Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 10:50:37 (7161)

1996-06-04 10:50:37# 120. lþ. 160.3 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[10:50]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir mjög góða og fróðlega ræðu sem hann flutti hér og ég vil taka undir margt sem fram kom í hans máli.

Ég vil byrja á því að taka sérstaklega undir þá áherslu sem hann lagði á að samþykkt yrði breytingartillaga sem fram hefur komið frá hv. þingmönnum Ragnari Arnalds, Guðmundi Árna Stefánssyni og Ástu R. Jóhannesdóttur. Þótt hún hafi verið felld við atkvæðagreiðslu þá tel ég rétt að það mál verði endurskoðað. (Gripið fram í: Hún var dregin til baka.) Nú, hún var dregin til baka og frestað til 3. umr. þannig að þingið á enn kost á því að samþykkja þessa tillögu. En hún felur það í sér að eftir stofnun Pósts og síma hf. skuli grunnnetið í fjarskiptaþjónustu Póst- og símamálastofnunar áfram vera í eigu ríkisins eða fyrirtækja sem ríkið á allan hlut í, þ.e. grunnnetið verði í eigu samfélagsins.

Þetta minnir mig á umræðu sem fram hefur farið í Bretlandi síðustu missirin og snertir einkavæðingu járnbrautanna þar í landi. Þar var mörgum ofboðið þegar frjálshyggjustjórn Majors tók ákvörðun um að einkavæða járnbrautirnar og þar með sjálfa járnbrautarteinana. Þótti mörgum sem voru fylgjandi samkeppni á markaði að heppilegra og viturlegra væri að selja aðgang að þessum teinum og láta samkeppni fara fram á þeim, en að teinarnir væru í eigu samfélagsins. Mér finnst þetta að sumu leyti vera sambærilegt mál, að grunnnetið verði í eigu hins opinbera hvað svo sem kann að gerast á því neti.

Mér er að sjálfsögðu ljóst að þetta er flókið mál og til sögunnar eru að koma fleiri möguleikar en verið hafa til þess að miðla fjarskiptaboðum. En ég hygg að eins og sakir standa, eins og tækninni er núna háttað, að þá væri það mjög viturleg ráðstöfun að samþykkja þessa tillögu um að grunnnetið í fjarskiptaþjónustu Póst- og símamálastofnunar verði áfram í eigu ríkisins eins og tillaga hefur komið fram um. Á þetta vil ég leggja mjög ríka áherslu.

Ég ætla ekki að hafa langt mál að þessu sinni. Ég hef áður gert rækilega grein fyrir skoðunum mínum um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að breyta Pósti og síma í hlutafélag. Ég tel að þar sé verið að stíga fyrsta skrefið að einkavæðingu stofnunarinnar, enda er það að mörgu leyti rökrétt framhald af þeirri hugsun sem hér er byggt á, þ.e. að markaðsvæða þessa starfsemi.

Ég vil áður en ég lýk þessari umræðu frá minni hálfu aðeins víkja að því sem hæstv. samgrh. sagði í ræðu í gær um starfsöryggi starfsfólksins. Hann lítur svo á að með þessum breytingum sé verið að tryggja starfsöryggi starfsfólks. Hér er ég gagnstæðrar skoðunar og ekkert við því að segja. Hæstv. ráðherra telur að með því að markaðsvæða þessa starfsemi sé hún betur tryggð til frambúðar. Ég bendi á hinn bóginn á að markaðsvæðingin, þar sem sú leið hefur verið farin, hefur leitt til þess að ekki aðeins hefur launamunur innan þessara stofnana aukist heldur hefur það leitt til aukins atvinnuleysis, þ.e. að fleira fólk hafi misst atvinnuna en hefði gerst ef þessi breyting hefði ekki komið til sögunnar. Hér vísa ég einfaldlega í reynslu annarra þjóða og þá augljósu staðreynd að þar sem nýir eigendur koma til sögunnar með kröfur um að hámarka arðsemi og gróða og fá sem mest í sinn hlut, þá hefur jafnan vaknað krafa af þeirra hálfu jafnframt að vinnandi höndum yrði fækkað og það hefur gengið eftir. Ég legg áherslu á að ég tel ýmsar ástæður fyrir því að starfsfólki sem starfar á þessu sviði hafi fækkað. Þar kemur tæknin einnig til sögunnar en einkavæðingin hefur hert á þessari atvinnuleysisþróun. Á því leikur ekki nokkur einasti vafi að mínum dómi.

