1996-06-04 00:27:50# 120. lþ. 159.12 fundur 540. mál: #A eftirlaun alþingismanna# (forseti Alþingis, makalífeyrir) frv. 108/1996, PHB
[prenta uppsett í dálka] 159. fundur

[24:27]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um eftirlaun alþingismanna barst á borð þingmanna fyrir nokkrum klukkustundum og ekki hefur unnist mikill tími til að fara í gegnum það. Þó sýnist mér við fyrstu sýn að þetta sé ótrúlega ljót lagasetning. Hér er verið að blanda saman mörgum hlutum í einu frv. Miklu einfaldara hefði verið að láta forseta greiða inn í ráðherradeildina og njóta réttinda þaðan eins og þeir aðilar sem þangað greiða í stað þess að vera að vísa í þessum lögum í lögin um eftirlaun ráðherra sem er alveg sérdeilis ljótt. Síðan er búið til hugtakið ,,varaþingmaður`` sem er eitthvað annað en alþingismaður og þrátt fyrir það að alþingismaður getur að sjálfsögðu setið í bara tvo mánuði ef þing er rofið og varaþingmaður getur setið í mörg ár fyrir ýmsa þingmenn eða fyrir þingmann sem er langtímum veikur. Það næst því ekki fram og lagasetninguna hefði mátt gera á miklu einfaldari máta en hér er lagt til.

Vegna þess skamma tíma sem hv. þingmenn hafa haft þetta frv. til skoðunar get ég ekki sagt nú þegar hvernig þessu mætti betur fara en ég vil benda á það að eftir sem áður eru makalífeyrisréttindi ráðherra óleyst. Ég bendi á að ráðherra sem starfað hefur í eitt ár fær 6% af launum sem ráðherralaun en maki hans, ef ráðherra fellur frá, fær 23% og jafnvel eftir fjögur ár er ráðherrann kominn með 24% af launum ráðherra en makinn er með 32%. Þetta er örugglega ekki það sem menn ætla sér. Samt er vísað í lögin um eftirlaun ráðherra varðandi eftirlaun forseta. Þetta er því ekki fögur lagasetning og alveg ótrúlegt að menn skuli búa til þrjár reglur, þ.e. í fyrsta lagi fyrir forseta Alþingis, í öðru lagi fyrir alþingismenn og svo í þriðja lagi fyrir varaþingmenn í einum lagabálki fyrir ekki fleiri en 63 starfandi menn.