggur til því að fíkniefnamál verða aldrei leyst nema á þeim sé tekið á heildstæðan hátt. Þar er refsiþátturinn aðeins einn angi af nokkrum. Það má segja að til þess að ná utan um þessi skelfilegu mál, sem fíkniefni eru, má skipta þeim í fjóra þætti. Það er í fyrsta lagi innflutningur, í öðru lagi er það salan, í þriðja lagi er það eftirlit eða löggæsla og síðan að lokum refsingin.

Hvað innflutninginn varðar eins og hér hefur komið fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns búum við við þá sérstöðu að vera eyríki og eigum þar af leiðandi að hafa meiri möguleika en aðrar þjóðir, eins og þjóðir meginlandsins, til þess að halda uppi öflugu eftirliti. En það er bara ekki svo hjá okkur. Eftirlitið mun vera þokkalegt í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og þá er nánast upptalið. Ég nefni sem dæmi að á Seyðisfirði þar sem ferjan Norræna kemur að og þúsundir ferðamanna árlega mun ekki einu sinni vera reglulega staðsettur fíkniefnahundur en slíkar skepnur munu skila bestum árangri í tolleftirliti. Í hinum ýmsu höfnum landsins er undir hælinn lagt hvort eitthvert eftirlit á sér stað. Þetta er hvað innflutninginn varðar. Það er með öðrum orðum í molum hjá okkur.

Ég nefni svo í öðru lagi söluna. Auðvitað er besta leiðin til þess að uppræta fíkniefnaneyslu að eyðileggja markaðinn með öflugu forvarnastarfi í samstarfi allra þeirra aðila sem koma einkum að uppeldi ungmenna. Þar nefni ég skóla, foreldrasamtök, íþróttahreyfingu og þannig má áfram telja þar sem þessir aðilar taka höndum saman, skiptast á upplýsingum og halda uppi góðum, öflugum áróðri og fræðslu. Það er að sjálfsögðu besta vörnin gegn þeim mikla vágesti sem fíkniefni eru.

Í þriðja lagi nefni ég svo löggæsluna en það hefur komið fram í vetur í ræðum í þessum sal að verulega illa er búið að löggæslunni hvað þennan þátt varðar. Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík er fáliðuð í þessu stóra og vaxandi máli. Að auki er meiri hluti þeirra auðgunarbrota, sem eiga sér stað, sendur til afgreiðslu hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins en á milli þessara tveggja deilda er svo lítið samstarf. En auðvitað hanga þessi auðgunarbrot saman, sem má rekja beinlínis til fíkniefnaneyslu, þar sem fórnarlömb fíkniefna eru að fjármagna neyslu sína með auðgunarbrotum. Á milli Rannsóknarlögreglu ríkisins og fikniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík hefur verið sáralítið samstarf. En með frv. til breyttra laga um lögreglu er einmitt verið að taka á þessu máli. En fyrst og fremst snýst þetta um fjármagn. Alþingi hefur ekki veitt nægjanlegu fjármagni til fíkniefnalögreglu og það hafa starfsmenn fíkniefnalögreglunnar upplýst þingmenn um að þeir viti eða hafi grun um stærri mál sem þeir hafi ekki tíma eða mannskap til þess að sinna. Þetta er þriðji þátturinn.

Lokaþátturinn í þessu er að sjálfsögðu refsingin hjá þeim sem eru uppvísir, einkum að sölu og dreifingu fíkniefna. Ég er því mjög hlynntur að refsingar gagnvart þessum glæpamönnum verði verulega hertar og tek mjög undir þau sjónarmið sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kynnti áðan að það er einkum á þremur sviðum sem þjóðin virðist sammála um að herða beri verulega refsingar, þ.e. í kynferðisafbrotum, í skattsvikum og síðast en ekki síst fíkniefnamálum. Þess vegna af framansögðu tel ég afgreiðslu nefndarinnar eðlilega að vísa málinu, þessum refsiþætti sem er aðeins einn þáttur af mörgum, til nefndar hæstv. ríkisstjórnar og ég tek undir þær óskir sem hér hafa komið fram að þessi nefnd skili af sér þegar haustþing kemur saman þannig að alþingismenn geti tekið höndum saman og tekið hraustlega á þessu mikla máli.