1996-06-04 00:21:38# 120. lþ. 159.12 fundur 540. mál: #A eftirlaun alþingismanna# (forseti Alþingis, makalífeyrir) frv. 108/1996, Flm. RA (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 159. fundur

[24:21]

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það frv. til laga um breyting á lögum um eftirlaun alþingismanna sem ég mæli fyrir og flutt er af 1., 2., 3. og 4. varaforseta þingsins, snertir aðallega tvö efnisatriði í núgildandi lögum um eftirlaun alþingismanna. Hið fyrra lýtur að starfskjörum forseta Alþingis en síðara efnisatriðið lýtur að makalífeyri og stefnir að því að þrengja rétt til makalífeyris. Ég vil strax taka það fram að með samþykkt þessa frv. verður alþingismannadeildin í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins ekki fyrir kostnaðarauka. Þvert á móti er um mjög mikinn sparnað að ræða sem fylgir þessu frv. og þó að ekki sé hægt að áætla það með neinni nákvæmni eðli máls samkvæmt hver sparnaðurinn verður, þá leyfi ég mér að fullyrða að sparnaðurinn nemur örugglega nokkuð á fjórða hundrað millj. kr. Stafar það af því að verið er að þrengja rétt til makalífeyris í allmiklum mæli frá því sem nú er.

Með 2. gr. laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, var stefnt að því að forseti Alþingis nyti sömu launa- og starfskjara og ráðherra. Með starfskjörum er m.a. átt við eftirlaunarétt. Eftirlaunum ráðherra er skipað með lögum og er eftirlaunasjóður ráðherra sérstök deild innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hins vegar þykir ekki eðlilegt að forsetar Alþingis greiði í þann sjóð eins og ráðherrar. Til þess að lögfesta fyrri ákvarðanir Alþingis um stöðu þingforseta að þessu leyti er í frv. lagt til að hann greiði af öllum launum sínum fyrir forsetastarfið í eftirlaunadeild alþingismanna og öðlist þar viðbótarrétt sem sé hiðstæður eftirlaunarétti ráðherra. Réttur ráðherra til eftirlauna er 6% fyrir hvert ár í embætti, þó aldrei meira en 50% af ráðherralaunum, þ.e. þeim launum sem ráðherrar hafa fyrir starfa sinn umfram þingfararkaupið.

Þetta er um þann þáttinn sem snýr að forseta Alþingis og er sá þáttur kostnaðarlega séð afar smár þegar hann er borinn saman við sparnaðarþáttinn sem felst í hinu meginatriði frv. En svo stendur á að samkvæmt túlkun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á 4. gr. laga nr. 46/1965, um eftirlaun alþingismanna, eins og henni var breytt á árinu 1982, hefur eftirlifandi mökum varaþingmanna verið greitt úr sjóðnum að lágmarki 20% af þingfararkaupi auk helmings af réttindum varaþingmannsins. Varaþingmenn sitja alla jafna stuttan tíma á Alþingi, sumir aðeins í tvær vikur og öðlast við það rétt til lífeyris sem nemur um það bil 0,08% af þingfararkaupi, þ.e. við núgildandi verðlag og launagreiðslur um 150 kr. á mánuði. Makinn fær hins vegar við andlát varaþingmannsins samkvæmt þessari túlkun lagagreinarinnar hvorki meira né minna en 40 þús. kr. á mánuði í makalífeyri.

Með frv. er afnuminn réttur eftirlifandi maka varaþingmanns til eftirlauna sem eru hærri en eftirlaun varaþingmannsins voru. Jafnframt er 4. gr. laganna breytt þannig að lífeyrir eftirlifandi maka alþingismanns eða fyrrv. alþingismanns getur aldrei orðið hærri en eftirlaun þingmannsins nema um mjög skamman tíma. Við þetta skerðast eftirlaun eftirlifandi maka alþingismanns eða fyrrv. alþingismanns ef hinn látni hefur setið á Alþingi skemur en 12 ár, en sá þingsetutími veitir rétt til 40% eftirlauna.

Rétt er að árétta það sérstaklega að með frv. er eingöngu verið að sníða vankanta af lögunum eins og þau eru nú og samræma þau fyrri ákvörðun Alþingis um launa- og starfskjör forseta þingsins, en frv. felur ekki í sér almenna endurskoðun laganna um eftirlaun alþingismanna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa frekari orð um frv. og vísa að öðru leyti til ítarlegrar greinargerðar sem fylgir því. Ég legg til að að lokinni þessar umræðu verði málinu vísað til hv. efh.- og viðskn.