Málefni fatlaðra

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 12:04:43 (7165)

1996-06-04 12:04:43# 120. lþ. 160.91 fundur 341#B málefni fatlaðra# (umræður utan dagskrár), RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[12:04]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að sú umræða sem hér fer fram fær ekki þá þungavigt sem henni var ætluð þar sem mér er nauðugur sá kostur að beina henni til starfandi félmrh. í stað Páls Péturssonar félmrh. Beiðni um umræðuna var sett fram fyrir tveimur vikum og ráðherrann taldi sig þá þurfa tíma til að skoða málin. Ég hef ekki rekið harkalega á eftir því að málið kæmist á dagskrá en ég minnti á umræðuna nær daglega og þess vegna lít ég það alvarlegum augum að ráðherrann sé horfinn til útlanda án nokkurrar viðvörunar og ég hlýt að draga þá ályktun að hann hafi hlaupist frá óþægilegri umræðu. Með tilliti til þessa verð ég að haga orðum mínum á annan veg en ella og fyrst og fremst draga upp mynd af stöðunni í málefnum fatlaðra til að ýta við stjórnarliðum en leggja minni áherslu á að knýja fram svör frá ráðherra sem eðli málsins samkvæmt hefur ekki upplýsingar á reiðum höndum.

Virðulegi forseti. Í desember fór fram hörð umræða í sölum Alþingis vegna fjárlagagerðarinnar og boðskapsins sem fólst í fjárveitingu til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og reksturs málaflokks fatlaðra. Óttinn við hvert stefndi hefur reynst á rökum reistur. Lítum á stöðuna.

Engin ný stöðugildi hafa fengist vegna yfirstandandi árs. Nýtt sambýli fyrir fatlaða í Vallengi í Grafarvogi stendur tilbúið, lokað og vannýtt af þessum sökum. Er það af því að ekki sé þörf og biðlistar tæmdir? Aldeilis ekki. Samkvæmt biðlista frá svæðisskrifstofu Reykjanesi í maí 1996 kemur fram að í Reykjanesi séu 103 einstaklingar á biðlista eftir búsetu. Hann skiptist þannig að 82 einstaklingar eru á svokölluðum almennum biðlista, 21 á neyðarlista og 14 börn eru á almennum biðlista meðan 7 eru á neyðarlista. Í Reykjavík eru hins vegar 214 einstaklingar á biðlista. Ég hef ekki upplýsingar um skiptinguna í Reykjavík en leiða má að því líkum að ástandið sé svipað. Á meðan 214 einstaklingar bíða úrræða í búsetumálum sínum stendur sambýlið við Vallengi vannýtt þar sem engin eru stöðugildin. Ég minni á svör ráðherrans við fyrirspurn minni nýverið um að aðeins 13 einstaklingar hafi verið útskrifaðir á sambýli af Kópavogshæli þrátt fyrir að samningar liggi fyrir um 37 á þessu ári og fyrirheit eru um að staðið verði við samninga. Hvernig má treysta áformum við þessar aðstæður?

Að undanförnu hafa borist fréttir um að erfitt ástand sé víða. Ég nefni Árland þar sem óvissa hefur ríkt um rekstur heimilis fyrir sex fjöfötluð börn í sumar. Foreldrar barnanna hafa leyst vanda vegna skorts á einu stöðugildi með því að starfa sjálf við heimilið. Þeim var tilkynnt að vegna rekstrarvanda yrði heimilinu lokað í sumar og leituðu í angist sinni til félmrh. en fátt hefur verið um svör þrátt fyrir ítrekuð erindi og sendinefndir þar til nýverið að ráðherra upplýsti að ekki verði lokað og úr verði bætt að undangenginni könnun og þjónustuþörf sem allir hlutaðeigandi hafa talið að hafi lengi legið fyrir. Óvissan í þessum málaflokki er óþolandi fyrir aðstandendur og allt annars eðlis en þar sem fullfrískir einstaklingar eiga í hlut því að oft eru engin úrræði ef til lokunar kemur og það þekkjum við að þegar naumt er skammtað eru viðbrögðin að loka.

Skemmst er að minnast tveggja tilfella frá sl. vetri, annars vegar Bjargs þar sem fullorðnir einstaklingar hafa átt heimili sitt í áratugi og meðferðarheimilisins fyrir börn við Kleifarveg, en bæði þessi heimili eru félagsleg úrræði á heilbrigðissviði. Viðbrögðin voru þau að loka þegar skorið var niður á fjárlögum. Enn eitt dæmi er heimilið við Hólaberg en þar var komið á laggir skammtímavist fyrir einhverfa einstaklinga. Sú skammtímavist er nú nýtt til búsetu fyrir þrjá einhverfa drengi á aldrinum 9--13 ára sem allir eiga við alvarlegan atferlisvanda að stríða. Þeir geta ekki búið á heimilum sínum og hafa dvalið langtímum saman á skammtímavist sem er engan veginn viðunandi úrræði fyrir þá auk þess sem vegna búsetu þeirra hefur skammtímavistin ekki nýst öðrum börnum sem hennar þarfnast og almennt er erfitt ástand varðandi skammtímavistun á Reykjavíkursvæðinu. Foreldrar drengjanna þriggja hafa beðið úrlausnar með óþreyju og finnst staða sín óbærileg.

Ekki hefur verið hrint í framkvæmd tillögum um stofnun fagteymis varðandi einhverfa. Barna- og unglingageðdeild hefur ekki mannskap til að sinna aukinni þörf og fleiri einhverfir einstaklingar eru í dag greindir fyrr en áður var.

Nú er verið að undirbúa fjárlög til næsta árs. Gefin eru fyrirmæli um að draga saman rekstur sem nemur 5--10%. Það er mat þeirra sem að málaflokknum starfa að komið sé á leiðarenda í flötum niðurskurði. Verði haldið fast við þessi áform þýðir það lokun stofnana.

Virðulegi forseti. Í viðtali á öldum ljósvakans lét aðstoðarmaður félmrh. þau orð falla að vandi sambýlisins við Árland væri ekkert einsdæmi og í raun ríkti neyðarástand í málaflokknum. Hann segir orðrétt: ,,Það er mjög mikil þörf fyrir úrræði í málefnum fatlaðra og þeir fjármunir sem við fáum til að annast fatlaða, við verðum að velta hverri krónu tvisvar og við erum að horfa upp á mikla neyð.`` Virðulegi forseti. Það er ógnvekjandi ef skera á niður um 5--10% við þessar aðstæður og ég kalla stjórnarliða og ríkisstjórn til ábyrgðar og hvet þá til að forgangsraða og setja málefni þeirra sem minna mega sín í öndvegi.