Rannsóknir í ferðaþjónustu

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 22:42:46 (7111)

1996-06-03 22:42:46# 120. lþ. 158.30 fundur 76. mál: #A rannsóknir í ferðaþjónustu# þál. 18/1996, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[22:42]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fer nú að velta því fyrir mér hvað það er hér sem við erum að samþykkja eða lagt er til að verði samþykkt. Kostnaðaráætlunin sem fylgir á öftustu síðu er þess efnis að það er verið að ráða deildarstjóra yfir deild ferðamála innan Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri. Tillagan hins vegar sem er á fyrstu síðu segir ekkert um það, ekki neitt. En í nál. sem kemur frá samgn. segir hins vegar: ,,Þá hefur Háskólinn á Akureyri lýst áhuga á að setja á stofn rannsóknadeild ferðamála innan Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri.`` En tillagan sjálf er um það í fyrsta lagi að stofnuð verði gagnamiðstöð og í öðru lagi að stofnaður verði rannsóknasjóður, það er búið að fella það út, og að stofnuð verði staða rannsóknafulltrúa við skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands. En kostnaðaráætlunin á við allt aðra hluti. Hún er frá háskólanum sem fylgiskjal ásamt bréfi sem er sent sem minnisblað til menntmrh. frá Háskólanum á Akureyri, rannsóknadeild ferðamála. Ég vil fá að vita, virðulegi forseti, hvort við erum að samþykkja að stofna deild innan Háskólans á Akureyri. Samkvæmt kostnaðaráætlun virðist svo vera. Eða er verið að samþykkja tillöguna eða er það hvort tveggja sem sem hér er lagt til að samþykkt verði? Ég er ekki á nokkurn hátt á móti efni tillögunnar, finnst það mjög gott að þetta sé samþykkt. En ég tel það hins vegar afar einkennilega afgreiðslu að vísa til þessarar kostnaðar\-áætlunar sem er um allt aðra þætti og koma með það hér að þetta sé kostnaður upp á um 3 millj. kr. og vísa beint í þessa kostnaðaráætlun sem gerð er um Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri. Þetta er mjög sérkennilegur málflutningur svo ekki sé nú meira sagt.