Frumvarp um heilbrigðisþjónustu

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 10:12:13 (7150)

1996-06-04 10:12:13# 120. lþ. 160.93 fundur 340#B frumvarp um heilbrigðisþjónustu# (aths. um störf þingsins), GHH
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[10:12]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég hlýt að undrast það ef fólk undrast að þetta mál nr. 13 skuli vera á dagskrá komið vegna þess að það var frá því gengið í gærkvöldi að það ásamt 12. málinu kæmi á dagskrá fundarins sem haldinn var í gærkvöldi. Þetta veit ég að þeir sem viðstaddir voru á fundi þingflokksformanna geta staðfest. Þar á meðal þeir sem eru að banka í borðið hérna. Ég bið menn um að skoða hug sinn vel og hugsa til baka vegna þess að samkomulagið var um það að þessi tvö mál kæmu á dagskrá en þau yrðu ekki fyrir tekin fyrir fyrr en það hefði verið frekar rætt. Ef hv. þm., málshefjandi, er að hrista hausinn yfir því, þá bið ég hann um að skoða betur hug sinn og rifja upp um hvað var talað í gærkvöldi.

Það urðu hins vegar mistök, að mínum dómi leið mistök, af hálfu forseta, að þessi mál komu ekki á dagskrá síðasta fundarins í gærkvöldi eins og um hafði verið talað þó að það hafi ekki verið talað um að taka þau til umræðu án þess að halda sérstakan fund út af því. Og ég geri ráð fyrir því að forseti hugsi sér að kalla menn saman til fundar áður en nokkur umræða hefst um þessi mál. Ég geri ráð fyrir því að það standi sem hann sagði í gærkvöldi við okkur þingsflokksformenn og fulltrúa þingflokka.

Hins vegar vil ég láta í ljós furðu mína yfir einu öðru máli á dagskrá sem er síðasta dagskrármálið vegna þess að ég minnist þess ekki að það hafi nokkurn tíma verið rætt við okkur þingflokksformenn að það mál yrði tekið fyrir og ég spyr: Hvað veldur því að það er búið að troða þessu máli á dagskrána án þess að um það sé rætt við þingflokksformenn?