Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 11:07:40 (7162)

1996-06-04 11:07:40# 120. lþ. 160.3 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[11:07]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þau mál sem eru til umræðu, þ.e. stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar og fylgifrumvörp, þ.e. breyting á póstlögum og fjarskiptalögum, eru nú komin á lokastig umræðu í þinginu og höfum við í minni hluta samgn. komið sjónarmiðum okkar ágætlega á framfæri bæði í máli okkar í umræðu í þinginu og einnig í minnihlutaáliti frá nefndinni. En þar sem við erum að ljúka umræðunni langar mig aðeins að koma inn á nokkur atriði.

Eins og komið hefur fram hjá ræðumönnum á undan mér er verið að breyta rekstrarformi Pósts og síma eins og menn hafa sagt til að undirbúa stofnunina fyrir breytt rekstrarumhverfi og breyttan veruleika í næstu framtíð. Við höfum lýst því yfir að þetta mál hafi ekki verið nógu vel unnið og höfum hvatt menn til að taka málið til betri meðferðar. Þess vegna lögðum við til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar en það var fellt í nótt.

Þetta mál hefur oft verið kallað einkavæðing Pósts og síma en það er að sjálfsögðu ekki réttnefni. Hér er verið að stofna hlutafélag um fyrirtækið en það sem menn hafa haft áhyggjur af er hvort hlutabréf í þessu hlutafélagi verði seld. Hæstv. samgrh. hefur lýst því yfir að það standi ekki til í hans tíð að hlutabréf í Pósti og síma verði seld en það eiga eiga náttúrlega eftir að koma aðrir samgönguráðherrar og það verður í hendi þeirra hvort hlutabréf verða seld í þessu fyrirtæki.

Það sem ég hef nokkrar áhyggjur af er hvernig afgreiðslu brtt. hv. þingmanna Ragnars Arnalds, Guðmundar Árna Stefánssonar og þeirrar sem hér stendur, fékk í gær þar sem meiri hlutinn í þinginu felldi þá tillögu að grunnnetið skuli ávallt vera í eigu ríkisins. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að ég teldi að eðlilegt að þetta net ætti að vera í eigu okkar allra og var ágæt samlíkingin hjá honum í ræðunni um járnbrautirnar og járnbrautarteinana í Bretlandi.

Menn hafa oft rætt það varðandi aðgang að sameiginlegum takmörkuðum auðlindum í eigu ríkisins að þar skuli seldur aðgangur. Það hefur m.a. komið fram í umræðu um aðgang að sjónvarpsrásum svo að dæmi sé tekið. Það veldur mér nokkrum áhyggjum að stjórnarmeirihlutinn skuli vera andvígur því að við öll skulum eiga í allri framtíð grunnnetið því að þá vakna upp ákveðnar grunsemdir um það að menn ætli e.t.v. að selja hluti í þessu nýja hlutafélagi á næstunni.

Sérstakar áhyggjur hef ég af málefnum starfsmannanna eins og þeim er háttað nú þegar þetta mál er að fara út úr þinginu. Þriggja manna nefnd, sem samgrh. mun tilnefna, er ætlað að ganga frá öllum málum starfsmannanna sem eru öll í lausu lofti. Það er þá 7. gr. í frv. sem er aðalatriðið í starfinu á næstu mánuðum því að henni er ætlað samkvæmt frv. og þeim lögum sem líklega verða samþykkt í dag að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna breytingarinnar. Hún skal hafa heimild til þess að gera hvers kyns löggerninga, sem eru nauðsynlegir til undirbúnings stofnunar félagsins, og fyrirhugaðri starfsrækslu. Við stofnun skal félagið bundið við umrædda löggerninga. En ég hef svo sannarlega áhyggjur af því eins og félagar mínir í minni hluta samgn. að það muni verða erfitt að ganga frá samningum við þessa 2.500 starfsmenn. Ekki hefur gengið vel undanfarna mánuði. Þó svo að nokkrir fundir hafi verið haldnir með starfsmönnum hefur hvorki gengið né rekið í málefnum starfsmannanna á þeim tíma og segir það nokkuð. En ég vona samt að það sé ekki dæmi um það hvernig málum muni fram haldið í sumar.

Varðandi brtt. okkar hv. þingmanna Ragnars Arnalds og Guðmundar Árna Stefánssonar um að landið allt skuli verða eitt gjaldsvæði frá og með næsta mánuði, þá hefur meiri hlutinn enn tök á því að samþykkja þá tillögu því hún mun líklega koma til atkvæða í dag en þingið hefur nú þegar sýnt vilja sinn í því að landið verði allt eitt gjaldsvæði með því að samþykkja tillögu meiri hlutans sem því miður ætlar þessu ekki að taka gildi fyrr en um mitt ár 1998 og það er eftir að samkeppni í fjarskiptum hefur verið gefin frjáls og því líklegt að ekki verði unnt að framkvæma þann vilja þingsins þegar sá dagur rennur upp að það gangi í gildi að landið skuli verða eitt gjaldsvæði, þ.e. sex mánuðum eftir að samkeppni hefur verið gefin frjáls í fjarskiptum. Þess vegna hvarflar það að manni að hér sé um sýndarmennsku að ræða hjá meiri hluta Alþingis. Ef menn vilja í raun þá breytingu að landið verði allt eitt gjaldsvæði, ættu menn að greiða þeirri tillögu sem Ragnar Arnalds er 1. flm. að atkvæði sitt síðar í dag.

Ég held að mesta gagnrýni mín hafi komið fram í máli mínu í fyrri umræðum um málið. En ég vil ítreka að það er krafa okkar þingmanna í samgn., a.m.k. í minni hlutanum, að það verði búið að ganga frá málefnum starfsmannanna, herra forseti, fyrir haustið. Samgöngunefndarmenn munu fylgjast með því hvernig vinnunni miðar hjá undirbúningsnefndinni sem verður að störfum í sumar og munu reyna veita það aðhald sem unnt er í þeim efnum. En málefni starfsmannanna verða að vera komin á hreint áður en þessi lög ganga í gildi.

Ég vil einnig að lokum, herra forseti, leggja áherslu á það að eins og staðið var að málinu þá vil ég frábiðja mér alla ábyrgð á því og vísa henni alfarið til ríkisstjórnarinnar.