Rannsóknir í ferðaþjónustu

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 22:33:03 (7106)

1996-06-03 22:33:03# 120. lþ. 158.30 fundur 76. mál: #A rannsóknir í ferðaþjónustu# þál. 18/1996, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[22:33]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ástæða til þess að gera athugasemdir við málflutning hv. 18. þm. Reykv. Í fyrsta lagi er ekki hægt að jafna saman þessum tveimur málum, þ.e. annars vegar stefnumótun í grænni ferðamennsku og þessu þingmáli sem hér er til umræðu. Þál. um græna ferðamennsku var stefnumótunarþingsályktun og fellur því algerlega inn í þá vinnu sem hefur verið unnin á vegum hæstv. samgrh. Hins vegar er sú tillaga sem hér er um að ræða ekki stefnumarkandi. Rannsóknir í ferðaþjónustu og aðstaða til að ýta undir slíkar rannsóknir er verkfæri til framkvæmda en ekki stefnumarkandi. Það er sama hvaða stefna hefði verið tekin í málefnum ferðaþjónustunnar, aðstaða til rannsókna hefði samt alltaf verið jafnnauðsynleg. Þetta er því ekki sambærilegt. Hér er ekki um að ræða fyrst og fremst málefni sem er stefnumörkun heldur er verið að búa til ákveðna möguleika fyrir Ferðamálaráð í þessu tilfelli til þess að ýta undir rannsóknir. Hér er þess vegna um framkvæmd að ræða en ekki stefnumörkun. Þessi ályktun hefði verið nákvæmlega jafnmikilvæg þótt stefnan sem samgrh. hefur tekið í sjálfu sér hefði verið einhver önnur og marka ég það af því að það hefur lengi vantað þessa aðstöðu. Og ég býst við að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir átti sig á því eins og aðrir þingmenn hér í salnum að þessa aðstöðu hefur vantað.

Í öðru lagi langar mig til að geta þess að talað er um gagnamiðstöð á Akureyri. Þar er þegar kominn grunnur að slíkri miðstöð og með nútímagagnaflutningum er þetta ekkert vandamál í sjálfu sér enda hefur það komið í ljós í sambandi við menntanetið sem var sett upp á Kópaskeri að slíkar aðstæður er hægt að setja upp hvar sem er á landinu og vil ég vekja athygli hv. þm. á þessu.