Rannsóknir í ferðaþjónustu

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 22:23:50 (7104)

1996-06-03 22:23:50# 120. lþ. 158.30 fundur 76. mál: #A rannsóknir í ferðaþjónustu# þál. 18/1996, TIO
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[22:23]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. samgn. fyrir að hafa unnið vel í þessu máli og tekið á því með eðlilegum hætti. Það er staðreynd að rannsóknir í ferðaþjónustu hafa setið nokkuð á hakanum og aðstaða til rannsóknastarfsemi fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein hefur ekki verið sambærileg við þá aðstöðu sem aðrar atvinnugreinar hafa notið. Það er verið að reyna að lagfæra þetta á ýmsan hátt og nefni ég þar sérstaklega það hvernig Rannsóknarráð Íslands hefur tekið á málefnum ferðaþjónustunnar, þ.e. þannig að nú eru veittir styrkir á vegum Rannsóknarráðs Íslands til ferðaþjónustuverkefna en áður fyrr heyrði það til hreinna undantekninga að það væri gert.

Sú þáltill. sem hér er til umræðu er liður í því að styrkja stoðkerfi ferðaþjónustunnar og er rétt að það komi fram í þessu sambandi vegna athugasemda hv. 5. þm. Suðurl. að í þingskjalinu þar sem þessi tillaga er sett fram og studd greinargerð, kemur fram kostnaðaráætlun sem ætti að svara a.m.k. að hluta til fyrirspurn hans hér áðan

Það er gert ráð fyrir því að launakostnaður verði um 2,5 millj. á ári og það er gert ráð fyrir því að undirbúningsvinnu fylgi nokkur kostnaður og er hann áætlaður um 500 þús. kr. fyrsta árið en eftir það nokkru lægri. Það er því talað um um það bil 3 millj. kr. kostnað. Rétt er að geta þess að sá kostnaður sem þarna er um að ræða er ekki rannsóknakostnaður. Hann er ekki framlag til rannsókna í sjálfu sér, heldur miðar tillagan fyrst og fremst að því að skapa tækifæri og möguleika og eiginlega verkfæri til þess að Ferðamálaráð geti ýtt undir rannsóknir á sviði ferðamála.

Staða Ferðamálaráðs til þess að gera slíkt hefur verið mjög þröng. Eins og þingmönnum er kunnugt, þá fara þeir fjármunir sem Ferðamálaráð hefur úr að spila að mestu leyti til kynningarstarfs, mjög nauðsynlegs kynningarstarfs sem í raun þyrfti að vera mun meira. Ferðamálaráð hefur sjálft komið sér upp smávægilegum fjármunum til þess að stunda rannsóknir. Þeir nema á þessu ári 1,5 millj. sem er að sjálfsögðu mjög takmarkað fé.

Hér er lagt til að fella út úr þáltill. hugmyndir um að stofna sérstakan rannsóknasjóð og verður bara að sætta sig við þá afgreiðslu. Nefndin hefur komist að þessari niðurstöðu. En það er rétt að geta þess í þessu sambandi að á sviði t.d. byggingarstarfsemi, ef við tökum það sem dæmi, þá hefur það einmitt verið talinn kostur innan Rannsóknarráðs Íslands að framlög komi frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins til verkefna og þá styrkir Rannsóknarráð Íslands oft á móti. Stundum standa þrjár stofnanir að slíkum verkefnum og þar af leiðandi liðkar það til, það liðkar til fyrir rannsóknaverkefnum ef hægt er að koma til móts við framlög Rannsóknarráðs Íslands með sérstökum framlögum.

Auðvitað má segja sem svo og rökstyðja niðurstöðu hv. samgn. að það sé til Ferðamálasjóður og hann geti í sjálfu sér veitt fjármagn til rannsókna í ferðamálum. Það hefur sjóðurinn hins vegar ekki gert. En það er hægt að styðja það með rökum að sjóðurinn geti gert slíkt. Samþykktir sjóðsins og lög um sjóðinn eru slík að það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að sá sjóður styrki rannsóknaverkefni í ferðaþjónustu.

Ég vil þar af leiðandi fagna afgreiðslu nefndarinnar. Hún hefur unnið eðlilega og vel að þessu máli. Ég er sannfærður um það að niðurstaða hennar mun styrkja starfsemi ferðaþjónustunnar. Hún mun ýta undir rannsóknastarfsemi í ferðaþjónustu. Ég vil því eindregið koma á framfæri þökkum mínum fyrir starfið í nefndinni.