Rannsóknir í ferðaþjónustu

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 22:36:54 (7108)

1996-06-03 22:36:54# 120. lþ. 158.30 fundur 76. mál: #A rannsóknir í ferðaþjónustu# þál. 18/1996, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[22:36]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, 8. þm. Reykv., að einmitt í þáltill. er verið að gera grein fyrir ákveðnum ráðstöfunum, framkvæmdum sem þarf að grípa til til þess að hægt sé að efla rannsóknir í ferðaþjónustu. Þannig er verið að tala um framkvæmdir í þessari tillögu og það eru tiltekin nákvæm framkvæmda\-atriði. Hafi það verið gagnrýnt í nefndinni að þessi tillaga væri ónákvæmt orðuð þá kemur það ekki fram í nál. þannig að hv. þm. er þarna að upplýsa þingheim um eitthvað sem hefur farið fram í spjalli milli manna í nefndinni og verð ég nú að gera athugasemdir við það.

Að því er lýtur að því að óeðlilegt sé að það komi fram í þessari þáltill. hvar þetta skuli staðsett og það sé annarra að ákveða það þá vil ég geta þess að hér fór á sínum tíma fram athyglisverð umræða um flutning Skógræktar ríkisins austur á land. Alþingi ákvað að flytja Skógrækt ríkisins austur á land þannig að það var tekin afstaða til staðsetningarinnar sem hluta af byggðapólitík og síðan framkvæmdi hæstv. þáv. samgrh., Steingrímur J. Sigfússon, þennan vilja Alþingis þannig að það er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að Alþingi taki afstöðu til staðsetninga slíkra stofnana. Stundum hefur verið sagt að það væri erfitt að flytja stofnanir út á land sem væru þegar rótgrónar hér í Reykjavík. Það tókst reyndar í þessu sambandi. Það tókst að flytja Skógrækt ríkisins út á land. En í sambandi við þá umræðu þá hefur einmitt verið bent á að það væri í vissum tilfellum auðveldara að búa til, skapa nýjar stofnanir úti á landi. Og það er einmitt það sem hér er verið að gera í þessari tillögu og í niðurstöðu hv. samgn. Það er verið að leggja til að stofnun sem ekki er til nú, ríkisstofnun, að vísir að slíkri stofnun verði til og það á Akureyri og það er ekkert óeðlilegt við þetta. Þetta fellur algjörlega inn í þær hugleiðingar og þær áhyggjur sem Alþingi hefur iðulega haft af byggðamálum.