Málefni fatlaðra

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 12:28:38 (7171)

1996-06-04 12:28:38# 120. lþ. 160.91 fundur 341#B málefni fatlaðra# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[12:28]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það er ekki unnt í svo knöppu formi sem hér er í umræðu að fara yfir fjárlagagerð næsta árs enda er hún ekki komin á hendur fjárln. enn og er í hendi ríkisstjórnarinnar þar sem hafa gengið til stofnana almenn tilmæli um að skoða 5% samdrátt en ég undirstrika það eins og hefur komið fram í umræðum að það er ekki þar með sagt að það náist í þeim stofnunum sem um ræðir. Í fjárln. hefur verið skilningur í þessum málaflokki og við í nefndinni höfum fylgst með þeim málum sem upp hafa komið og það er ekki ætlunin að stuðla að því að stofnunum verði lokað. Það mun verða fylgst með þeim málum og ég hef gert það með þeim málum sem hér hafa komið til umræðu og nefnd hafa verið hér.

[12:30]

Það er satt að segja dálítið undarlegt að heyra tvo hæstv. fyrrv. félmrh. koma upp og tala eins og aldrei hafi komið upp nein vandræði í þessum málaflokki á liðnum árum. Það mætti halda það af ræðum þeirra tveggja hæstv. fyrrv. félmrh. sem hér hafa talað. Það er mikil þörf í þessum málaflokki og ég held að flestir og allir þingmenn séu þeirrar skoðunar að það þurfi að gæta að málum þannig að það sé hægt að veita þjónustu. Og ég kannast ekki við þau ummæli að um ofþjónustu sé að ræða í þessum málaflokki, þ.e. að einhverjir einstakir þingmenn Framsfl. hafi látið sér það um munn fara. Ég vísa þeim ummælum algerlega á bug og kannast ekki við þau. Ég veit ekki annað en það sé samstaða um að reyna að gera þessum málaflokki þannig til góða í þröngri stöðu að það sé hægt að veita þá þjónustu sem þörf er á. En vissulega eru fjármunir af skornum skammti. Það er ekki nýtt heldur --- það var búið að ryðja brautina í því --- að taka hluta Framkvæmdasjóðs fatlaðra til rekstrar eins og kom fram í ræðu hæstv. fyrrv. félmrh. Það er því ekki nýtt mál heldur. (JóhS: Að skerða tekjurnar er nýtt.)