Málefni fatlaðra

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 12:25:15 (7170)

1996-06-04 12:25:15# 120. lþ. 160.91 fundur 341#B málefni fatlaðra# (umræður utan dagskrár), ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[12:25]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrir að hefja umræðu um það ástand sem hefur verið að skapast í málefnum fatlaðra á þessum vetri. Samkvæmt öllum tölulegum staðreyndum er talið að eitt af hverjum tíu börnum búi við einhvers konar fötlun. Flest þessara barna eiga fjölskyldur og því getur þetta þýtt að fjórði hver maður getur þurft að takast á við afleiðingar fötlunar, annaðhvort eigin eða nákomins ættingja. Samkvæmt þessu snertir fötlun rúmlega 60 þúsund Íslendinga með einum eða öðrum hætti. Þetta jafngildir um helmingi íbúa Reykjavíkur. Það er því umhugsunarvert, herra forseti, að hagsmunir svo margra skuli vekja svo lítinn áhuga hæstv. félmrh. að hann skuli hverfa af landi brott vitandi það að þetta mikilvæga málefni ætti að vera til umræðu. Málshefjandi hefur gefið glögga mynd af því ástandi sem hefur verið að skapast í þessum málaflokki á undanförnu ári í kjölfar stórfellds niðurskurðar.

Kannski er litlu við það að bæta en það hefur auðvitað vakið athygli hvernig ríkisstjórnin hefur beitt niðurskurðarhnífnum af mikilli hörku gagnvart þessum viðkvæma hópi og má vart á milli sjá hvort hefur gengið harðar fram í þeim efnum, hæstv. heilbrrh. eða hæstv. félmrh.

Herra forseti. Ég tel að ríkisstjórnin hafi markað sér varanlegan sess í sögunni með framgöngu sinni í garð fatlaðra og fjölskyldna þeirra. Lög um málefni þroskaheftra og síðar málefni fatlaðra mörkuðu vissulega tímamót í lífi þessara hópa. Með þeim var boðuð ný sýn þar sem horfið er frá ölmusuhugsun til þeirra viðhorfa að málefni fatlaðra vörðuðu mannréttindi minnihlutahópa og sem slík ættu þau að vera viðfangsefni stjórnmálanna á hverjum tíma. Með þessum lögum var staðfest að það ætti að skapa fötluðum sambærileg lífskjör og aðrir njóta.

Um þessi markmið laganna hefur ríkt þokkaleg sátt fram að þessu og þeim árum sem liðin eru frá setningu laganna hafa fatlaðir átt málsvara innan þeirra ríkisstjórna sem hafa setið frá þeim tíma. Þessa sátt hefur hæstv. ríkisstjórn nú rofið og skilið við málaflokkinn í upplausn og jafnframt sýnt að málsvarar fatlaðra innan þessarar hæstv. ríkisstjórnar eru vandfundnir. Þeir hv. þingmenn Framsfl., sem börðu sér hvað mest á brjóst fyrir kosningar fyrir ári, hafa annaðhvort þagnað eða slegið á nýja tóna þegar málefnið ber á góma. Nú eru orð dagsins þau að það þurfi að skoða betur hvernig farið verður með fjármuni í þessum málaflokki. Jafnvel er farið með dylgjur um að sumum sé ofþjónað og því þurfi að breyta.

Herra forseti. Ég er rétt að ljúka máli mínu. Ég hefði vonað að hæstv. félmrh. hefði sýnt fötluðum þá virðingu að vera til staðar í dag til þess að ræða þetta málefni en því miður verðum við að fá aðra félaga hans til að senda honum skilaboð. Að lokum skora ég á hæstv. ríkisstjórn að hefja strax undirbúning að því að gefa Alþingi skýrslu um stöðu málaflokksins og leggja hana fyrir Alþingi strax í haust.