Að lokum langar mig til þess að segja fáein orð um stöðu starfsfólks. Ég hef margoft fagnað þeim yfirlýsingum sem fram hafa komið frá hæstv. samgrh. í þessari umræðu um að rækilega skuli tryggt að kjör og réttindi starfsmanna verði ekki skert og hæstv. ráðherra hefur sagt að slíkar viðræður hafi farið fram með þetta að markmiði við starfsfólkið og stéttarfélögin innan Pósts og síma og að þau mál séu í góðum farvegi. En hvað sem kann að líða góðum ásetningi hæstv. samgrh., þá er staðreyndin sú að þessi mál eru ófrágengin og það er rangt sem hæstv. samgrh. sagði í gær að ekki væri hægt að tryggja þessi mál til frambúðar. Það hefur verið verkefni í þeim ríkjum sem hafa hlutafélagavætt eða einkavætt að leysa þessi mál og sums staðar hefur það tekist með ágætum. Ég vitnaði í þróun mála í Frakklandi þar sem franski síminn hefur verið gerður að hlutafélagi. Þar er réttarstaða starfsfólksins tryggð þannig að það verður áfram innan réttinda- og kjarakerfis opinberra starfsmanna.

Í Danmörku var flughöfnin á Kastrup einkavædd. Þar var gengið til frambúðar frá réttindum og kjörum starfsmanna. Það var gert þannig að þeir sem þá voru starfandi urðu áfram opinberir starfsmenn, þ.e. nutu allra réttinda og kjara sem þeir höfðu. Frá þessu var gengið og það var gengið frá því til frambúðar. Og meðal annarra orða, er ekki meiningin sú að þetta fyrirtæki verði undir handarjaðri þess manns sem sagði að ekki væri unnt að tryggja hlutina til frambúðar því að það væri ekki hægt að vita hvað hlutafélag úti í bæ mundi gera í framtíðinni? Það er nú ekki lengra úti í bæ samkvæmt yfirlýsingum þessa sama hæstv. ráðherra en svo að það er í hans eigin skrifstofu með sínar höfuðstöðvar, við hans eigið skrifborð. Ég fæ því ekki séð hvernig það stenst að ekki sé unnt að tryggja kjör og réttindi starfsfólks til frambúðar ef mönnum er alvara með því að ætla ekki að selja þetta fyrirtæki eins og hæstv. samgrh. hefur marglýst yfir.

[11:00]

Réttindi starfsfólksins verða skert. Það mun gerast t.d. varðandi lífeyrisrétt ef ekki verður einhver breyting á því frv. sem hér er eða ef samningar nást ekki við starfsfólk. Þá verður um réttindaskerðingu að ræða vegna þess að ávinnslurétturinn fellur niður og ýmis önnur kjör eru einnig í uppnámi. Ríkisstjórnin er t.d. núna búin að afnema biðlaunréttinn í því formi sem hann var. Ef sú breyting sem menn settu í gegnum þingið um afnám biðlaunaréttar hefði ekki náð fram að ganga hefðu starfsmenn átt rétt á biðlaunum í hálft ár eða eitt ár eftir atvikum eftir því hvað starfsfólkið hefði starfað lengi eða haft aðstöðu til þess að semja um kjör í skiptum fyrir slík réttindi og slíkar krónur. Sums staðar hefur það verið gert með þeim hætti að starfsfólk hefur t.d. fengið hlut í félaginu en þetta eru krónur og aurar og jafnvel þótt það sé ekki lengur lagaleg stoð, þótt ríkisstjórnin hafi búið svo um hnútana að hún hefði af fólkinu þessa peninga, þá er enn siðferðileg krafa á hendur ríkisstjórninni að ganga frá þessum málum við starfsfólkið og tryggja því réttindi sem það hefur verið svipt. Það er siðferðileg krafa á ríkisstjórnina að hún semji við starfsfólk þannig að það tapi ekki réttindum sínum.

