Frumvarp um heilbrigðisþjónustu

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 10:19:26 (7155)

1996-06-04 10:19:26# 120. lþ. 160.93 fundur 340#B frumvarp um heilbrigðisþjónustu# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[10:19]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég hafði út af fyrir sig talið að skýringar forseta væru nægilegar í þessu máli eins og sakir standa. En ég kvaddi mér þó hljóðs aftur til að staðfesta að það er rétt sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði áðan að hún hefur nokkuð oft nefnt þetta mál sem hér er á dagskrá sem 15. mál, á fundum sem við höfum setið sem formenn þingflokka við borð forseta. Og varðandi það að samkomulag hafi verið um það í gærkvöld að þessi tvö mál, þ.e. 12. mál og 13. mál, yrðu á dagskrá, þá er það ekki rétt vegna þess að á þessum fundi voru okkar ummæli þessi: Forseti ræður auðvitað dagskránni. En það var ekki þar með sagt að við værum að fallast á það að þessi mál yrðu tekin fyrir með þeim hætti að menn gerðu samt sem áður ráð fyrir að ljúka þinginu á þeim tíma sem eftir lifir til morgundagsins. Enda er það auðvitað svo að forseti ræður dagskránni og það ætti öllum að vera ljóst, bæði mér sem hef setið um skeið og einnig hv. þm. Geir Haarde, að forseti ræður dagskránni og líka því hvaða stjórnarandstöðumál eru á henni.