Málefni fatlaðra

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 12:31:47 (7172)

1996-06-04 12:31:47# 120. lþ. 160.91 fundur 341#B málefni fatlaðra# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[12:31]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Auðvitað kalla ég það að hlaupa frá verki þegar ráðherra lætur engan vita að hann sé að hverfa á brott því að hefði forseti vitað að ráðherra væri á förum, þá hefði hann sett þetta mál á dagskrá. Svo oft hef ég minnt á það á undanförnum dögum. En auðvitað hefur ráðherrann gleymt þessu. Maður gleymir auðvitað því sem manni finnst ekki merkilegt.

Varðandi þungavigtarumræðuna, virðulegi forseti, þá laut það að umræðunni og ég ætla ekki að gefa umhvrh. slakari einkunn en félmrh. svo að það sé klárt hér. Ég þekki það af eigin reynslu að það kemur við þegar er samdráttur og það er ekki hægt að gera allt. En ég ætla að halda því fram hér með alveg fullum þunga að Alþfl. hefur alltaf varið þennan málaflokk og haft hann að forgangsmáli. Það hefur verið samstaða eins og hér hefur komið fram um að verja Framkvæmdasjóð og uppbygginguna og gefa því forgang en sú samstaða brast í desember, því miður. Og það að taka af Framkvæmdasjóðnum í rekstur miðaði að því að hverfa frá ákveðinni stofnanaþjónustu og fara í liðveislu út í þjóðfélaginu fyrir fatlaða sem er góður gjörningur gagnvart fötluðum.

Þegar verið er að tala um að viðbótin sé 50 millj. í rekstur, þá verða menn að horfa á það að eitthvað eykst í rekstrinum þegar framhald er á rekstri stofnana sem opna á miðju ári. Það er ekki aukning. Það er eðlilegt, framhald á einhverju sem þegar hefur verið gert. Og ég er undrandi á þeim orðum að líta á það sem vandamál að fyrrverandi stjórnvöld hafi tekið ákvarðanir út frá gefnum forsendum, svo sem óbreyttu framlagi í Framkvæmdasjóðinn. Ég nefni það varðandi útskriftir af Kópavogshæli að gengið var frá því að 37 stöðugildi fylgdu og það eru væntanlega þessar 50 millj. sem eru tilfærslur frá menntmrn. Það eru núverandi stjórnarflokkar sem skerða Framkvæmdasjóðinn og skapa aðstæður sem við berum ótta af. Við höfum verið að ræða forgangsmál flokka. Það vantar alltaf peninga. Við höfum verið að ræða fjármagnstekjuskatt sem lækkar skatt af arði um hundruð milljóna. Við höfum talað um lækkað vörugjald sem lækkar gjöld af bifreiðum fyrir þá sem kaupa dýrar bifreiðar, á sama tíma og í desember var skorið niður um 5 og 10 milljónir í svo viðkvæmum málaflokki. Þess vegna segi ég að Framsfl. virðist nú tilbúinn í slaginn til að aflétta á stóreignafólki og það er minni reisn þegar verja á veika hópa.

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að ríkisstjórnin veiti þessu máli forgang. Það er mjög brýnt.