1996-06-04 00:39:45# 120. lþ. 159.13 fundur 541. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (biðlaun) frv. 104/1996, Flm. GHH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 159. fundur

[24:39]

Flm. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir litlu frv. sem formenn allra þingflokka hafa sameinast um að flytja. Hér er um að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, sem samþykkt voru fyrir um það bil ári.

Efnisatriði frv. er aðeins eitt. Það gerir ráð fyrir því að afnuminn verði möguleiki alþingismanna til þess að njóta biðlauna ef þeir hafa tekið við starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en biðlaunatíminn er á enda og skulu þá launagreiðslur samkvæmt 13. gr. laganna falla niður ef þau laun sem nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en biðlaunagreiðslur til þingmannsins. Ef launin í nýja starfinu eru lægri skal greiða honum launamismuninn til loka biðlaunatímans.

Frv. er flutt í kjölfar þess að samþykkt hafa verið ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í frv. felst að hið almenna ákvæði þeirra laga um skerðingu biðlaunagreiðslna, taki menn við nýju starfi, skuli gilda jafnt um alþingismenn og starfsmenn ríkisins að öðru leyti.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn.