Græn ferðamennska

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 22:11:45 (7099)

1996-06-03 22:11:45# 120. lþ. 158.28 fundur 66. mál: #A græn ferðamennska# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[22:11]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar aðeins að reifa nokkur atriði varðandi þetta þingmál um stefnumótun í ferðamálum með áherslu á græna ferðamennsku. Þessi þáltill. var lögð fyrst fram á 119. þingi, þ.e. fyrir rúmu ári, og þá hafði engin stefnumótun hafist af hálfu samgrh. Síðan var málið flutt aftur í haust og þá var vitað að samgrh. hygðist hefja stefnumótun í ferðaþjónustu og var þá ályktuninni breytt að nokkru leyti með það fyrir augum og breytt í þá veru að samgrh. var falið að skipa nefnd til að fella áherslu á græna ferðamennsku eða vistvæna ferðamennsku inn í stefnumótun í ferðamálum hér á landi.

Á þeim dögum sem þáltill. var dreift í þinginu hóf samgrh. þessa vinnu. Hann skipaði stýrihóp um miðjan október á síðasta ári til þess að vinna að stefnumótun í ferðamennsku og þegar fjallað var um þessa þáltill. í samgn. kom það fram í máli Ármanns Kr. Ólafssonar, aðstoðarmanns samgrh., að við stefnumótun í ferðamennsku og sérstaklega hvað varðar sérstakan kafla í stefnumótuninni sem kom út þá daga sem við vorum einmitt að afgreiða þetta mál úr nefndinni að við vinnu á þeim kafla sem heitir sjálfbær ferðamennska og umhverfisvernd hafi þessi þáltill. og greinargerðin með henni verið notuð sem vinnuplagg. Þetta er því dæmi um það þegar mál er farið að skila árangri áður en Alþingi er búið að afgreiða það.

Ég legg áherslu á það í þeirri vinnu sem fram undan er hjá samgrh. að haldið verði áfram að vinna í þeim anda sem kemur fram í þessari þáltill. og áliti nefndarinnar sem leggur til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar því að Ísland hefur meiri möguleika en flest önnur lönd til að laða að sér þá tegund ferðamanna eða þá ferðamenn sem aðhyllast ferðamennsku sem flokkast undir vistvæna eða sjálfbæra, oft kallaða græna ferðamennsku. En þeim ferðamönnum fer mjög fjölgandi í heiminum og mjög margir markaðsmenn sem telja að í þeirri tegund ferðamennsku sé fólginn einn mesti vaxtarbroddur sem Íslendingar eiga í atvinnumálum um þessar mundir. Ég legg því áherslu á það að við áframhaldandi vinnu samgrh. varðandi ferðamál verði haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð er í stefnumótuninni í VIII. kafla um sjálfbæra ferðamennsku. Annað sem ég vil ítreka er að þegar farið verður í að kynna ferðaþjónustu hér á landi, þá þarf sérstaklega að kynna þá ferðamennsku sem rekin er á vistvænan hátt sem slíka. Það er mjög mikilvægt og lögð áhersla á það hjá þeim sem aðhyllast vistvæna ferðamennsku. Ég fagna því að þegar er þessi tillaga búin að hafa áhrif á stefnumörkun í ferðamálum hér á land og ég vona að þessum málum sem hér eru nefnd verði hrint í framkvæmd.