1996-06-04 00:32:55# 120. lþ. 159.12 fundur 540. mál: #A eftirlaun alþingismanna# (forseti Alþingis, makalífeyrir) frv. 108/1996, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 159. fundur

[24:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið fjallar frv. sem er til umræðu um tvö efnisatriði til breytinga á lögum um eftirlaun alþingismanna. Í fyrsta lagi er um að ræða að verið er að skerða verulega makalífeyri varaþingmanna sem er sjálfsögð og löngu tímabær breyting að gera sem ég og þingmenn Þjóðvaka munum styðja. Hin síðari fjallar um breytt lífeyrisréttindi forseta Alþingis. Ég minni á í því sambandi að sl. vor voru samþykkt ný lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Við þingmenn Þjóðvaka greiddum ýmist atkvæði gegn ákvæðum þess frv. eða sátum hjá. Við sátum m.a. hjá við þá grein sem fjallaði um að forseti Alþingis nyti sömu launa og starfskjara og ráðherrar og sú breyting sem hér er verið að ræða er væntanlega gerð í framhaldi af þeirri lagasetningu sem gerð var 1995. Við þingmenn Þjóðvaka munum ekki styðja þá breytingu, sem lýtur að lífeyriskjörum forseta, og það er í samræmi við þá atkvæðagreiðslu og þá afstöðu okkar sem fram kom þegar ný lög voru samþykkt um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.