Ég hef margrakið það í ræðum um þetta mál hvernig einstaklingar, sem hafa verið í réttindakerfi opinberra starfsmanna, t.d. notið ávinnsluréttar í lífeyriskerfinu, hafa verið 10--20 þús. kr. lægri í launum en þeir sem hafa búið við annað réttindakerfi. Nú kemur það fram, og það hefur ekki verið hrakið og það er deginum ljósara, að fólk mun fara inn í lífeyrisréttindi á grundvelli laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, á þeim grundvelli að starf sé lagt niður. Við það tapast ávinnslurétturinn. Þetta er sannanlegt og þetta er staðreynd. Ávinnslurétturinn er hluti af því réttindakerfi sem launamunurinn var réttlættur samkvæmt, 10--20 þús. kr. á mánuði, ekki bara í þessum mánuði, ekki bara í janúar, ekki bara í desember heldur líka í janúar og desember í fyrra, hittiðfyrra og áratugi aftur í tímann þannig að við erum að tala þar um margfaldar krónur, margfalda þá peninga sem ríkisstjórnin hefur haft af þessu fólki núna með lagabreytingunni um biðlaun. Ríkisstjórnin hefur haft af fólkinu mörg hundruð þús. kr., milljónir, en er núna að hafa af mönnum þessi réttindi með lagabreytingu. Hún hefur haft það af með þessari lagabreytingu og hefur jafnan sagt: Já, en okkur finnst ekki sanngjarnt að menn séu á tvöföldum launum. En fannst mönnum það sanngjarnt að launamunurinn væri 10--20 þús. kr. í hverjum mánuði vegna þessara sömu réttinda? Var einhver sanngirni fólgin í því? En þannig var þetta og þannig er þetta. Þessi mál eru ófrágengin.

Í rauninni finnst mér ófært að frá einkavæðingu eða hlutafélagavæðingu Pósts og síma verði gengið fyrr en allir þessir endar hafa verið hnýttir og það hafa menn leitast við að gera víða erlendis. Hins vegar hefur það allt of víða ekki verið gert. Í Noregi stóð t.d. í stappi í langan tíma um þessi mál. Ég veit ekki einu sinni hvort það er fullfrágengið þar. Annars staðar var um þessi mál samið. Í Danmörku var talað um biðlaun upp á þrjú ár, þriggja ára biðlaunaréttur sem færðist yfir á fyrirtækið svo dæmi sé tekið. Ýmsar leiðir eru til í þessum efnum en það verður líka að finna þær, það verður að semja um þær og hver svo sem ásetningur hæstv. samgrh. hefur verið gagnvart starfsmönnum, og reyndar efast ég ekki um og hef reyndar aldrei efast um annað en hann hafi verið góður, ég hef aldrei efast um það. Ég held meira að segja að hann sé það enn þá. En staðreyndin er sú, hver svo sem ásetningur hæstv. samgrh. hefur verið og er, að þessi mál eru ófrágengin. Það er mergurinn málsins. Ef ásetningur hæstv. ráðherra er eins góður og ég vil trúa að hann sé á hann að vera maður til þess að taka um það ákvörðun fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að málinu verði frestað til haustsins, að frv. verði ekki samþykkt núna heldur verði leitað eftir samningum við starfsfólkið, allir endar hnýttir og að málinu komið í haust. En það þarf stóra menn og sterka siðferðilega til að taka slíkar ákvarðanir og við bíðum öll spennt að sjá á hvern hátt hæstv. samgrh. rís undir slíkum áskorunum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Lokaorð mín eru þessi: Ég vona að ríkisstjórnin og Alþingi beri gæfu til að ganga ekki frá málinu fyrr en réttindi starfsmanna hafa verið tryggð. Þau hafa ekki verið tryggð og það gengur ekki að fullyrða að gott samráð hafi verið haft við starfsfólk á grundvelli þess eins að margir fundir hafi verið haldnir, þegar ekki hefur verið tekið tillit til sjónarmiða starfsfólksins. Það hefur ekki verið gert. Það hafa verið boðaðir endalausir fundir, innihaldslitlir og innihaldslausir fundir og niðurstöður engar og ekki hlustað á sjónarmið starfsfólksins. Það hefur enn ekki verið gert og þess vegna á það að vera ófrávíkjanleg krafa Alþingis ef það vill halda reisn sinni að frá þessum málum verði ekki gengið fyrr en réttindi og kjör starfsfólks Pósts og síma hafa verið tryggð.